Dagur náttúrunnar

0
682

Umhverfissamtök Austur-Skaftafellssýslu stóðu fyrir plokk-átaki í tilefni dags náttúrunnar 25. apríl síðastliðinn en þá var einnig hreinsunarvika Sveitarfélagsins Hornafjarðar. Það stóð ekki á íbúum en gríðargott starf var unnið og meirihluti bæjarins var hreinsaður. Þar munaði líka miklu um að nemendur Grunnskóla Hornafjarðar tíndu rusl af miklum móð.
Við hjá Umhverfissamtökunum útbjuggum rafrænt kort þar sem bænum var skipt niður og þannig var auðvelt fyrir fólk að sjá hvar var búið að hreinsa og hvaða svæði voru eftir. Gekk þetta fyrirkomulag vonum framar og nú erum við komin með kerfi sem við munum nýta okkur áfram. Það er virkilega hvetjandi að geta merkt við svæði sem búið er að hreinsa og sjá um leið hvað aðrir eru búnir að afreka.
Hér má líta uppfært kort þar sem búið er að merkja nýhreinsuð svæði með gráum lit. Við viljum gjarnan reyna að grálita alla reiti fyrir lok maí og hvetjum við því íbúa til að fjölmenna inná Facebook hóp Umhverfissamtakanna og velja sér svæði til að herja á með poka, rusltínu og/eða hanska!
Allir sem hafa lagt hönd á plóg eiga þakkir skildar fyrir að leggja sitt af mörkum til samfélagsins og náttúrunnar.

Stjórn Umhverfissamtaka Austur-Skaftafellssýslu