Annáll Náttúrustofu Suðausturlands 2022

0
422
Pálína Pálsdóttir og Rannveig Ólafsdóttir, starfsmenn stofunnar, á gróðurgreiningarnámsskeiði á Álftanesi 8. júní 2022. Mynd: Lilja Jóhannesdóttir

Náttúrustofa Suðausturlands var stofnuð árið 2013 og fagnar því 10 ára afmæli á næsta ári. Stofan hefur aðsetur á Höfn í Hornafirði en einnig á Kirkjubæjarklaustri. Breyting varð í brúnni núna í ár en Kristín Hermannsdóttir, sem hefur verið við stjórnvölinn frá stofnun stofunnar, lét af störfum og við forstöðumannsstöðunni tók Lilja Jóhannesdóttir sem hefur starfað hjá stofunni frá árinu 2018. Við þökkum Kristínu fyrir samstarfið og óskum henni velfarnaðar á nýjum vettvangi.

Að vanda voru verkefni stofunnar fjölbreytt árið 2022 en áherslan er þó engu að síður alltaf mest á þá náttúrufarslegu þætti sem eru einkennandi fyrir starfssvæði hennar. Jöklarannsóknir hafa ætíð skipað stóran sess og var árið í ár engin undantekning. Rannsóknir á jöklunum eru af ýmsum toga. Nefna má mælingar á sporðastöðu jökla sem skríða frá suðaustanverðum Vatnajökli, stafræn hnitun jökuljaðra Vatnajökuls til þess að ákvarða flatarmálsbreytingar milli ára á þessu stærsta jökulhveli Íslands og kortlagning og skráning landmótunar framan við jöklana. Í þetta land hafa jöklarnir skráð sögu sína og atburðarás jökulhopsins síðustu 130 ár. En landið er þögult og það er okkar að ráða úr og raða saman brotum í rétta röð til þess að skilja söguna. Í lok nóvember kom út grein í erlendu vísindatímariti þar sem framvinda landbreytinga á Breiðamerkursandi, í kjölfar þess að Breiðamerkurjökull hopar ört, er útskýrð. Sömuleiðis er fylgst með þróun jökullóna. Þau stækka stöðugt í kjölfar þess að jöklarnir hörfa. Öll þessi gögn sem safnast til er m.a. komið fyrir í alþjóðlegum gagnagrunni um jökla á jörðinni. Gagnagrunnurinn samanstendur af upplýsingum sem mikill fjöldi vísindamanna og nemenda þeirra hafa safnað í gegnum tíðina. Þar hafa lærðir og leiknir beint aðgengi að þeim, og þau nýtast í rannsóknir. Sagan er alls staðar sú sama, jöklar eru alls staðar að gefa undan hlýnandi loftslagi. Í sumar var haldið áfram með kortlagningu á botni og dýpt Jökulsárlóns. Í verkið, sem er samstarfsverkefni Náttúrustofunnar, Háskóla Íslands, Landsvirkjunar og Veðurstofunnar, er notaður fjölgeislamælir. Slíkt tæki skannar botninn og gefur afar skýra mynd af lögun hans. Ásamt því fást upplýsingar um hvað lónið er djúpt og dýptarbreytingar. Vitað er að síðustu áratugi hefur lónið verið dýpst sunnan við ísstálið, þar sem að kelfir af jöklinum í lónið. Þar var vænst að dýpi gæti mælst um 300 m. Nú er hins vegar tekið að grynnast þar, og því ljóst að jökullinn hefur horfið frá þar sem rennan er dýpst.

Áfram var áhersla á að fylgjast með skúmum og helsingja en Suðausturland er helsta höfuðvígi þessara tegunda. Hjá báðum tegundunum greindist fuglaflensa í ár og lék hún þær báðar grátt, ekki hvað síst skúminn sem mátti illa við slíku því staða hans undanfarin ár hefur verið slæm. Á ferðum starfsmanna stofunnar í sumar fundust 40 dauðir skúmar, þá má ljóst vera að fjöldi fugla hafi drepist sem ekki hafi fundist. Fyrstu dauðu fuglarnir fundust strax í maí og héldu áfram að finnast yfir sumarið. Skúmurinn yfirgefur landið í lok sumars og heldur til hafs þar sem hann dvelur yfir veturinn. Í haust fréttist af fjölda skúma sem settust á skip Landhelgisgæslunnar og drápust þar, alla vega 4 þeirra greindust með fuglaflensu, og því ljóst að flensan gekk ekki yfir í sumar. Við litmerkingar á helsingja í miðjum júlí sáust fuglar á Mýrum sem báru þess merki að vera smitaðir flensu og í kjölfarið fóru að berast fréttir af veikum og dauðum helsingjum víðar að í Sveitarfélaginu Hornafirði. Áfram héldu að berast upplýsingar um dauða helsingja og seinni part ágúst og byrjun september gerði Náttúrustofan, í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands og Umhverfisstofnun, úttekt á umfangi helsingjadauðans. Í heild fundust 45 dauðir fuglar og 7 sjáanlega veikir, minnihluti fuglanna voru nýdauðir sem benti til að flensan hafi geisað fyrr um sumarið og hafi mögulega rénað. Því miður bárust fréttir nú um miðjan desember frá vetrarstöðvum helsingjans í Skotlandi að þar sé ástand vegna fuglaflensu orðið mjög slæmt og helsingjar séu að drepast í hundraðatali og ekki neitt lát þar á.

Í upphafi árs hlaut stofan ásamt Landgræðslunni áframhaldandi styrk frá Loftslagssjóði til að vinna verkefni sem hófst í fyrra og byggir á kerfisbundnum gasflæðimælingum á þurrlendisjarðvegi í Skaftárhreppi. Hingað til hafa rannsóknir á losun, eða bindingu gróðurhúsalofttegunda úr jarðvegi verið af skornum skammti og oft miðað við erlendar niðurstöður eða einfalda losunarstuðla þegar verið er að meta kolefnisbúskap landflokka. Landnotkun er einn af stærstu losunarþáttum en talið er að rekja megi um 65% losunar á Íslandi til landnotkunar. Í ljósi þess skamma tíma fyrir viðsnúning í loftslagsmálum er aðkallandi að stórauka mælingar á þessu sviði þannig fæst fljótt gróf mynd af kolefnisbúskap svæðisins. Nú hefur stofan verið með samfelldar gasflæðimælingar síðan í apríl 2021 og er úrvinnsla niðurstaða hafin og benda frumniðurstöður til kolefnisflæðimælinga frá árinu 2021 að yfirleitt sé frekar meiri binding heldur en losun, þegar mælt er. Frumniðurstöðum þarf þó alltaf að taka með fyrirvara þar sem á eftir að vinna gögnin betur og yfirfæra þau á allan sólarhringinn allt árið með tilliti til umhverfisþátta svo sem inngeislun sólar, hitastig í jarðvegi og lofti og rakastigs. Miðað við aðrar sambærilegar mælingar víðar um land virðist mólendi á Íslandi almennt vera að losa CO2. Ef satt reynist þá bera mælingar í Skaftárhreppi merki um að land þar sé í betra ástandi en almennt gerist hér á landi, en ýmislegt getur komið þar inn í svo sem veður- og tíðarfar, jarðvegsgerð, hófleg beit o.s.frv. Nauðsynlegt er að halda mælingum áfram til að fá inn breytileika milli ára og því leggjum við áherslu á áframhald verkefnisins. Með þessum niðurstöðum höfum við raunveruleg gögn um kolefnisbúskap mældra landflokka og þannig er hægt að kortleggja hvar jarðvegur er að losa kolefni og hvar það binst. Slík gögn nýtast sveitarfélögum sem og landeigendum öðrum í skipulagsmálum við áætlanagerð um breytta (og bætta) landnýtingu, þannig að ávallt dragi úr losun eða auki bindingu t.d. með útbreiðslu náttúruskóga, minnka beitarálag, við val á framkvæmdarsvæðum o.s.frv. Síðast en ekki síst nýtast gögnin í nákvæmara kolefnisbókhald fyrir sveitarfélög og skuldbindingar ríkisins gagnvart loftslagsbókhaldi Sameinuðu þjóðanna. Náttúrustofan og Landgræðslan hafa átt í góðu samstarfi með fleiri verkefni en kolefnisflæðismælingar, t.d. höfum við sinnt í nokkur ár verkefninu Bændur græða landið í Skaftárhreppi og Sveitarfélaginu Hornafirði. Einnig vinnum við saman stórt verkefni sem nefnist Grógos sem miðar að því að finna gróður og plöntutegundir sem standast álag sem jökulhlaup valda og eru öflugar til að binda fok gosefna. Það verkefni er unnið í Skaftárhreppi enda eru þar svæði sem eru oft illa leikin af jökulhlaupum. Verkefnið er nú á lokametrunum og mun ljúka á fyrstu mánuðum næsta árs.

Áfram beindum við sjónum okkur að smádýrafánunni og héldum úti fiðrildagildrum okkar sem staðsettar eru í Einarslundi hér á Höfn og í Mörtungu í Skaftárhreppi. Úrvinnsla aflans er enn í fullum gangi. Síðan árið 2019 höfum við haft úti þrjár pöddugildrur í mismunandi búsvæðum. Ein þeirra er nærri fiðrildagildrunni í Einarslundi í skóglendi, ein í graslendi þar nærri og þriðja gildran er við bakka Þveitarinnar. Gildrurnar eru hafðar í mismunandi búsvæðum til að skoða breytileikann þar á milli. Árið í ár var fjórða sumarið sem gildrurnar eru úti en verkefnið er hugsað sem langtímavöktun með það að sjónarmiði að skoða breytingar milli ára og fara gagnaseríurnar óðum að gefa okkur spennandi upplýsingar. Í fyrra fórum við af stað með kortlagningu á útbreiðslu tröllasmiðs, en það er bjöllutegund sem finnst einungis hér í Hornafirði af öllum heiminum. Þá leituðum við meðal annars til almennings og óskuðum eftir upplýsingum ef fólk hefði orðið vart tröllasmiðs. Það fékkst talsverður fjöldi svara og þökkum við fyrir það. Í sumar fór aðalhluti verkefnisins fram þar sem notast var við fallgildrur til þess að kortleggja útbreiðslu hans. Þá er litlum dollum komið fyrir ofan í jörðinni þannig efsta brún þeirra nemi við yfirborðið og þær hafðar opnar yfir nótt. Næsta dag er þeirra vitjað og athugað hvort tröllasmiður hafi fengist í gildruna. Úrvinnslu verkefnisins er að ljúka og kemur skýrslan út á næstu dögum.

Árið 2019 hófst viðamikið samstarfsverkefni milli náttúrustofa landsins, en þær eru átta talsins, og Náttúrufræðistofnunnar Íslands sem ber heitið Vöktun náttúruverndarsvæða. Verkefnið var fyrirferðarmikið í starfi stofunnar í sumar enda mikilvægt þar sem áherslan er á að vakta náttúruna á þeim svæðum sem njóta sérstakrar verndar vegna sérstæðs náttúrfars. Í sumar vöktuðum við mófugla á átta sniðum sem dreifast frá Skeiðarársandi, austur að Dynjanda. Tókum gróðursnið og jarðvegssýni á sjö svæðum á milli Kolgrímu og Hornafjarðarfljóts, skoðuðum jarðminjar á þremur svæðum nærri Höfn og vöktuðum varpárangur og stofnstærð skúms á Breiðamerkursandi og í Ingólfshöfða. Einnig tókum við þátt í tveimur námskeiðum sem haldin voru í tengslum við verkefnið, annað sneri að gróðurgreiningu og var haldið í Reykjavík og hitt var um vöktun lífríkis í fjörum en á næsta ári verður farið að stað með slíkt.
Hér hafa verið talin upp nokkur þeirra stærri verkefna sem áttu hug okkar árið 2022 en þó er fjöldi annarra verkefna sem við sinnum. Það væri of plássfrekt að gera þeim öllum ítarleg skil en hér er þó stiklað á nokkrum þeirra. Í mars unnum við úttekt fyrir Vegagerðina á botndýralífi á fyrirhuguðu losunarsvæði botnsets sem upp kæmi við dýpkun Grynnslanna við Hornafjarðarós. Var sú úttekt unnin í góðu samstarfi við starfsmenn Hornafjarðarhafnar og þökkum við þeim aðstoðina. Í byrjun apríl fórum við í hreindýratalningar á svæðum 8 og 9 fyrir Náttúrustofu Austurlands en dýrmætt er fyrir náttúrustofurnar að vera í góðu samstarfi sín á milli. Í sumar fengum við gróðursérfræðing frá Náttúrustofu Austurlands til að annars vegar aðstoða við gróðurgreiningar í Vöktun náttúruverndarsvæða og hins vegar að taka út ástand gróðurs á vinsælum ferðamannasvæðum á Breiðamerkursandi fyrir verkefni sem við erum að vinna fyrir Vatnajökulsþjóðgarð í samstarfi við Nýheima þekkingarsetur. Snemma sumars voru sett upp þrjú skilti á vegum Sveitarfélagsins Hornafjarðar sem sýna örnefni á eyjum og fjöllum við Hornafjörð og Skarðsfjörð en Náttúrustofan sá um myndatöku og að finna örnefnin fyrir skiltin. Að vanda var Skúmey heimsótt í byrjun sumars og helsingjavarpið þar metið, ennþá á sér stað fjölgun í eynni en það virðist þó vera að hægjast á henni. Einnig merktum við helsingja um mitt sumarið og þökkum við þeim fjölda sjálfboðaliða sem aðstoðuðu við það. Í lok ágúst var haldið upp á 20 ára afmæli Nýheima og við það tilefni kynntu þær stofnanir sem hafa aðsetur í byggingunni starf sitt og var ánægjulegt hversu mikill fjöldi gesta kom og fagnaði með okkur.

Látum hér staðar numið við þessa yfirferð ársins 2022 og óskum við öllum velunnurum Náttúrustofu Suðausturlands gleðilegra jóla og farsæls nýs árs. Hlökkum til samstarfs á nýju ári.

Fyrir hönd starfsmanna,
Lilja Jóhannesdóttir forstöðumaður