Mánudaginn 29. ágúst síðastliðinn fóru sautján nemendur í FAS sem stunda nám í áfanganum „Inngangur að náttúruvísindum“ í árlega rannsóknarferð á Skeiðarársand. Þar eru fimm 25 m2 gróðurreitir á vegum FAS og var ferðin núna tíunda sinnar tegundar. Veður var eindæma gott; logn, sól og hiti um 12 gráður.
Megintilgangurinn með ferðinni er að fylgjast með breytingum á sandinum en einnig að fá nemendur til að skoða náttúruna í kringum sig og FAS hefur alla tíð lagt á það áherslu að gera nemendur meðvitaða um umhverfi sitt. Í ferðinni fá allir nemendur hlutverk við athuganir og skráningu á náttúrunni.
Oft hafa sést meiri breytingar á milli ára en núna. Reyndar var töluvert um nýjar plöntur í reitunum en þær eru enn svo litlar að þær voru ekki mældar sérstaklega. Til að komast í þann hóp að fylgst sé með plöntum árlega þurfa þær að hafa náð a.m.k. 10 cm hæð.
Þegar farið er á milli reitanna má sjá mörg tré sem eru hærri en þau innan reita FAS. Núna var ákveðið að fylgjast sérstaklega með þremur stórum trjám, tvö þeirra eru ofan í jökulkeri og eitt ekki langt frá gömlu réttinni á sandinum. Stærsta tréð er annað tréð í jökulkerinu og mældist hæð þess 3,32 metrar. Það tré hefur þó brotnað að hluta og óvíst hvaða áhrif það mun hafa. Staka tréð fylgir fast á eftir en hæð þess er 3,24 m.
Eftir ferðina vinna nemendur skýrslu. Vinnan felst m.a. í því að skoða tölulegar upplýsingar á milli ára og velta fyrir sér líklegum skýringum á breytingum. Það fer vel á því að enda á lokaorðum í samantekt frá einum hópnum:
„Okkur þótti þessi ferð vera mjög fræðandi og skemmtileg. Það kom okkur á óvart hversu mikið af trjám var úti á sandinum miðað við það sem við sjáum frá veginum og óhætt er að fullyrða að allir í hópnum hafi lært mikið á ferðinni. Við áunnum okkur ný vinnubrögð, lærðum að lesa í umhverfið og urðum meðvitaðri um gróðurinn í nágrenni okkar. Út frá hópavinnunni spunnust síðan líflegar umræður, og lærðum við því ekki síst mikið af hvert öðru“.
Líkt og fyrri ár verða niðurstöður ferðarinnar birtar á http://nattura.fas.is/.
Eyjólfur Guðmundsson
Hjördís Skírnisdóttir
Kristín Hermannsdóttir