Ingvar hjá Fiskmarkaðnum sagði að landanir undanfarið hjá þeim væru svipaðar og í fyrra. Þó heldur meiri brælur. Það eru 16 strandveiðibátar sem hafa lagt upp hjá þeim og oftast ná þeir dagskammtinum. Sömuleiðis hefur Hvanney, sem er á dragnót, landað aðallega kola og steinbíti.
Ásgeir hjá Skinney-Þinganesi sagði að humarbátar hefðu farið vestur fyrir land um mánaðarmótin maí-júní og var fínasta veiði í fyrstu túrunum. Aðalveiðisvæðið hefur verið í kringum Eldey og í Jökuldýpi. Heldur hefur dregið úr humarveiðinni uppá síðkastið en vonir standa til að veiði glæðist aftur þegar líður fram í júnímánuð.
Góð þorskveiði hefur verið hjá Steinunni og Vigur síðustu vikur og hefur sá fiskur farið í salt í Krossey eða ferskan útflutning frá fiskverkun okkar í Þorlákshöfn. Hvanney hefur fiskað vel í snurvoð og hefur sá afli að mestu verið boðinn upp hjá Fiskmarkaði Hornafjarðar.
Næg vinna hefur verið undanfarið í Krossey, þar sem um 50 unglingar bættust í hóp sumarstarfsmann nú í byrjun mánaðar.