Óvissu hefur verið eytt um dýpkun Grynnslana utan við Hornafjarðarós sem eru lífæð samfélagsins í Hornafirði. Um þau þurfa allar siglingar til og frá Höfn í Hornafirði að fara. Á þeim byggist samfélagið. Landris hefur mælst einna mest á Hornafirði og fyrir liggja spár um áframhaldandi landris á næstu árum. Fyrirséð er að rennslið um ósinn muni minnka ef ekkert er að gert.
Rannsóknir hafa verið gerðar til að leita skilning á flóknu samspili strauma og efnisflutninga og tímabundnar dýpkanir verið gerðar. En betur má en duga skal. Samhliða aðgerðum verði áfram unnið að rannsóknum á náttúrulegum aðstæðum í Grynnslunum. Málið var kynnt á dögunum á ríkisstjórnarfundi.
Ég hef því falið Vegagerðinni að hefja dýpkun innsiglingarleiðar og tryggja þannig áfram rekstrarhæfi hafnarinnar. Aðgerðir verða unnar í samstarfi við sveitarfélagið og Hornafjarðarhöfn. Leitast verður eftir samningum sem tryggja viðveru dýpkunarskips sem verði staðsett í Höfn í Hornafirði frá og með desember nk. Skipið muni nýta alla möguleika sem gefast vegna veðurs til þess að dýpka siglingarrennuna.
Samtímis verður unnið að rannsóknum á náttúrulegum aðstæðum í Grynnslunum, þar með talið að stöðugum dýptarmælingum. Danska ráðgjafafyrirtækið DHI hefur unnið að rannsóknum í innsiglingunni á þessum slóðum, þ.á m. dýptarmælingum sem staðfesta að aðstæður eru erfiðar vegna sandburðar. Markmiðið er að kortleggja enn betur strauma og leita hagkvæmustu leiða til viðhalda æskilegu dýpi í innsiglingunni til framtíðar.
Niðurstöður rannsókna DHI benda til þess að siglingarennan sem dýpka þarf í gegnum Grynnslin fyllist nokkuð hratt af sandi í óveðrum. Viðvarandi dýpkun er því mikilvæg svo hægt verði að nýta þau tækifæri sem gefast til þess að dýpka og viðhalda æskilegu dýpi. Vegagerðin mun svo í samráði við heimafólk nýta þá reynslu til að móta langtímaaðgerðir til að tryggja rekstrarhæfi hafnarinnar á Höfn.
Samgönguáætlun 2024-2038 var kynnt í vikunni og verður í samráðsgátt á næstu vikum. Þar er skýrt kveðið á um mikilvægi verkefnisins fyrir Hornafjarðarhöfn svo hún geti þróast í takt við stærri og djúpristari fiskiskipaflota og flutningaskip. Áhersla er lögð á dýpkun á Grynnslunum með það að markmiði að útfæra hana þannig að dýpinu sé viðhaldið.
Miklir hagsmunir eru í húfi fyrir íbúa á svæðinu að það takist að tryggja rekstrarhæfi hafnarinnar og þeirrar útgerðar sem þar starfar. Umfjöllun Alþingis þarf að taka mið af því og heimildin að endurspeglast í fjárlögum ár hvert. Að því mun ég vinna.
Sigurður Ingi Jóhannsson,
innviðaráðherra og formaður Framsóknar