Álaugarvegur 7

0
446
OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Í ljósi ummæla um „gullnámu“ sem Björgvin Sigurjónsson frambjóðandi Framsóknarflokksins viðhafði á sameiginlegum framboðsfundi í Nýheimum viljum við koma nokkrum atriðum á framfæri:
Árið 2018 keyptu fyrirtækin; H.Christensen ehf, Karlsbrekka ehf og Martölvan ehf Álaugarveg 7. Eignin hafði verið á sölu um þó nokkurt skeið og meðal annars var búið að bjóða sveitarfélaginu að kaupa fasteignina. Okkar plön voru að skipta fasteigninni upp í þrjú rými fyrir starfsemi fyrirtækjanna. Til að byrja með leigði Sporthöllin húsnæðið Þegar sá samningur rann út og við byrjuð að undirbúa breytingarnar á húsnæðinu kom ósk frá Ragnhildi Jónsdóttur þáverandi sviðstjóra fræðslu- og frístundasviðs um áframhaldandi leigu á húsnæðinu meðan unnið yrði að framtíðarlausnum, en þá var vinnuhópur að vinna í íþróttamálum Sveitarfélagsins. Við féllumst á að fresta framkvæmdum við húsnæðið og leigja það áfram.
Leigusamningurinn er með sex mánaða uppsagnarfresti og ef núverandi sveitarstjórn hefði viljað segja upp þessum samningi þá hefði það verið lítið mál. Nýverið hafði Þórgunnur Torfadóttir núverandi sviðsstjóri fræðslu- og íþróttasviðs samband við okkur til að tryggja að samningurinn væri áfram í gildi þar til nýtt húsnæði verði tilbúið.
Atvinnuhúsnæði er af skornum skammti hér í Sveitarfélaginu og hvað þá húsnæði sem uppfyllir kröfur sem gerðar eru til líkamsræktarstöðva. Þegar unnið var að útreikningi á leiguverði hússins var leitað ráða hjá fasteignasala varðandi verð. Leiguverð í byrjun var 600.000 á mánuði er vísitölutryggð og stendur í 696.000 í dag eða 1.740- fyrir hvern fermetra, innifalið í leigunni er viðhald hússins fasteignagjöld og tryggingar.
Ef horft er á heildarmyndina er hún þannig að sveitarfélagið greiðir leigu að upphæð 696.000 og samkvæmt leigusamningi framleigir húsnæðið til Sporthallarinnar fyrir 403.000 sem er niðurgreiðsla á leigu til líkamsræktar um 293.000 á mánuði eða kostnaður sem nemur 3.516.000 á ári sem er framlag sveitarfélagsins til líkamsræktarstöðvar en þess ber að geta að líkamsræktar­tækin eru í eigu sveitarfélagsins og leiga á þeim er þá auka framlag sveitarfélagsins en ekki liggur fyrir hver sú leiga nákvæmlega er.
Það verður hver að dæma fyrir sig hvort og hver stundar gullgröft en ef rýnt er í tölur og staðreyndir er erfitt að sjá að verið sé að hlunnfara sveitarfélagið eða að það geti sloppið hagstæðar frá að tryggja starfsemi líkamsræktar.

Eigendur Álaugarvegar 7