Bleika slaufan – Aukin áhersla á stuðning, fræðslu og ráðgjöf

0
1425

Líkt og undanfarin 10 ár tileinkar Krabbameinsfélag Íslands októbermánuð baráttu gegn krabbameini hjá konum. Söfnunarfé Bleiku slaufunnar í ár rennur til Ráðgjafarþjónustu félagsins með það að markmiði að efla stuðning, fræðslu og ráðgjöf til einstaklinga um allt land sem greinast með krabbamein og aðstandenda þeirra. Í Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins er boðið upp á fræðslu, upplýsingar, ráðgjöf og stuðning við fólk sem hefur greinst með krabbamein og aðstandendur. Við erum til staðar þegar á þarf að halda. Markmið okkar er að aðstoða fólk við að ná jafnvægi við breyttar aðstæður í lífinu, veita stuðning og nauðsynlegar upplýsingar. Hjá okkur fá þeir sem greinst hafa með krabbamein og aðstandendur ráðgjöf og fræðslu um einkenni, félagsleg réttindi og þá þjónustu sem í boði er. Í boði eru meðal annars:
Fjölbreytt námskeið, símaráðgjöf, viðtöl, sálfræðiþjónusta, fræðslufundir, hádegisfyrirlestrar, réttindaráðgjöf, hugleiðsla, jóga og margt fleira.
Hjá Ráðgjafarþjónustunni starfa hjúkrunarfræðingar, félagsráðgjafi og sálfræðingur. Auk þess eru starfandi ellefu stuðningshópar fyrir fólk sem hefur greinst með krabbamein og aðstandendur. Þjónustan er öllum að kostnaðarlausu, fyrir utan einstaka námskeið. Ráðgjafarþjónustan er öllum opin og hægt er að koma án þess að gera boð á undan sér. Hægt er að hafa samband við starfsmenn Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins í tölvupósti á netfangið radgjof@krabb.is eða í síma 800 4040 alla virka daga. Ráðgjafarþjónustan er á fyrstu hæð í húsi Krabbameinsfélagsins að Skógarhlíð 8 og er opin kl 9:00-16:00 mánudaga, þriðjudaga og miðvikudaga, kl. 9:00-18:00 fimmtudaga og kl. 9:00-14:00 föstudaga. Ráðgjafaþjónusta Krabbameinsfélagsins.

Föstudagurinn 13. október er bleiki dagurinn. Viljum við hvetja stofnanir, fyrirtæki og einstaklinga til að taka þátt í deginum með því að skarta og skreyta með bleiku.
Krabbameinsfélag Suðausturlands