Vegna greinar Ara Jónssonar sem birtist í Eystrahorni þann 24. nóvember 2022.
Við viljum þakka Ara kærlega fyrir góða grein og góðar ábendingar. Fundargerðir umhverfis- og skipulagsnefndar mega vera ítarlegri og við munum taka þær ábendingar til okkar og halda áfram þeirri vinnu að gera fundargerðir sveitarfélagsins skýrari.
Okkur varð það ljóst í kosningabaráttunni að núverandi aðalskipulag er orðið úrelt og ekki yrði ákjósanlegt að vinna áfram með það óbreytt næstu 4 árin. Aðalskipulag er stefnumótandi verkfæri sem lýsir þeirri framtíðarsýn sem íbúar sveitarfélagsins vilja sjá. Vinna við endurnýjun aðalskipulags er hafin og hefur Alta ráðgjafastofa, sem sérhæfir sig t.d. í skipulagi og byggðaþróun, verið ráðin til að leiða vinnuna með okkur. Með því er það von okkar að niðurstaðan verði fyrirmyndarskipulag sem við getum öll verið ánægð með og stolt af. Nú þegar hafa verið haldnir tveir vinnufundir þar sem sviðsstjórar, starfsmenn skipulagssviðs, vara- og aðalmenn í bæjarstjórn og nefndarfólk í umhverfis- og skipulagsnefnd komu saman. Fyrst og fremst var um kynningu og fræðslu að ræða frá Alta um hvernig vinna eigi aðalskipulag og hvað hafa þarf í huga við gerð þess. Í framhaldinu af þeim vinnufundum verður unnin skipulagslýsing þar sem m.a. verður ákveðið hvernig samráði við íbúa skuli háttað en samhljóða vilji þeirra sem á fundinn mættu var að samráð við íbúa skuli vera mikið og markvisst. Kex stendur fyrir því að efla samráð við íbúa og stendur í stefnuskrá okkar að við viljum efla aðkomu íbúa að skipulagsmálum og ákvarðanatöku. Vinna við nýtt aðalskipulag er kjörið tækifæri til þess að efna það loforð en við munum leita leiða til þess að efla samráðið enn frekar.
Hvað varðar íbúðabyggð á Höfn þá kom fram bæði hjá Kex og Sjálfstæðisflokknum í kosningabaráttunni að við sjáum ÍB5 fyrir okkur sem framtíðar uppbyggingarsvæði fyrir íbúðarbyggð. Það er þó ekki þannig að við ætlum að hætta við áformaða uppbyggingu á ÍB2. Nú á haustdögum var gerð tilraunahola á svæði ÍB2 og var niðurstaðan að jarðvegur þar væri ekki tilbúinn og að einhver ár væru í það. Hægt er að fara í framkvæmdir til að flýta fyrir ferlinu með jarðvegsskiptum, en þær yrðu bæði kostnaðarsamar og fælu í sér mikið rask. Það er því mat nefndarinnar að betra sé að bíða með framkvæmdir á svæðinu um sinn. ÍB2 verður þó alltaf hluti af framtíðarsýn okkar um uppbyggingu íbúabyggðar næstu árin.
Hvað varðar Sílavík þá verður hún fyrirferðamikil þegar kemur að vinnu við nýtt aðalskipulag og hlökkum við til að fá íbúa með okkur í það samtal. Ljóst er að skiptar skoðanir eru á því hvað skuli gera, á að láta hana ósnerta eða fylla upp í fyrir íbúðabyggð? Ef byggt verður á ÍB5, ÍB2, Sílavík og á þróunarreit nýs miðbæjar á miðsvæði, hefur verið áætlað að um tvöföldun á núverandi íbúðabyggð verði að ræða. Sílavík er framtíðarsöngur sem langt er í að verði að veruleika, engu að síður er kominn tími til að við tökum ákvörðun um það hvernig málum þar verður háttað í aðalskipulagi og þarf að horfa til margra þátta í því sambandi. Sérstaklega þarf að horfa til umhverfisþátta, mikilvægi sjávarfitja og leira og þess fuglalífs sem þar þrífst nú.
Ein stærsta ákvörðunin sem liggur fyrir við vinnslu nýs aðalskipulags er lega þjóðvegar í þéttbýli. Samkvæmt núverandi áætlunum mun þjóðvegurinn liggja út frá Vesturbraut og þaðan meðfram leirunum og niður að höfn. Þá mun hann liggja enn á ný í gegnum íbúasvæði þegar ÍB5 reiturinn verður byggður. Það er vilji okkar að færa hann út fyrir skipulagssvæði ÍB5 og jafnvel upp fyrir Sílavík og tengjast þannig inn í iðnaðarsvæðið austan leirusvæðis. Með því færast þungaflutningar og umferð sem liggur að áætlaðri uppbyggingu á ferðaþjónustu í Óslandi frá íbúðabyggð. Það er einnig mikilvægt að við hönnun á nýjum íbúasvæðum, endurskipulagi og viðhaldi eldri svæða sé horft til þess að umhverfisvænum ferðamáta sé gert hærra undir höfði, og ýta þannig undir að bæjarbúar noti frekar aðra kosti en einkabílinn í ferðalögum sínum innanbæjar.
Uppi hafa verið hugmyndir að skipuleggja núverandi tjaldsvæði sem íbúðabyggð og huga að nýju svæði fyrir það utan þéttbýlisins. Þessa umræðu höfum við tekið innan Kex framboðs, enda margt sem mælir með svæðinu sem íbúasvæði þar sem ekki þyrfti umfangsmikil jarðvegsskipti til að undirbúa það til byggðar. Hins vegar er einhugur innan framboðsins, og meirihlutasamstarfsins, að framtíðarstaðsetning tjaldsvæðis sé á núverandi stað. Á sumrin er mikið líf á tjaldsvæðinu sem bætir bæjarbraginn. Þá teljum við það þjóna notendum þess vel að vera í nálægð við þjónustu sem í boði er, sérstaklega þegar horft er til uppbyggingar sem áformuð er á miðsvæði sem mun einkennast af þjónustu, afþreyingu og menningu. Þessi nálægð gerir það að verkum að gestir tjaldsvæðis geta gengið um, notið okkar fallega þéttbýlis og alls þess sem það hefur uppá að bjóða, útsýnis, menningar, matar og drykkjar, án þess að þurfa setjast upp í bíl, keyra á staðinn eftir að hafa komið sér fyrir á tjaldsvæði utan þéttbýlis og leggja bílnum svo innanbæjar áður en lengra er haldið.
Í þessu eins og öllu öðru er ekkert meitlað í stein og við bíðum spennt eftir að fá tækifæri til að boða til íbúafunda um vinnu aðalskipulags og skipulagsmál almennt. Ræða alla möguleika til þrautar og komast að niðurstöðu sem þjónar þéttbýlinu, dreifbýlinu og sveitarfélaginu öllu og enda að lokum með aðalskipulag sem við getum öll verið stolt af. Hér hefur aðeins verið stiklað á því helsta sem liggur fyrir innan bæjarmarka Hafnar, en að mörgu er líka að huga í dreifbýlinu sem er ekki síður spennandi verkefni sem við tökum kannski fyrir í annarri grein fljótlega.
Við viljum minna á að við tökum glöð á móti öllum hugmyndum og ábendingum, en hægt er að koma skilaboðum til okkar í gegnum vefsíðuna okkar www.xkex.is og á samfélagsmiðlum.
Greinina skrifuðu aðal- og varamenn Kex í umhverfis- og skipulagsnefnd,
Skúli Ingibergur Þórarinsson
Helga Árnadóttir
Elías Tjörvi Halldórsson
Guðrún Stefanía Vopnfjörð Ingólfsdóttir