Bráðabirgðarbrú yfir Steinavötn

0
7298
Sjá má að undirstöður búarinnar hafa sigið í vatnsflaumnum. Mynd: Björn Ingi Jónsson

Þjóðvegur 1 er enn lokaður við Hólmsá á Mýrum þar sem vegurinn fór í sundur, og einnig við Steinavötn í Suðursveit þar sem brúin laskaðist töluvert í vatnsvöxtum síðustu daga.

Samkvæmt Vegagerðinni er brúin á Steinavötnum svo illa farin að byggja þarf nýja brú. Vinna er hafin við að koma upp bráðabirgðarbrú en áætlað er að byggingartími hennar sé ein vika gangi allt að óskum. Ljóst er að hringvegurinn verður því lokaður allri umferð þar til tengingu hefur aftur verið komið á.

Lokun þjóðvegarins hefur mikil keðjuverkandi áhrif í sveitarfélaginu Hornafirði, mikið er um að ferðamenn afbóki bæði gistingu og ferðir á vegum ferðaþjónustuaðila á svæðinu vegna lokuninnar og veitingahús sjá fram á litla aðsókn. Sumir veitingastaðir hafa tekið upp á því að bjóða tilboð um helgina til að sitja ekki uppi með hráefni, vegna minni aðsóknar. Ríki Vatnajökuls, samtök ferðaþjónustuaðila í sveitarfélaginu, eru að meta hversu mikið tjón hlýst af lokun þjóðvegarins hjá félagsmönnum.