Þann 16. nóv. sl. á degi íslenskrar tungu fékk mennta- og menningarráðuneytið Hornfirðinga til að hýsa hátíðardagskrá í tilefni dagsins. Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra heimsótti sveitarfélagið ásamt föruneyti úr ráðuneytinu og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Þau kynntu sér starfsemi mennta- og menningarstofnana á Höfn, í Nýheimum og Gömlu búð og fræddust um sögu sveitarfélagsins. Lilja gaf sér einnig tíma til að funda með skólastjórum og bæjarfulltrúum þar sem fram fór afar hvetjandi og upplýsandi samtal um áherslur í menntun til framtíðar.
Hátíðardagskráin fór fram í Nýheimum og var afar vel sótt. Nemendur í 6. bekk Grunnskóla Hornafjarðar kynntu nýyrði sem þeir höfðu smíðað í tilefni af opnun nýyrðabankans á vefsíðu Stofnunar Árna Magnússonar http://nyyrdi.arnastofnun.is/. Anna Lára Grétarsdóttir og Stígur Aðalsteinsson lásu ljóð eftir Jónas Hallgrímsson og Anna Lára og Alexandra Hernandez spiluðu á píanó og þverflautu.
Lilja veitti Eiríki Rögnvaldssyni, prófessor emeritus, Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar 2018 fyrir stuðning við íslenska tungu en „Hann hefur með störfum sínum og ástríðu lagt mikilvæg lóð á vogarskálarnar til þess að tryggja þróun og framtíð tungumálsins okkar,“ sagði Lilja við afhendinguna.
Verkefnið Skáld í skólum, sem starfrækt hefur verið frá árinu 2006, hlaut sérstaka viðurkenningu ráðherra. Verkefnið felst í því að 10 rithöfundar ferðast um landið, heimsækja grunnskóla, ræða sögur og lestur, sköpun og skrif og hjálpa nemendum að fá hugmyndir að sínum eigin sögum. Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson veitti viðurkenningunni viðtöku fyrir hönd Rithöfundarsambands Íslands.