Heilsuþjálfun fyrir 60+

0
219

Sporthöllin og Sveitarfélagið Hornafjörður ætla að halda áfram að bjóða eldri borgurum upp á heilsueflingu í Sporthöllinni eins og var gert fyrir sumarfrí.
Tímarnir byrja 13. september og verða tvisvar sinnum í viku, á þriðjudögum og fimmtudögum frá kl.10:30-12:00.

  • Vilt þú bæta heilsuna og ná betra jafnvægi?
  • Vilt þú auka styrk, hreyfigetu og úthald við dagleg störf?

Ef þú ert 60 ára eða eldri, vilt gera einfaldar æfingar, fá aðhald og markvissa hreyfingu í góðum félagsskap þá eru þetta tímar fyrir þig.

Hvað gerist þegar við eldumst?

Með hækkandi aldri dregur úr vöðvamassa, styrk og þoli. Rýrnun á vöðvamassa og minnkandi styrkur hefur gífurleg áhrif á daglegt líf.
Styrkur í neðri hluta líkamans er meðal annars nauðsynlegur til daglegra athafna eins og að fara í göngu, ganga upp og niður stiga, stíga upp úr stól eða setjast á salerni og standa upp aftur.
Styrkur í efri hluta líkamans er ekki síður mikilvægur, því hann nýtist við heimilisverk, garðvinnu og svo margt fleira.
Rannsóknir hafa sýnt að það er aldrei of seint að byrja að hreyfa sig. Jafnvel þegar komið er á efri ár hefur regluleg hreyfing jákvæð áhrif eins og sýndi sig hjá hópnum sem var með okkur á síðasta misseri. Allir sem nýttu sér heilsuræktina bættu :
Vöðvastyrk, liðleika og þar með hreyfingu. Bættu öll þolið, jafnvægi og samhæfingu.
Ávinningurinn er svo mikill að stunda styrktarþjálfun með almennri hreyfingu, efnaskiptin batna, beinin styrkjast, hraði eykst sem og öryggi og léttir lundina sem vinnur gegn streitu og þunglyndi. Í upphafi veður boðið upp á mælingar tengdar liðleika, hreyfifærni, þolgetu, vöðvastyrk og heilsu.
Tímarnir voru frábærir og félagsskapurinn ekki af verri endanum, þakklæti og gleði var það sem einkenndi alla sem mættu til Kollu í þjálfun.
Við hvetjum alla sem vilja koma og prófa að mæta á þriðjudaginn eða senda á kolla@sporthollin.is og skrá sig.
Hlakka til að taka á móti ykkur.

Kolla Bjöss IAK einkaþjálfari og
Yoga alliance kennari.