Það eru margir sem sakna Bjarnaneskirkju við Laxá enda var þetta glæsileg kirkja sem stóð á fallegum stað í Nesjum, og eiga þar margir góðar minningar. Á dögunum var Bjarnanessókn færð kirkjan endurbyggð að gjöf í formi líkans. Þúsundþjalasmiðurinn Ragnar Imsland sá um smíðina, allt frá girðingarstaurum að kirkjuklukkunni sem hangir í turni kirkjunnar. Þetta er sannkölluð listasmíð, eða eins og Hjalti Egilsson formaður sóknarnefndar sagði við afhendinguna: „Þetta er ekki bara líkan, þetta er listaverk.“
Kirkjan er 90 sentimetrar að lengd og 43 að breidd. Það hefur svo sannarlega verið vandað til verka eins og Ragnari er von og vísa, og reyndi hann eftir bestu getu að hafa þetta sem líkast gömlu kirkjunni og hægt var. Það þýddi að legið var yfir gömlum myndum því ekki voru til neinar almennilegar teikningar af kirkjunni. Verkið tók um fjóra mánuði og lauk með því að hann afhenti sóknarnefndinni kirkjuna. Ragnar útbjó kirkjuna þannig að hægt er að koma fyrir lýsingu og innanstokksmunum sem hugsanlega koma einhvern tímann í framtíðinni.
Á heimasíðu Bjarnanesprestakalls segir meðal um kirkjuna: Einar Erlendsson teiknaði Bjarnaneskirkju eftir hugmynd Rögnvalds Ólafssonar. Yfirsmiður kirkjunnar var Jens Eyjólfsson. Kirkjan við Laxá var byggð úr steypu og með kjallara undir. Kirkjan var vígð árið 1911. Var kjallarinn notaður til samkomuhalds og mannfunda allt til ársins 1952. Enn í dag eru menn og konur að minnast á böllin og skemmtanirnar sem haldin voru í kjallaranum. Bjarnaneskirkja við Laxá var á sínum tíma hið veglegasta hús. Það var að tilstuðlan kvenna í Nesjunum að stór og vegleg altaristafla var sett í kirkjuna árið 1922, sem gerð var af Jóni Þorleifssyni frá Hólum í Nesjum. Almenn ánægja var með kirkjuna en fljótlega fór að bera á stórfelldum smíðagöllum.
Steypan í kirkjunni var vond og auk þess lak turninn. Kirkjan var að mestu leyti endurbyggð á árunum 1922 – 1924. Það var svo árið 1956 að fulltrúi húsasmíðameistara ríkisins lýsti því yfir að kirkjan væri varla hæf til viðgerðar. Kirkjan var rifin 1973.
Sóknarnefnd þakkar öllum þeim sem aðstoðuðu listamanninn við gerð líkansins.
Sóknarprestar:
Séra Benedikt Eyjólfsson 1906 – 1913
Séra Þórður Oddgeirsson 1914 – 1918
Séra Ólafur Stephensen 1919 – 1930
Séra Eiríkur Helgason 1931 – 1954
Séra Rögnvaldur Finnbogason 1954 – 1959
Séra Skarphéðinn Pétursson 1959 – 1974
(http://www.bjarnanesprestakall.is)
Hægt verður að skoða kirkjuna í Ekru við Víkurbraut á meðan fundinn verður góður staður fyrir hana í Bjarnaneskirkju þar sem hún mun verða einn af dýrgripum kirkjunnar