Föstudaginn 10. september voru fjórar nýjar brýr á Hringveginum (1) sunnan Vatnajökuls formlega opnaðar. Um er að ræða brýr yfir Steinavötn, Fellsá, Kvíá og Brunná.
Samgönguráðherra Sigurður Ingi Jóhannson og forstjóri Vegagerðarinnar Bergþóra Þorkelsdóttir opnuðu brýrnar formlega á brúnni yfir Steinavötn.
Kvennakór Hornafjarðar söng á brúnni við þetta tækifæri en kórinn hefur tekið lagið á öllum einbreiðum brúm á svæðinu til að styðja við fækkun þeirra.
Með tilkomu þessara brúa leggjast af fjórar einbreiðar brýr á Hringveginum. Fækkar úr 36 brúm í 32. Unnið er að frekari fækkun en vinna er í gangi við Jökulsá á Sólheimasandi og við Núpsvötn og Hverfisfljót. Að því loknu verða einbreiðar brýr 29 talsins á Hringveginum. Árið 1990 voru þær hátt í 140 þannig að margt hefur áunnist á þeim tíma. Enn frekari fækkun er framundan á næstu árum.
Bygging brúanna fjögurra var boðin út árið 2019 en framkvæmdum lauk við þær í ár.