Hjónin Eymundur Jónsson og Halldóra Stefánsdóttir bjuggu nær alla sína ævi á Hornafirði og voru oftast kennd við Dilksnes. Eymundur fæddist að Hofi í Öræfum árið 1840 og lést á Höfn 1927. Halldóra var fædd í Árnanesi í Nesjum árið 1844 og lést í Dilksnesi 1935. Þau hófu búskap í Dilksnesi vorið 1870, eignuðust 16 börn og tóku þátt í margvíslegum verkefnum í sveitinni. Afkomendur þeirra eru fjölmargir, meðal annars hér eystra.
Eymundur lærði járnsmíði í Kaupmannahöfn og smíðaði sína eigin smiðju eftir heimkomuna. Smiðjan er ennþá til og er með merkari menningarminjum í héraðinu. Margir leituðu til Eymundar um smíði og lagfæringar á munum og áhöldum og sjálfur gerði hann sín eigin smíðaáhöld.
Af fjölmörgum öðrum störfum Eymundar má nefna að hann stundaði nokkuð lækningar áður en Austur-Skaftfellingar eignuðust sinn fyrsta héraðslækni, 1886. Þá veitti Eymundur konum fæðingarhjálp og aðstoðaði yfirsetukonur (ljósmæður) þegar á þurfti að halda. Þekkt er sagan af því þegar hann smíðaði fæðingartangir til þess að geta bjargað lífi barns og móður.
Eymundur var formaður á bátum og hafnsögumaður í áraraðir. Hann er talinn eiga mikinn þátt í því að siglingar hófust fyrir alvöru um Hornafjarðarós. Björn Eymundsson, sonur þeirra hjóna, tók síðar við hafnsögustarfinu. Björn lóðs, hafnsögubátur Hornfirðinga, heitir eftir honum.
Halldóra var dóttir Stefáns Eiríkssonar alþingismanns og Guðrúnar Einarsdóttur ljósmóður í Árnanesi. Þau Eymundur áttu því ólíkan bakgrunn en foreldrar hans voru fátæk vinnuhjú, Sigríður Jónsdóttir og Jón Höskuldsson Landeyingur. Halldóra þótti einhver mesti kvenkostur héraðsins á sinni tíð. Því kom það mörgum á óvart er þau Eymundur fóru að draga sig saman og ekki var laust við að Stefáni alþingismanni þætti dóttir sín taka niður fyrir sig með því að falla fyrir Eymundi. En Stefán samþykkti loks ráðahaginn þegar honum varð ljóst hve ákveðin dóttirin var. Með því skilyrði þó að Eymundur færi til Danmerkur að læra smíðar. Stefán þekkti líka vel til Eymundar og vissi að hann var bæði greindur og góður verkmaður.
Halldóra var gestrisin og rausnarleg húsmóðir, stóð af myndarskap fyrir heimilinu í Dilksnesi og ól börn sín upp af festu og dugnaði. Hún studdi bónda sinn í því sem hann tók sér fyrir hendur og hann er líka sagður hafa borið hana á höndum sér alla þeirra sambúð, rúmlega 60 ár. Orti Eymundur meðal annars mörg ástarljóð til konu sinnar.
Árið 1902 fluttu Dilksneshjónin til Kanada ásamt fimm sonum. Um þetta leyti fóru tugir einstaklinga úr Nesjum og víðar úr sýslunni vestur um haf í leit að betra lífsviðurværi. Eymundur og Halldóra eignuðust jarðarskika þar, byggðu sér hús og komu upp svolitlum bústofni. Nú var á ný þörf fyrir læknisaðstoð Eymundar og ýmis önnur störf tók hann að sér í landnemabyggðinni. Af ýmsum ástæðum ákváðu þau svo að snúa heim aftur fimm árum síðar, 1907, og bjuggu á Hornafirði til æviloka í skjóli barna sinna. Tveir sonanna urðu þó eftir í Kanada og sá þriðji hafði látist þar.
Árið 1910 tók Eymundur þátt í byggingu brúar yfir Laxá í Nesjum, fyrstu alvöru brúar í sýslunni. Hann sýndi þar ótrúlega hugkvæmni og þrautseigju í járnsmíðinni, þá á sjötugasta aldursári. Ári síðar var byggð ný kirkja við Laxá og lagði Eymundur einnig þar hönd á plóg.
Í tilefni af 50 ára brúðkaupsafmæli Halldóru og Eymundar 1916 færðu sveitungar þeirra þeim þakkarskjal fyrir óeigingjarnt starf að líknar- og framfaramálum í héraðinu um áratuga skeið.
Nú er unnið að því að safna efni og skrásetja frásagnir af hjónunum í Dilksnesi. Verkefnið er á vegum Þórbergsseturs með aðkomu fleiri aðila og aðstoð afkomenda. Vonast er til þess að saga hjónanna í Dilksnesi geti varpað nýju ljósi á ýmsa þætti í sögu héraðsins.
Eymundur var afkastamikill hagyrðingur. Eftir hann liggja, í fórum afkomenda og víðar, fjöldi ljóða. Hér birtist hluti af einu þeirra, ljóðið um Hvanney, sem Eymundur orti fyrir rúmri öld og birtist í sveitarblaðinu Vísi í Nesjum í janúar 1912. Í því má greina mikla lotningu sem skáldið bar fyrir náttúruöflunum en einnig frelsisþrá sem hann hélt alla tíð á lofti fyrir hönd þjóðarinnar; hún yrði að losna að fullu undan erlendum yfirráðum.
Þeir sem lesa þetta og kunna að hafa vitneskju um smíðamuni Eymundar, frásagnir hans eða sögur af þeim Halldóru, eru hvattir til þess að hafa samband við Þórbergssetur eða undirritaðan.
Í janúar 2021,
Gísli Sverrir Árnason
Hvanney
Þú stendur í brimróti öld eftir öld
og óttast ei háreista boða,
þótt Ægir þig löðrungi kvöld eftir kvöld
kallarðu alls engan voða.
Við stórvaxna ósinn með straumþunga farg
stendurðu róleg á svipinn
þú óttalaust brýtur þann volduga varg
sem vélar og karmölvar skipin.
Þig borar og sagar in harðeflda hrönn
og hafísinn veldur þér sárum
og straumtunga óssins, sú slítandi tönn
þig sleikir og nagar með árum.
Þótt boðarnir æði og brimöldu köst
byltist þér sífellt á móti
allt um það stendurðu stöðug og föst
í straumnum og haföldu róti.
Blómskraut er horfið og hvönn er ei nein
hjá þér á nútíðardögum,
þú stendur því nú með bernöguð bein
af brimróts og hríðveðra slögum.
Þú stríðir við ósjó og straumþunga magn
og stendur þó róleg og fögur
og hjá okkur vinnur þú hvívetna gagn
þótt hermi það alls engar sögur.
Þú gefur oss dæmi að hræðast ei hót
og hopa ekki þverfót úr sporum.
Þótt stærilát varmenni stríði oss mót
og stjórn-kröfum sinni ei vorum.
Þótt stórmenni leggi oss steina á braut
og stríði okkur háir sem lágir,
með þolgæði sigrum vér sérhverja þraut
þótt séum við fáir og smáir.
Ef eining ei brestur og andinn er frjáls
og orkunnar neytum sem bræður
þeir geta ei snúið oss snöru um háls
staðfesta sigrinum ræður.
Eymundur Jónsson