Auga Solanders rannsóknastöð á Breiðamerkursandi

0
998

Þann 22. september s.l. var sjálfvirk rannsóknastöð – Auga Solanders – tekin í notkun á Breiðamerkursandi. Uppsetning og rekstur stöðvarinnar er samstarfsverkefni Háskóla Íslands og IK Foundation sem leggur stöðina til. Frumkvæði að verkefninu kom frá sendiráði Svíþjóðar á Íslandi og er það liður í fjölþættri og viðamikilli dagskrá sendiráðsins til að minnast rannsóknaleiðangurs Svíans Daniels Solander til Íslands árið 1772, það er fyrir 250 árum. Hluti af þeirri dagskrá mun koma til Hornafjarðar á næsta ári, í formi myndlistarsýningar sem sett verður upp í Svavarssafni.
Daniel Solander var einn af lærisveinum Carls von Linné sem m.a. lagði grunn að flokkunarkerfi líffræðinnar sem enn er notað í dag. Að námi loknu dreifðust lærisveinar hans víða um heim og stunduðu vísindarannsóknir á mörgum svæðum sem áður höfðu legið ókönnuð. Solanders er helst minnst fyrir rannsóknir hans í Eyjaálfu sem stóðu yfir um árabil og þykja mjög merkar. Ferð hans til Íslands sumarið 1772 var ákveðið „hliðarspor“ á ferlinum en mikilvægt engu að síður, sérstaklega þar sem hennar er gerð góð skil í bókinni Bréf frá Íslandi sem samferðamaður hans, Uno von Troil, ritaði og gaf út að ferð lokinni.
Auga Solanders er önnur rannsóknastöðin af þessum toga sem sett er upp á Norðurslóðum. Fyrsta stöðin var sett upp á Svalbarða fyrir þremur árum og sú næsta verður væntanlega staðsett í norðurhluta Svíþjóðar. Grunnhugmyndin á bak við starfsemi stöðvarinnar er að láta hana safna fjölbreyttum gögnum á afskekktum, villtum svæðum án þess að mannshöndin þurfi að koma þar nærri. Þannig væri hægt að afla upplýsinga um villta náttúru án þess að rannsóknastarfið sem slíkt hefði teljandi áhrif á þau fyrirbæri og ferla sem verið væri að kanna. Jafnframt býður slík gagnasöfnun upp á langtíma vöktun sem er mjög mikilvæg, ekki síst á svæðum sem taka örum breytingum af einhverjum ástæðum, til að mynda vegna hlýnunar loftslags á jörðunni.
Þegar áhugi kviknaði á því að setja upp rannsóknarstöð á Íslandi bárust böndin fljótt að Breiðamerkursandi. Eins og kunnugt er, þá varð stærsti hluti Sandsins hluti af Vatnajökulsþjóðgarði árið 2017 og er ótvírætt eitt af megindjásnum þjóðgarðsins. Breiðamerkursandur býr enda yfir margþættum verðmætum, bæði í náttúrufarslegu og menningarlegu tilliti. Eitt helsta verðmæti svæðisins felst í merkri jarðsögu þess sem hefur verið einkar vel skrásett, meðal annars af Snævarri Guðmundssyni, jöklajarðfræðingi hjá Náttúrustofu Suðausturlands. Á grunni þessara rannsókna má byggja margvíslegar athuganir á öðrum fræðasviðum, ekki þá síst varðandi landnám og framvindu lífs á svæðum sem hafa komið undan jökli frá lokum Litlu ísaldar fyrir u.þ.b. 130 árum.
Hnattrænar loftslagsbreytingar eru megindrifkraftur þeirra breytinga sem orðið hafa á umræddu tímabili. Breiðamerkurjökull – fjórði stærsti skriðjökull Vatnajökuls – hefur hopað hraðast allra jökla á Íslandi og við bráðnun hans koma stöðugt ný landsvæði í ljós undan jökli, auk þess sem sterk öfl sem bráðnunin leysir úr læðingi leika um Sandinn allan. Jöklum á Suðausturlandi hefur verið líkt við „lifandi kennslustofur“ um áhrif loftslagsbreytinga og Breiðamerkurjökull og allt sem hann hefur skapað í gegnum tíðina er þar einna fremstur meðal jafningja. Rannsóknir jafnt sem hversdagslega reynsla sýna okkur að lífið er ótrúlega fljótt að nema land sem kemur undan jökli. Með tímanum eykst bæði fjöldi og fjölbreytni lífvera á slíku landi og smám saman byggjast upp samfélög þeirra þar til ný og tiltölulega stöðug vistkerfi hafa orðið til.
Auga Solanders er staðsett á austanverðum Breiðamerkursandi, við norðurbakka víkur út úr Jökulsárlóni sem lengi var sjálfstætt lón, kennt við ána Stemmu. Svæði þetta hefur ekki hlotið formlegt nafn en er ýmist kallað Hólmi (Stemmuhólmi) eða Jökulnes í daglegu tali. Hér kýs ég að nota síðartöldu nafngiftina. Jökulnes er skilgreint sem óbyggt víðerni í stjórnunar- og verndaráætlun þjóðgarðsins, en það þýðir, í einföldu máli, að svæðið fái að þróast í friði – það er samkvæmt náttúrlegum lögmálum og ferlum – án inngripa af völdum mannsins sem gætu haft veruleg áhrif á framvinduna. Stöðin er staðsett syðst á Jökulnesi, á svæði sem kom fyrst undan jökli á áttunda ártug síðustu aldar og hefur lífríki þess því verið í þróun í um það bil 50 ár. Eftir því sem norðar dregur á Jökulsnesi, það er nær núverandi jökuljaðri, verður lífríkið yngra og yngra. Á hverju ári kemur svo æ meira „glænýtt“ land í ljós, að jafnaði milli 200-300 metra breiður skiki.
Rannsóknasetrið á Hornafirði hefur umsjón með Auga Solanders fyrir hönd Háskóla Íslands. Jafnframt hefur verið myndaður þverfaglegur hópur innan H.Í. sem mun í sameiningu annast úrvinnslu þeirra fjölbreyttu gagna sem stöðin leggur til. Kjarnahópurinn samanstendur af Ingibjörgu Svölu Jónsdóttur, prófessor í vistfræði, Benjamin Hennig, prófessor í landfræði og Finni Pálssyni, verkfræðingi og verkefnastjóra í jöklarannsóknum, auk Þorvarðar Árnasonar og Kierans Baxters frá háskólasetrinu. Verkefnið er jafnframt unnið í samstarfi við Jöklahóp Háskóla Íslands, Náttúrustofu Suðausturlands, Veðurstofu Íslands og Vatnajökulsþjóðgarð. Gögn stöðvarinnar eru í opnum aðgengi þannig að allir rannsakendur sem þess óska geta nálgast þau. Enn fremur er lögð mikil áhersla á að niðurstöður verkefnisins verði kynntar almenningi með margvíslegum hætti. Hægt er að fylgjast með stöðinni í rauntíma á vefslóðinni https://www.ikfoundation.org/fieldstation/iceland/live/ og sjá þar m.a. myndir sem teknar eru samdægurs auk veðurfarsupplýsinga.