Fleiri fjallaskála

0
631
Hrútafjallstindar Mynd: Valdimar Leifsson

Tek undir með Írisi Ragnarsdóttur Pedersen í grein sem birtist í Eystrahorni 16. júní sl. Hún hvetur til þess að reistur verði skáli – og rekinn – á Öræfajökli, t.d. við Sandfellsleiðina. Slík hugmynd hefur verið lengi á kreiki. Fjallamenn, sem störfuðu 1939-1968, hugðust byggja skála á hæsta fjalli landsins, líkt og þeir höfðu þá gert á Fimmvöruhálsi og í Tindfjöllum. Af því varð þó ekki. Það gefur auga leið að gistiaðstaða í 1.000 til 1.200 m hæð á Öræfajökli eykur öryggi fjallafara og gerir fleirum en ella kleift að klífa Hvannadalshnúk og aðra áhugaverða tinda þessa mikla eldfjalls. Auk þess má færa rök fyrir því að gistiaðstaða uppi í fjallinu gefur færi á að hægja á langri göngu, kjósi menn svo, og fá þannig meiri tíma til þess að njóta náttúrunnar í hæstu hæðum. Raunar er þörf á fleiri fjallaskálum í suðurjaðri Vatnajökuls; að minnsta kosti í Kjós, innst í Morsárdal (auðveldar ferðir um Skaftafellsfjöll og á tinda frá Þumli og austur að Morsárjökli) og á Hrútfjalli (opnar betur leiðir á Hrútfjallstinda sem eru glæsilegustu alpatindar landsins). Skálabygging á þessum stöðum er hlutfallslega dýr og reksturinn kostar sitt þannig að samstarf ferðafélaga, fyrirtækja og sveitarfélags þarf til þess að af geti orðið.

Ari Trausti Guðmundsson
Höfundur er reyndur fjallamaður