Fjórða tunnan

0
232

Í ljósi umræðu um fasteignagjöld, sorpgjöld og fyrirkomulag sorphirðu langar okkur að upplýsa meira um viðfangsefnið. Vegna nýrra lagabreytinga um meðhöndlun úrgangs munu verða þær breytingar á sorpflokkun hér í sveitarfélaginu að við hvert heimili verða fjórar tunnur: Plast, pappi, lífrænt og síðan blandaður úrgangur. Í þessu yfirliti viljum við fara yfir þessar breytingar ásamt öðrum viðfangsefnum í málaflokknum. Hvað? Af hverju? Hvernig? Hvað skiptir það mig máli?

Lög um meðhöndlun úrgangs og skyldur sveitarfélaga

Miklar breytingar hafa orðið á lögum um meðhöndlun úrgangs og breytingarnar tóku flestar gildi 1. janúar 2023. Markmið breytinganna er að stuðla að frekara hringrásarhagkerfi þar sem við drögum úr úrgangi og stuðlum að sjálfbærri auðlindanotkun. Ein lykilbreytingin er að sama flokkunarkerfi verður í gildi um allt land ásamt því að sömu merkingar verða notaðar fyrir tunnur og ílát sem á að einfalda flokkun og gera hana skilvirkari. Í lögunum er einnig kveðið á um miklar skyldur sveitarfélaga í málaflokknum. Bæjarstjórn hefur því það hlutverk að ákveða fyrirkomulag söfnunar á úrgangi og ber ábyrgð á söfnun heimilisúrgangs. Þá er það á ábyrgð bæjarstjórnar að starfrækt sé móttöku- og söfnunarstöð í sveitarfélaginu. Breytingarnar sem tóku gildi 1.janúar 2023 fela m.a. í sér strangari reglur á landsvísu um sérstaka söfnun heimilisúrgangs. Nú verður skylt að flokka úrgang í að minnsta kosti sjö flokka sem eru pappír, plast, lífúrgangur, textíll, málmar, gler og spilliefni. Helstu breytingarnar sem snerta því íbúa beint eru þær að núna verður flokkað í fjóra flokka við heimili í þéttbýli.

• Pappi og pappír • Plast

• Lífúrgangur (matarleifar)

• Blandaður úrgangur / almennt sorp

Mikilvægasta breytingin er sú að nú verða úrgangsflokkarnir að vera aðskildir þegar þeim er safnað og því er nauðsynlegt að gera breytingar á núverandi fyrirkomulagi við heimili og fyrirtæki. Sveitarfélagið er að vinna að sorpútboði þar sem samningur þess við Íslenska Gámafélagið rann út síðasta sumar. Ákveðið var að bíða með útboðið þar til í ár til þess að geta tekið mið af nýju lagabreytingunum. Í ljósi þess að flestir íbúar hafa gert ráð fyrir þremur sorptunnum við sitt heimili þá er þessi krafa laganna um að flokkarnir verði fjórir mjög óhentug. Við gerum okkur grein fyrir því og umhverfis- og skipulagsnefnd, ásamt starfsfólki sveitarfélagsins, hefur velt upp öllum möguleikum um hvernig megi ná markmiðum laganna um fjóra aðgreinda flokka. Til að fá álit íbúa var gerð könnun en þátttakan var ekki næg til að gefa marktækar niðurstöður. Skoðað hefur verið t.d. sá möguleiki að hafa tvískiptar tunnur en sú útfærsla krefst sérhæfðs og kostnaðarmeiri tækjabúnaðar til söfnunar. Í dag eru almennt þrjár tunnur við hvert heimili: endurvinnslutunnan (240 lítra), tunna undir blandaðan úrgang / almennt sorp (240 lítra) og tunna undir matarleifar (140 lítra). Breytingin sem lögð er til í útboðinu yrði því sú að við hvert heimili væru fjórar tunnur. Tvær tunnur (240 lítra) undir pappír og pappa annars vegar og plastumbúðir hins vegar, og tvær tunnur (140 lítra) undir matarleifar og blandaðan úrgang. Sá möguleiki verður fyrir hendi að þau sem myndu ekki vilja fjórðu tunnuna geta óskað eftir íláti undir matarleifar (35 lítra) og sett það ýmist í tunnu undir plastumbúðir eða pappír og pappa. Ílátið myndi þó ekki kosta minna en tunna undir matarleifar vegna þess að markmið laganna er að fólk greiði fyrir söfnun og meðhöndlun úrgangsins. Við gerum okkur grein fyrir því að þetta kemur illa fyrir fólk sem hefur smíðað sorpskýli þar sem þrjár sorptunnur rúmast fyrir. Heimurinn í umhverfismálum er í hraðri þróun og þurfum við öll að leggjast á árarnar til að vinna saman að þeim markmiðum sem heimurinn hefur sett sér í umhverfis- og sorpmálum.

Sorphirðu- og sorpeyðingargjöld

Samkvæmt lögum ber sveitarfélaginu að innheimta gjald fyrir meðhöndlun úrgangs. Gjaldið má aldrei vera hærra en sem nemur þeim kostnaði sem það kostar sveitarfélagið að meðhöndla úrganginn og er því ekki um tekjuöflun að ræða. Í dag er gjaldið reiknað með þeim hætti að fast gjald er innheimt á hverja fasteign. Í framtíðinni mun þó álagning byggjast á svokallaðri “Borgaðu þegar þú hendir” aðferðafræði. Markmið hennar er að íbúar og fyrirtæki greiði fyrir þann úrgang sem þau henda, hvorki meira né minna. Um áramótin tóku gildi nýjar álagningarreglur sveitarfélagsins fyrir árið 2023 þar sem sorphirðu- og sorpeyðingargjöld hækkuðu um 10%. Þessi hækkun stafar því af þessum lagabreytingum og skyldu sveitarfélaga til að innheimta gjöld í samræmi við umfang úrgangs. Fram til þessa hefur málaflokkurinn ekki staðið undir sér og núverandi hækkun mun heldur ekki leiða til þess. Hækkunin er þó hugsuð sem fyrsta skref í átt að því að innheimta fullnægjandi gjöld sem seinna verða eftir “Borgaðu þegar þú hendir” hugmyndafræðinni.

Ábyrgð okkar

Að lokum viljum við vekja athygli á því að á landvísu er áherslan nú á sjálfbærari notkun auðlinda og að minnka úrgangsmyndun. Öll sveitarfélög verða nú að róa saman í þá átt að stuðla að eflingu hringsrásarhagkerfis. Þar skiptir máli framtak hvers og eins. Neysla okkar og venjur hafa þar svo sannarlega áhrif. Gott er að spyrja sig reglulega: Hvernig get ég sem einstaklingur haft áhrif í átt til betri nýtingar auðlinda og hráefna og minni úrgangsmyndunar? Allt skiptir máli, hvort sem það er hvernig við sjálf kaupum inn, hvernig við komum úrgangi frá okkur, hvaða hugmyndir við getum lagt í púkkið í málaflokknum og hvernig við tökum virkan þátt í okkar samfélagi í eflingu hringrásarhagkerfis.

Fyrir hönd Kex,
Guðrún Stefanía Vopnfjörð Ingólfsdóttir
Helga Árnadóttir