Félag eldri Hornfirðinga og Sveitarfélagið Hornafjörður stóðu að málþinginu „Er gott að eldast ? – staða eldri borgara í nútíð og framtíð“ þann 22. maí síðastliðinn í Nýheimum.
Í fyrri hluta málþingsins fengu gestir innsýn í stöðuna eins og hún er í dag hvað varðar þjónustu sveitarfélagsins við eldri borgara og hvað Félag eldri Hornfirðinga býður upp á í félagsstarfi sínu. Fjallað var um Heilsueflandi samfélag með sérstakri áherslu á þá þætti er snúa að eldri kynslóðinni. Fyrirlesarar voru beðnir að gefa bæði sýn á hvað er í boði í dag og líka hver framtíðarsýn þeirra er. Fengu gestir m.a. kynningu frá starfshópi innan sveitarfélagsins sem hefur það verkefni, að koma með tillögur að því hvernig megi samþætta félagslega heimaþjónustu og heimahjúkrun og tillögur þeirra um hvernig hægt er að gera þjónustuna enn betri. Markmiðið er, að það starf færist úr Sjálfstæðishúsinu við Víkurbraut 24 á haustmánuðum. Um miðbik málþingsins fengu húsnæðismálin sérstaka umfjöllun. Bæjarstjóri kynnti drög að húsnæðisstefnu sveitarfélagsins og í farvatninu væri könnun á húsnæðisþörf 50 ára+ í sveitarfélaginu. Bæjarstjóri fræddi einnig um stöðuna í hönnunarsamkeppninni um nýtt hjúkrunarheimili. Búmenn komu síðan í kjölfarið og sögðu frá sínu starfi.
Síðasti hluti málþingsins var helgaður góðum gestum. Fyrst var veitt innsýn í velferðartæknina og möguleika hennar og var þar margt fróðlegt og nýstárlegt að fræðast um. Ásdís Skúladóttir fulltrúi Gráa hersins sagði síðan frá baráttu þeirra fyrir bættum kjörum og tekjum eldri borgara og sömuleiðis sinni eigin sýn byggða á hennar viðamiklu reynslu af málaflokknum. Dagbjört Höskuldsdóttir ritari Landssambands eldri borgara kom fyrir þeirra hönd og lokaði málþinginu með orðum um sýn landssambandsins á stöðu eldri borgara bæði í nútíð og framtíðar.
Málþingið var fjölsótt og gerður góður rómur að efni þess og framsetningu. Gestir þáðu mat og kaffi í Nýheimum og um leið og þeir nutu þess náðu þeir að spjalla um efnistök erinda. Gleðigjafar kór eldri borgara, undir stjórn Guðlaugar Hestnes við undirleik Gunnars Ásgeirssonar, söng nokkur lög í hádeginu við góðar undirtektir gesta. Málþingsstjóri var Matthildur Ásmundardóttir bæjarstjóri og fórst henni það vel úr hendi.
Það er von okkar sem að þinginu stóðu að það hafi bæði svarað spurningum gesta og veitt upplýsingar um stöðu mála í dag og gefið innlit í hvað framtíðin ber í skauti sér. Rétt er að nota það sem eftir stendur að loknu málþinginu til frekari athugunar og úrvinnslu. Góðar kveðjur og þakkir bæði til gesta sem sóttu þingið og þeirra sem erindi fluttu!
Guðrún Dadda Ásmundardóttir
framkv.stj. Heilbrigðisstofnunar
Suðurlands á Hornafirði.
Haukur Helgi Þorvaldsson
formaður Félags eldri Hornfirðinga.