Áfangastaðaáætlun Suðurlands er unnin með því markmiði að sameina hagaðila í ferðaþjónustu, móta framtíðarsýn fyrir svæðið í heild sinni og stefnu til að ná henni. Áfangastaðaáætlun er tækifæri fyrir sveitarfélög, ferðamálasamtök, ferðaþjónustufyrirtæki og aðra hagaðila í ferðaþjónustu til að fara fram sameiginlega og í samstarfi til næstu ára og byggja þannig ofan á þá vinnu sem þegar hefur átt sér stað við gerð áfangastaðaáætlunar.
Markmið með áætluninni: Draga fram sameiginlega sýn sem sunnlendingar og aðrir sem starfa í ferðaþjónustu á Suðurlandi geta stefnt að og verið stolt af.
Unnið var með fjölbreyttum hópi hagaðila og var nýtt sú svæðaskipting sem dregin var fram í Markaðsgreiningu Suðurlands árið 2016. Suðurlandi var þá skipt upp í:
Vestursvæði:
Ölfus, Sveitarfélagið Árborg, Hveragerði, Flóahreppur, Grímsnes- og Grafningshreppur, Bláskógarbyggð, Hrunamannahreppur, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Ásahrepp og Rangárþing ytra
Katla jarðvangur & Vestmannaeyjar:
Rangárþing eystra, Mýrdalshreppur, Skaftárhreppur og Vestmannaeyjabær
Ríki Vatnajökuls
Sveitarfélagið Hornafjörður
Áfangastaðaáætlun DMP fyrir Suðurland er afurð umfangsmikilla 12 mánaða vinnu undir forystu Markaðsstofu Suðurlands. Rúmlega 40 manns unnu þétt saman í vinnuhópum á svæðunum þremur auk þess sem tekin voru viðtöl og farið í heimsóknir til yfir 30 aðila. Einnig mættu um 100 manns á íbúafundi sem haldnir voru á öllum svæðum en að auki voru send drög til umsagnar og athugasemda til allra sveitarfélaga á Suðurlandi.
Áfangastaðaáætlun er heildstæð áætlun sem nær yfir samspil ferðaþjónustunnar, samfélagsins og náttúrunnar. Innan hennar er dregin fram framtíðarsýn svæðisins á sviði ferðaþjónustunnar, helstu markmið og aðgerðir til að láta framtíðarsýnina verða að veruleika þannig að jafnvægi skapist milli ferðaþjónustu, samfélags og náttúru.
Helstu niðurstöður lúta að samgöngum, náttúruvernd, áhrifum ferðaþjónustunnar á samfélög, samtal og samvinnu, gjaldtöku, stýringu og dreifingu ferðamanna, sjálfbærri þróun í ferðaþjónustu, ábyrgri ferðahegðun, gæði og gæðamálum, upplýsingagjöf, merkingum og fræðslu, öryggi og aðgengi og rannsóknum og hagtölum í ferðaþjónustu.
Næstu skref eru að vinna betur í þeim aðgerðaráætlunum sem komu fram í áætluninni, skoða hverjir eru ábyrgðaraðilar, hvaðan fjármagnið þarf að koma, hvort aðgerðir séu raunhæfar og hvernig aðgerðir tengjast öðrum áætlunum svo að dæmi séu tekin.
Einnig verður farið í kynningu á áætluninni og samræmingu með helstu hagaðilum líkt og sveitarfélögum, ferðamálasamtökum og fyrirtækjum svo að dæmi séu tekin.
Stefnt er að birta áætlunina í lok sumars. Frekari upplýsingar má finna á heimasíðu Markaðsstofu Suðurlands https://www.south.is/is/dmp.