Bygging hjúkrunarheimils á Höfn

0
541

Þann 22. júlí s.l. birtist frétt á vef Heilbrigðisráðuneytisins þess efnis að tilboð Húsheildar ehf. í byggingu hjúkrunarheimilis á Höfn hefði verið samþykkt af heilbrigðisráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti og Sveitarfélaginu Hornafirði.
Með þessari samþykkt hefur markverðum áfanga verið náð í sambandi við framkvæmd þessa, sem heimamenn hafa barist fyrir um árabil og er svo sannarlega ástæða til að fagna því.
Eigi að síður leiðir það hugann aftur í tímann og ástæða til að rifja upp nokkur atriði í því sambandi.

  • Núverandi hjúkrunarheimili var formlega vígt og tekið í notkun þann 28. nóvember 1996. Þann dag birtist grein í Eystrahorni eftir Gísla Sverri Árnason, forseta bæjarstjórnar Hornafjarðar, þar sem m.a. sagði: „ Að lokum er rétt að nefna að eins og fólk rekur minni til er bygging sú sem nú er risin aðeins fyrri áfangi af tveimur. Því þarf að undirbúa sem fyrst tillögur Austur-Skaftfellinga um það hvernig staðið verði að fullnaðarhönnun og byggingu síðari áfanga.“
  • Óhætt er að fullyrða að alla tíð síðan hafa starfandi bæjarstjórnir á hverjum tíma barist fyrir þessu verkefni. Hægt hefur miðað og það voru því gleðitíðindi í maí 2018 þegar þáverandi heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, undirritaði samkomulag við Sveitarfélagið Hornafjörð „um byggingu nýs hjúkrunarheimilis og breytingu á hluta núverandi hjúkrunarrýmis“ eins og segir í umræddu samkomulagi.
  • Í samkomulaginu var kveðið á um hönnunarsamkeppni um bygginguna og fór sú vinna fljótlega af stað. Rösku ári seinna, fimmtudaginn 20. júní 2019 voru kynntar niðurstöður úr hönnunarsamkeppni um hjúkrunarheimilið í Nýheimum á Höfn. Alls bárust sautján tillögur. Niðurstaða dómnefndar var að tillaga BASALT arkitekta og EFLU verkfræðistofu hlytu fyrstu verðlaun. Í frétt um kynningu þessa segir í lok hennar: „Stefnt er að útboð á verklegum framkvæmdum verði auglýst í byrjun árs 2020 og heimilið verði tekið í notkun 2021.“
  • Þessi ósk rættist hins vegar ekki. Framkvæmdasýsla ríkisins auglýsti loks útboð á framkvæmdinni sumarið 2021 og voru tilboð opnuð þann 7. september 2021. Tvö tilboð bárust. Ístak hf. bauð
    kr. 2.139 þúsund, en Húsheild ehf.
    kr. 1.860 þúsund. Kostnaðaráætlun Framkvæmdasýslu var kr. 1.569 þúsund og var því lægra tilboðið l8,5% hærra en kostnaðaráætlun. Þann 15. október 2021 tók Framkvæmdasýslan ákvörðun um að hafna báðum tilboðum að höfðu samráði við heilbrigðis- og fjármálaráðuneyti. Í frétt RUV þann 27.október 2021 segir: „Bæjarstjórn á Hornafirði er ekki sátt við það og samþykkti bókun þar sem afstaða ríkisins er hörmuð. Verkefnið hafi dregist fram úr hófi og á sama tíma hafi byggingarkostnaður hækkað verulega. Sveitarfélagið hafi nú þegar greitt tæpar 200 milljónir í undirbúning. Þess er vænst að Framkvæmdasýsla ríkisins skoði hvaða leiðir séu færar án þess að bjóða þurfi út framkvæmdina á ný. Bæjarstjórn skorar á þingmenn og ráðherra Suðurkjördæmis að styðja Sveitarfélagið Hornafjörð í að framkvæmdin hljóti framgöngu án frekari tafa.“
  • Tíminn leið. Mikillar óþolinmæði og óánægju hefur gætt meðal íbúa og heimilisfólk á hjúkrunarheimilinu tók sig til og mótmælti með reglubundnum hætti og krafðist framkvæmda. Það var loks þann 8. júlí s.l. að opnuð voru að nýju tilboð í framkvæmdir við Hjúkrunarheimili á Höfn. Eitt tilboð barst. Húsheild ehf. bauð kr. 2.080 þúsund, en kostnaðaráætlun Framkvæmdasýslu ríkisins var
    kr. 1.892 þús. Tilboðið var þannig 9,9% yfir kostnaðaráætlun. Það var loks þann 22.júlí s.l. sem frétt birtist á vef Stjórnarráðs Íslands um að heilbrigðisráðuneytið, fjármála- og efnahagsráðuneytið og Sveitarfélagið Hornafjörður hefðu samþykkt að taka tilboði Húsheildar ehf. . „ Miðað er við að framkvæmdir hefjist á haustmánuðum 2022 og heimilið verði tekið í notkun árið 2024“ eins og segir í umræddri frétt.

Veltum nú aðeins fyrir okkur hvernig fjárhæðirnar sem um ræðir hafa þróast á þessum langa meðgöngutíma. (sjá meðfylgjandi töflu)

Þegar tilboðum var hafnað í október 2021 var það á þeim forsendum að vinna þyrfti að breytingum á hönnun sem gætu leitt til lækkunar byggingarkostnaðar. Ekki verður séð af ofangreindum staðreyndum að það hafi borið árangur.

Niðurstaðan er að það tilboð sem nú er búið að samþykkja er 220 milljón krónum hærra en fyrra tilboð. Sé fyrra tilboð Húsheildar framreiknað með byggingarvísitölu er það eigi að síður 77 milljónum hærra.
Athygli vekur líka að nú hækkar kostnaðaráætlun Framkvæmdasýslu um 20,56% á sama tíma og byggingarvísitala hækkar um 7.69%. Er óeðlilegt að spurt sé. Hvar er sparnaðurinn ?
Á fundi Bæjarstjórnar Hornafjarðar þann 18. ágúst s.l. vakti Ásgerður K. Gylfadóttir, bæjarfulltrúi athygli á þessu og hve mikil þessi hækkun væri. Þetta kostaði sveitarfélagið um 50 milljón krónum meira nú en ef tilboði Húsheildar ehf frá september 2021 hefði verið tekið.
Niðurstaðan er sorglegt dæmi um sóun á peningum almennings og tíma sem betur hefði verið nýttur til framkvæmda.
Er hugsanlegt að einhverjir í hinni opinberu stjórnsýslu Framkvæmdasýslunnar, heilbrigðis­ráðuneytisins eða fjármála- og efnahagsráðuneytisins séu stoltir af árangrinum ? Spyr sá sem ekki veit.

Hermann Hansson