Aflabrögð – nýtt kvótaár

0
1783

Jói á Fiskmarkaðnum sagði að byrjunin á nýju kvótaári lofaði góðu, Sigurður Ólafsson, Hvanney og Dögg SU hafa aflað vel og fiskverðið hafi verið uppá við. Strandveiðarnar gengu vel og bátar héðan öfluðu um 500 tonn sem er um 1/3 af heildarkvóta svæðisins. Verðið var aftur á móti lélegt en hækkaði aðeins síðustu vikuna.
Ásgeir hjá Skinney-Þinganesi hafði þetta að segja um aflabrögð og vinnsluna hjá þeim; „Við byrjuðum á makrílvertíðinni um miðjan júlí og hefur hún gengið einstaklega vel. Nú eru skip félagsins búin að landa um 15.000 tonnum af makríl og 3.500 tonnum af síld. Mikil vinna hefur verið í uppsjávarfrystingu í Krossey og flutningaskipin hafa verið eins og strætisvagnar með stöðuga viðkomu við Álögureyjarbryggjuna. Við erum í síðustu makríltúrunum núna og tekur þá síldin við í framhaldi af því.
Humarveiði hefur verið frekar dræm í sumar. Skipin hafa að mestu haldið sig í Jökuldýpinu og landað þá í Reykjavík og Grindavík og öllum aflanum keyrt heim til vinnslu.
Bolfiskveiði hjá Steinunni og Vigur hefur gengið með ágætum og hefur Steinunn haldið vinnslunni í Þorlákshöfn gangandi á fullum afköstum en þar erum við að vinna ferskan fisk til útflutnings, bæði á Evrópu og USA.“