Gjöf Verkalýðsfélagsins Jökuls til Félags eldri Hornfirðinga

0
206

Nýlega var borið í hús veglegt afmælisrit Félags eldri Hornfirðinga í tilefni 40 ára afmælis félagsins. Þar er m.a fjallað um kaup félagsins á Miðgarði (Miðtúni 21) en þar segir:
Á fundi 29. nóvember 1989 var tilkynnt um kaup félagsins á húsnæði Jökuls á Miðgarði við Miðtún sem hafði verið í umræðu í nokkra mánuði og fékk félagið fljótlega aðstöðu þar þótt ekki hafi verið gengið frá afsali fyrr en í september 1990. Lagði sveitarfélagið til 1 milljón í útborgun á húsnæðinu en félagið sá um reksturinn.
Undirriðuð, f.h. stjórnarmanna í Verkalýðsfélaginu Jökli á þessum tíma, saknar þess að ekki sé getið um gjöf Jökuls til félags eldri Hornfirðinga, en um þetta er fjallað með skýrum hætti á bls. 313 í sögu félagsins, Kolalausir kommúnistar á Hornafirði en þar segir m.a þegar fjallað er um sölu hússins:
Seinna kom félag aldraðra á Höfn til skjalanna og úr varð að það keypti hlut Jökuls í húsnæðinu með tilstyrk Hafnarhrepps. Greiðsla fyrir húsnæðið nam einni milljón króna. Upphaflegur samningur hafði gert ráð fyrir að kaupverð yrði 2,8 milljónir króna, en þegar gengið var frá samningum kom í ljós að Verkalýðsfélagið Jökull hafi fellt niður 1.8 milljón króna og gaf félagi aldraðra þá upphæð eftir. Félag aldraðra fékk húsið svo til afnota 1. desember 1989. Í janúar 1990 var endanlega gengið frá sölu hússins.
Með öðrum orðum, félagsmenn í Verkalýðsfélaginu Jökli gáfu félagi eldri Hornfirðinga 1,8 milljón í húsnæðinu Miðgarði á sínum tíma og telur undirrituð rétt og eðlilegt að þess sé getið.

Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir