Í síðustu viku lögðu þrír fulltrúar frá FAS land undir fót og héldu í fimm daga ferð til Fort William í skosku hálöndunum, til að taka þátt í námskeiði. Þetta voru þau Sigurður Ragnarsson og Hulda Laxdal Hauksdóttir kennarar og leiðsögumenn og Sólveig Sveinbjörnsdóttir leiðsögumaður.
Námskeiðið var haldið á vegum ADVENT menntaverkefnisins sem FAS er í ásamt Ríki Vatnajökuls, Rannsóknarsetri Hí og skólum, rannsóknarstofnunum og ferðaþjónustuklösum í Skotlandi og Finnlandi. Verkefnið er styrkt af Erasmus+.
Námskeiðið var eitt af níu tilraunanámskeiðum sem prufukeyrð verða í ADVENT verkefninu.
Háskólinn í Fort William (UHI) skipulagði námskeiðið sem bar enska heitið Guiding and Interpretation og snérist um leiðsögumennsku, framkomu og hvernig setja megi fram fræðsluefni fyrir ferðamenn á skýran og skilmerkilegan hátt. Var námskeiðið ætlað bæði starfandi fólki í ferðaþjónustu sem og nemendum í ferðamála- leiðsögu- og útivistarnámi.
Auk Íslendinganna þriggja voru þrír ferðaþjónustuaðilar og kennarar frá Skotlandi og tveir kennarar frá Finnlandi. Sambærilegt námskeið verður í framhaldinu mögulegt að keyra á Íslandi eða í Skotlandi, nema lagað að því svæði sem um ræðir í hverju landi fyrir sig.
Mánudagur og föstudagur fóru í ferðalög milli Íslands og Fort William en námskeiðið sjálft tók þrjá daga. Fyrsti námskeiðsdagurinn fór í að ræða hlutverk leiðsögumanna og hvers viðskiptavinir ætlast til af leiðsögumönnum. Einnig var farið yfir hugmyndafræði Leave no Trace sem í stuttu máli snýst um að skilja sem minnst eftir sig á sama tíma og náttúrunnar er notið á ábyrgan og öruggan hátt. Krafa sem gerð er til leiðsögumanna í auknum mæli um allan heim. Seinni partur dagsins var svo nýttur við rætur Ben Nevis, hæsta fjalls Bretlands, þar sem hugmyndafræðin var spegluð í verklegri kennslu.
Annar dagurinn hófst á að æfa mismunandi leiðsögutækni og í framhaldinu gerðar verklegar æfingar til að búa til sem besta upplifun fyrir viðskiptavini með misjafnar þarfir. Einnig var hugmyndafræði Slow Adventure skoðuð, en hún hefur verið að ryðja sér til rúms undanfarið innan ævintýraferðamennsku. Seinni parturinn fór í að fræðast um nágrenni bæjarins með þjóðgarðsvörðum frá Nevis Landscape Partnership og fór hópurinn m.a. með þeim að planta trjám. Mikið var rætt um hlutverk leiðsögumanna þegar kemur að verndun náttúrunnar og hvernig leiðsögumenn geti lagt sitt af mörkum til náttúruverndar.
Þriðja daginn var svo keyrt um nærumhverfi Fort William, skoðaðir voru vinsælir ferðamannastaðir eins og Glenfinnan þar sem hluti út Harry Potter myndunum var tekinn og söfn og gestastofur heimsóttar. Verkefni þessa dags var að skoða hvernig upplýsingar eru settar fram á mismunandi hátt og velt vöngum yfir hvernig best sé að gera það. Auk þess þurftu þátttakendur að nýta það sem þeir höfðu lært dagana á undan með því að standa fyrir kynningu eða hópefli fyrir aðra þátttakendur.
Almenn ánægja ríkti með námskeiðið og töldu allir þátttakendur að það kæmi sér vel fyrir starfandi einstaklinga í ferðaþjónustu hvar sem er í heiminum.
Næsta námskeið í ADVENT verkefninu verður haldið í Kajaani í Finnlandi í maí þar sem námskeið sem ber heitið What kind of adventure traveler are you? Customer Knowledge verður prufukeyrt. Nánar má lesa um ADVENT verkefnið á www.adventureedu.eu