Eyrún Fríða Árnadóttir

0
742

Sæl öll.
Ég heiti Eyrún Fríða Árnadóttir og skipa 1. sæti fyrir framboðslista Kex. Þrátt fyrir að hafa verið tengd sveitarfélaginu í þó nokkur ár er ég vissulega ný og langar því að kynna mig og Kexið aðeins betur. Ég er 31 árs gömul og uppalin á höfuðborgarsvæðinu. Ég flutti loksins á Höfn síðastliðið sumar með manninum mínum, Jóhannesi Óðinssyni, og tveimur dætrum okkar. Þrátt fyrir að vera nýflutt hingað þá hef ég verið reglulegur gestur hér síðan ég kynntist Jóhannesi enda er hann fæddur hér og uppalinn. Ég fann alltaf sterka tengingu hingað austur og sá ég ekki fyrir mér neinn annan betri stað til að búa á.
Í dag kenni ég þriðja bekk í Grunnskóla Hornafjarðar en ég er með BA gráðu í uppeldis- og menntunarfræði og lýk brátt mastersnámi í kynjafræði. Í háskólanámi mínu varði ég miklum tíma í hagsmunabaráttu stúdenta og hef þaðan gríðarlega reynslu úr allskyns nefndum og ráðum. Þar starfaði ég fyrir hönd allra stúdenta við Háskóla Íslands og talaði máli þeirra gagnvart æðstu stjórn skólans, ráðuneytum, Rannís og fleiri aðilum. Ég sótti og hélt málþing og ráðstefnur, starfaði með ólíkum hópi fólks og náði ásamt þeim að knýja fram ýmsar breytingar í þágu stúdenta. Það er þessi reynsla sem að hvetur mig áfram til að taka þátt í sveitarstjórnarmálum, þar sem mér þykir fátt meira gefandi en að nýta rödd mína og krafta í þágu annarra.
Hugmyndin að Kex framboði fæddist svo í hópi góðra vina nú í byrjun árs en síðan þá hefur hópurinn stækkað ört og margir bæst við. Við höfum öll, líkt og aðrir íbúar sveitarfélagsins, áhuga á því samfélagi sem við búum í og þeim ákvörðunum sem móta það. Við vildum stíga fram og sýna að öll höfum við erindi inn í sveitarstjórnarmálin enda skipta þau okkur öll máli. Við viljum leggja okkar af mörkum til þess að sveitarfélagið okkar blómstri því hér viljum við vera, ala upp börnin okkar og eldast. Við höfum lagt upp með að hlusta á raddir allra þeirra sem vilja deila þeim með okkur og það er eitt okkar helsta baráttumál að virkja raddir og skoðanir íbúa. Bæjarstjórn og íbúar sveitarfélagsins eiga að starfa saman og styðja hvert annað með uppbyggilegu samtali, upplýsingamiðlun og virðingu.
Vonandi munu sem flest ykkar sjá ykkur fært að kíkja við á kosningaskrifstofuna okkar á Úps. Þar gefst okkur færi á að hitta og spjalla við íbúa, drekka prýðisgott kaffi ásamt því að deila þekkingu og reynslu sem mun nýtast okkur og sveitarfélaginu til góðs.
Kosningaskrifstofan er opin miðvikudaga frá 16:00-18:00 og sunnudaga frá 14:00-16:00. Ég hlakka til að sjá ykkur sem flest þar!

Eyrún Fríða Árnadóttir