Áfram stíginn!

0
407

Á síðasta kjörtímabili var lyft grettistaki í gerð göngustíga á Höfn. Malbikaði stígurinn meðfram firðinum að vestanverðu var framlengdur og er mikið notaður. Það að stígurinn sé malbikaður gefur mikla möguleika á notkun stígsins fyrir barnavagna, reiðhjól, götuhlaup, rólega göngutúra og síðast en ekki síst rafskutlur og hjól með eldri borgara. Má með sanni segja að stígurinn stuðli að hreyfingu frá vöggu til grafar. Stígurinn nær nú frá Óslandi og inn fyrir Stekkatúnshól eða inn að pípuhliði eins og við segjum. Möguleiki er að halda áfram með þann stíg og tengja inn á aðrar leiðir.
Búið er að gera bætur á stígnum út á Ægissíðu syðri og þarf að klára að loka hringnum þar á komandi kjörtímabili. Margar eyjar og sker eru í Hornafirðinum sem eiga sér nöfn sem mikilvægt er að halda á lofti. Unnið er að gerð örnefnaskilta sem staðsett verða meðfram göngustígnum við Suðurfjörðinn og mætti bæta upplýsingagjöf sem þessa við Skarðsfjörðinn, við stíginn á Ægissíðu.
Reiðvegurinn meðfram þjóðveginum gegnir nú orðið margþættu hlutverki, en nú til dags sér maður orðið fleiri hlaupandi en ríðandi á reiðveginum utan Lónsafleggjara, sökum þess að æ færri kjósa að halda hesta sína í frístundabyggðinni á Ægissíðu og hafa fært sig í aðstöðu í kringum Stekkhól. Einnig hafa reiðhjóla- og mótorhjólaiðkendur nýtt sér reiðveginn.
Samnýting á stígum innan sveitarfélagsins er af hinu góða en til þess verður að ríkja umburðarlyndi og tillitssemi milli iðkenda mismunandi hreyfigreina. Nauðsynlegt er í okkar litla samfélagi að geta samnýtt stígana þar sem það liggur í augum uppi að ekki er grundvöllur fyrir margra brauta stígum. Reiðvegurinn er hinsvegar eitt af því sem þarfnast einnig endurbóta. Of víða þarf að þvera þjóðveginn til að fylgja honum sem skapar mikla hættu, sér í lagi þegar verið er með lifandi dýr. Þar þarf að gera umbætur á.
Höldum áfram uppbyggingu á stígum og stuðlum þannig að bættri aðstöðu til fjölbreyttrar hreyfingar fyrir alla aldurshópa.

Gunnar Ásgeirsson,
bóndi og vinnslustjóri 3. sæti

Framsóknar og stuðningsmanna þeirra