Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Hornafjarðar samþykkti á fundi sínum þann 2. apríl aðgerðir til að bregðast við efnahagslegum afleiðingum Covid-19 faraldursins. Um er að ræða fyrstu aðgerðir og verða þær endurskoðaðar reglulega eftir því sem áhrifin skýrast.
Innheimta gjalda
Fyrirtæki sem orðið hafa fyrir verulegum áhrifum vegna Covid-19 geta sótt um frest á allt að þremur gjalddögum fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði. Umsóknir skal senda á afgreidsla@hornafjordur.is. Starfsmönnum hefur verið falið að taka á móti umsóknum, greina þær og afgreiða.
Leik- og grunnskólagjöld verða leiðrétt í samræmi við nýtingu þjónustunnar. Á þetta úrræði við um leikskólagjöld, fæðiskostnað í grunnskóla og Kátakot. Fræðslusvið hefur sent foreldrum bréf með nánari upplýsingum um útfærslu.
Árskort í Sundlaug Hafnar verður framlengt í samræmi við skertan opnunartíma sundlaugar.
Markaðsaðgerðir
Farið verður í auknar markaðsaðgerðir til að kynna sveitarfélagið fyrir Íslendingum og þegar fram líða stundir verður farið í kynningarátak fyrir erlendan markað. Unnið verður að kynningarmálum í samvinnu við Ríki Vatnajökuls og Markaðsstofu Suðurlands.
Menningar- og atvinnumál
Aukin þjónusta verður hjá Menningarmiðstöð Hornafjarðar og sérstaklega horft til barnamenningar. Nánari útfærsla er á höndum starfsmanna Menningarmiðstöðvar.
Unnið er að greiningu á atvinnuleysi í samvinnu við Vinnumálastofnun og hve margir hafa nýtt sér úrræði um minnkað starfshlutfall vegna Covid-19. Sveitarfélagið mun vinna með stofnuninni í að skapa störf og verkefni á meðan ástandið varir.
Búist er við mikilli aukningu umsókna í Vinnuskóla og bæjarvinnu í sumar. Unnið er að undirbúningi starfseminnar með það í huga.
Framkvæmdir
Framkvæmdaáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2020 hljóðar upp á tæpar 800 milljónir. Helstu verkefni eru bygging Hjúkrunarheimilis, áframhaldandi endurbætur á Vöruhúsi og nýtt húsnæði fyrir málefni fatlaðra að Víkurbraut 24. Leggja á nýja göngustíga, hefja hönnun á innanhússendurbótum í Sindrabæ og nýtt þak verður sett á Slökkvistöðina og Áhaldahúsið. Stefnt er að því að breyta heimavist að Hrollaugsstöðum í íbúðir, hefja endurbætur á Miklagarði og ljúka framkvæmdum við hreinsivirki fráveitu. Farið verður í framkvæmdir við Hafnarbraut þar sem settar verða nýjar lagnir og götumyndin lagfærð. Búið er að gefa út framkvæmdaleyfi við nýja varnargarða við Einholtskletta við Grynnslin.
Það eru mörg verkefnin en jafnframt eru hugmyndir íbúa vel þegnar og má senda þær á netfangið afgreidsla@hornafjordur.is.