Í síðustu viku voru staddir hér á Höfn tæplega 50 manns frá samstarfsskóla FAS í Nordplus verkefni sem hefur verið í gangi í vetur. Verkefnið ber á íslensku yfirskriftina Góður granni er gulli betri og er þar verið að vísa til samskipta Íslands og Danmerkur í gegnum tíðina. Fyrir áramót var aðal áherslan lögð á að skoða tengsl þjóðanna allt þangað til að Ísland varð lýðveldi 1944. Þá var samskiptamál verkefnisins danska. Um mánaðamótin október/nóvember fór 27 manna hópur til Danmerkur og var þar í rúmlega viku. Auk þess að heimsækja samstafsskólann, sem er heimavistarskóli í Fårevejle á Sjálandi, þá dvöldu íslensku krakkarnir hjá fjölskyldum félaga sinna yfir helgi og voru þá dreifðir um allt Sjáland. Í ferðinni voru einnig margir sögufrægir staðir skoðaðir, s.s. Rósenborgarhöll og dómkirkjan og víkingasafnið í Hróarskeldu auk þess sem gengið var um slóðir Íslendinga í dönsku höfuðborginni.
Eftir áramótin voru áherslur aðrar. Í fyrsta lagi var þá samskiptamálið enska og þá var líka sjónum beint að Sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og sérstaklega að þeim markmiðum sem fjalla um ábyrga neyslu, loftlagsbreytingar og breytingar í sjó. Í skólanum í Fårevejle var mikill áhugi fyrir því að taka þátt í verkefninu og fá að fara í ferð til Íslands. Venjan er þó sú að jafnmargir nemendur séu í hvoru landi í svona verkefnum og þeir búi hverjir hjá öðrum meðan á heimsóknum stendur. Það var því nokkur áskorun að koma um 50 manns fyrir því aðstæður eru mismunandi hjá fólki. Á endanum tókst að koma öllum fyrir í heimahúsum á meðan að gestirnir dvöldu hér. Þetta er fjölmennasta verkefni sem FAS hefur tekið þátt í hingað til.
Dagana hér eystra var mikil dagskrá í gangi og auk þess að vinna að sameiginlegum verkefnum með íslenska hópnum fóru gestirnir í margar heimsóknir bæði í stofnanir og fyrirtæki á staðnum. Íslensku nemendurnir höfðu undirbúið og skipulagt dagskrána. Það verður að segjast eins og er að okkar fólk stóð sig þar frábærlega vel. Það er líka alveg einstakt og ómetanlegt hversu fyrirtæki og stofnanir eru tilbúin til að taka á móti gestum og segja frá þeirri starfsemi sem fer fram innandyra. Fyrir það erum við afar þakklát og ekki síður eiga fjölskyldur okkar nemenda þakkir skyldar því stór hluti nemenda tók að sér tvo gesti eða jafnvel fleiri.
Sameiginlegri dagskrá á Höfn lauk svo á föstudagskvöldið með pizzuhlaðborði á Hótel Höfn í boði gestanna. Þar voru einnig veittar viðurkenningar fyrir þátttöku í verkefninu og liðið sem bar sigur úr bítum í ratleik sem fór fram á miðvikudag fékk verðlaun fyrir frammistöðuna.
Strax síðastliðið haust var leitað tilboða í flug og hagstæðustu tilboðin komu frá WOW og var þeim tekið. Báðir hóparnir pöntuðu flug með WOW. Þegar íslenski hópurinn var ytra bárust fréttir af því að flugfélagið ætti í vandræðum en það fór þó allt vel. Undanfarnar vikur höfum við áhyggjur af síendurteknum fréttum af vandræðum WOW og það var nokkur léttir þegar gestirnir voru komnir til landsins í byrjun síðustu viku. Það var hins vegar mikið áfall að heyra af því um miðja viku að flugfélagið væri hætt starfsemi. Það er nefnilega ekki sjálfgefið að það sé hægt að koma svo stórum hópi í flug með litlum fyrirvara. Þau mál leystust þó farsællega og fékk hópurinn flug til Kaupmannahafnar á sunnudagskvöldið.
Eins og í mörgum fyrri samstarfsverkefnum hefur verið gerð vefsíða fyrir verkefnið. Þar er að finna upplýsingar um þátttakendur, helstu verkefni og svo dagbókarfærslur með ferðasögunum. Slóðin á verkefnið er https://godnabo.fas.is/. Þetta verkefni hefur gengið ljómandi vel en það verður þó að viðurkennast að þegar báðir hópar eru komnir saman eru það rúmlega 70 manns og það er nokkuð flókið að skipuleggja vinnu fyrir svo stóran hóp svo allt gangi vel.
Það er alltaf gaman að sjá að í samstarfsverkefnum sem þessum þá verða margir þátttakendur góðir vinir og mynda góð og náin tengsl sem jafnvel eiga eftir að vara til framtíðar. Miðað við hversu ánægðir gestirnir okkar voru með Íslandsdvölina er ekki ólíklegt að við eigum eftir að sjá einhverja þeirra aftur hérlendis.
Kærar þakkir öll sem aðstoðuðu okkur á einn eða annan hátt.
Hjördís og Guðmundur Ingi
Dear parents of the students at FAS
To all of you, who opened your homes and housed Danish students during our stay in Höfn. We wish to give you a heartfelt thank you. Thank you for taking such good care of the students. As you all may very well know, teenagers can be both smelly and lazy and yet you chose to house more of them; -some of you several even.
All our students have had an unforgettable time in your beautiful town, were both you as well as the local community showed us all what hospitality truly means. For that we are very grateful.
Thank you allBest wishes
The teachers and students from Fårevejle Efterskole