Búðin opnar laugardaginn 30. júní kl. 15:30 og verður opin til 17:30 en mánudagurinn 2. júlí mun vera fyrsti almenni opnunardagurinn.
Fiskbúð Gunnhildar er staðsett að Víkurbraut 4, norðurenda. Til að byrja með mun verslunin vera opin 4 daga í viku, mánudag til fimmtudags, frá kl 14:00 til 18:00. Á boðstólum verða ferskur fiskur, þorskur, ýsa, og aðrar skemmtilegar fisktegundir. Fiskréttir tilbúnir til eldunar, verða til í kæliborði.
Eigendur fiskbúðarinnar eru þau Unnsteinn Þráinsson og Bryndís Hólmarsdóttir. Unnsteinn segir það hafa blundað lengi í þeim að opna fiskbúð og vorum við alltaf með augun opin fyrir húsnæði á stað sem okkur fannst henta. Unnsteinn segir það vera nauðsyn, í hverju sjávarþorpi, að fólk hafi góðan aðgang að ferskum og góðum fiski. Fiskurinn verður keyptur af Fiskmarkaði Hornafjarðar og mun úrvalið takmarkast svolítið af því hvað verður til á markaði hverju sinni, laxinn kemur frá Djúpavogi og silungur vonandi úr firðinum, (ef tími gefst til þess að veiða), saltfiskur, gellur og fleira kemur frá Skinney-Þinganesi.
Unnsteinn vonar að bæjarbúar og aðrir taki þessu framtaki vel, og láti sjá sig í Fiskbúð Gunnhildar og segist taka vel á móti hugmyndum og tillögum. Að lokum þakka þau öllum þeim sem hafa komið að undirbúningi og aðstoðað við standsetningu búðarinnar.