Þann 20. mars síðastliðinn opnaði blómabúðin Amor blóm og gjafavara í húsnæðinu við Hafnarbraut 34. Það má með sanni segja að það hafi aldeilis komist líf í húsnæðið síðasta hálfa árið eða svo. Veitingastaðurinn Úps opnaði síðasta haust og Berg-Spor opnaði fataverslun þar í lok nóvember, en fyrir var Handraðinn sem deilir húsnæði með Berg-Spor. Eystrahorn hafði samband við Amor Joy Pepito Mantilla og forvitnaðist aðeins um búðina sem er í eigu Amor og Bobby eiginmanns hennar.
Hvernig gengu framkvæmdir við opnun búðarinnar ?
Framkvæmdirnar gengu mjög vel að sögn Amor og náði hún að opna búðina á undan áætlun. „Það var frábært hvað þetta gekk vel, málararnir voru akkurat lausir og gátu klárað að mála og laga hjá mér, svo kom smiðurinn og kláraði að smíða kælinn og allt í einu var búðin bara strax tilbúin.“ segir Amor.
Blómabúð, afhverju ?
„Það hefur verið lengi draumur að opna blómabúð. Ég var alltaf að panta pottaplöntur frá konu sem ég þekki í Hveragerði og rekur blómaverslunina Hverablóm. Einn dag vorum við að spjalla og hún sagði við mig að ég þyrfti bara að opna blómabúð og að hún myndi senda mér fullt af vörum til að hafa í búðinni. Eftir þetta gat ég ekki hætt að hugsa um að opna mína eigin blómabúð.“ Amor fór því að leita að húsnæði og fann laust pláss á Hafnarbrautinni þar sem Handraðinn var áður. „Þetta var tækifæri sem ég mátti ekki missa af, láta drauminn rætast.“
Hvað er framundan ?
„Þetta er góð spurning, okkur langar að þjónustu Hornfirðinga og nærsveitunga um allt er varðar blóm og skreytingar og skemmtilega gjafavöru. Viðtökurnar hafa verið frábærar og erum við mjög bjartsýn á framhaldið. “
Búðin býður upp á úrval af afskornum blómum, gjafavörum og pottablómum ásamt blómaskreytingum fyrir öll tækifæri. Eystrahorn óskar Amor og Bobby til hamingju með búðina og hvetur Hornfirðinga til að kíkja skoða úrvalið hjá Amor