Út til eyja
Stundvíslega klukkan 10:30 miðvikudaginn 18. maí stigum við 43 eldri Hornfirðingar upp í rútu frá Vatnajökull Travel og hófum þar með ferð til að heimsækja frændur okkar í Færeyjum. Eftir smá stopp á Egilsstöðum var ekið yfir kuldalega Fjarðarheiði og niður á Seyðisfjörð þar sem hersingin steig um borð í Norrænu og rútan fór á sinn stað í skipinu.
Eftir um 20 tíma þægilega siglingu, með lítilli sem engri sjóveiki farþega, komum við til Þórshafnar og innrituðum okkur á Hótel Brandan. Brandan er aðeins þriggja ára gamalt hótel sem skartar 4 ½ stjörnu. Mjög flott og nýtískulegt. Þar átti okkur eftir að líða vel þann tíma sem við dvöldum á eyjunum.
Gjógv og Gata
Daginn eftir, föstudag, var fyrsta skoðunarferðin á dagskrá. Við fengum afbragðs leiðsögukonu Maigun Solmunde að nafni. Hún talaði íslensku með færeysku ívafi og talaði skýrt og greinilega svo allir skildu vel.
Lítilsháttar rigning var þegar lagt var af stað og þoka á hæstu fjöllum.
Fyrst var haldið til Saksun sem er norðarlega á Straumey, Þar er einsök náttúra og gamalt býli þar sem býr geðstirður bóndi sem ekki er vel við heimsókn ferðamanna. Því miður brast á ausandi rigning eins og við könnumst vel við hér heima svo lítið varð af skoðun.
Næst var haldið til Gjógv á norðurenda Austureyjar. Þrátt fyrir að enn rigndi mikið gengu margir að gjánni miklu sem bærinn dregur nafn af. Þetta er þröng og djúp klettaskora þar sem bátar lögðu að og voru dregnir á land. Í Gjógv borðurðum við hádegisverð.
Næst var ekið suður eftir Austurey til Götu. Skoðuðum þar kirkjuna glæsilegu með altaristöflu eftir Trónd Patursson frá Kirkjubæ. Einnig skoðuðum við Blásastovu og fleiri hús sem hýsa safnmuni. Þrándur í Götu varð auðvitað á vegi okkar. Veðrið hafði batnað þegar hér var komið svo við gátum gefið okkur góðan tíma í Götu.
Þá var ekið til syðsta hluta Austureyjar, framhjá hinum ört vaxandi stað Runavík og gegnum nýjustu göng Færeyinga, neðansjávargöngin milli Austureyjar og Straumeyjar rétt við Þórshöfn. Göngin eru 11 km löng, glæsilegt mannvirki með hringtorgi og prýða það fallegt listaverk eftir Trónd Patursson.
Sveit í bæ
Ákveðið var að eyða laugardeginum í Þórshöfn. Ekið var með fólkið niður á Skansinn, sem er gamalt varnarvirki með fallbyssum. Flestir gengu síðan að Tinganesi þar sem stjórnarbyggingar Færeyinga eru í fallegum gömlum húsum. Eftir það dreifðist fólk í allar áttir um bæinn því nóg var að skoða.
Þórshöfn er um 22.000 manna bær mjög snyrtilegur og fallegur með sveitabæ í miðjunni og kindur á mörgum lóðum. Sannköllið sveit í bæ.
Frá Gásadal til Kirkjubæjar
Sunnudagurinn rann upp bjartur og fagur. Nú var ekið til Vogeyjar, um neðansjávargöng auðvitað, og rakleiðis til Bö og Gásadals. Þar stoppuðum við góða stund. Gásadalur er mjög afskekktur og þar búa örfáar hræður en samt eru komin jarðgöng þangað. Í Gásadal er fallegur foss, Múlafossur, sem flestir skoðuðu og þarna sést vel til eyjunnar Mykines þar sem íslenska flugvélin fórst árið 1970. Á bakaleiðinni var stoppað til að taka myndir af hinum sérkennilega Tindhólma. Síðan var ekið í gegnum Sörvág, Miðvág og Sandavág og svo aftur um göngin yfir á Straumey. Hádegisverður beið okkar í Vestmanna sem er mjög fallegur bær á stærð við Höfn. Eftir matinn var ekið fjallaleiðina að syðsta hluta Sraumeyjar til Kirkjubæjar þar sem Patursson-ættin hefur búið í marga ættliði. Þarna er mikið af gömlum húsum flestum með grasi á þökum. Garðahleðslur eru miklar og vel gerðar en það merkilegasta sem ég sá þarna var Múrinn sem svo er kallaður. Múrinn var byggður árið 1268 listilega hlaðin tóft úr grjóti og hefur verið kirkja en ekki er vitað hvort nokkurn tíma hefur verið þak á honum.
Nú var snúið aftur til Þórshafnar og fengum við að heimsækja Norðurlandahúsið og síðan heim á Hótel.
Ferðalok
Á mánudeginum var haldið heim. Nú var sjórin nánast spegilsléttur alla leiðina svo ferðin yfir hafið var mjög þægileg og flestir sváfu vel að ég held. Við komum heim kl. 14:30 á þriðjudegi allir glaðir og kátir eftir vel heppnaða ferð. Á hótelinu og einnig á skipinu var spilað og spjallað öll kvöld og mikið hlegið. Einn ferðafélaginn hafði á orði að hann hefði aldrei trúað að það væri svona gaman að vera eldri borgari. Ég held að allir sem þarna voru með í för geti tekið undir með honum.
Að lokum vil ég þakka ferðanefndinni, þeim Eiríki og Hafdísi, bílstjóranum okkar honum Andrési og öllum hinum ferðafélögunum fyrir ógleymanlega ferð og er strax farinn að hlakka til þeirrar næstu.
Sigurður Örn