Að loknum nærri sex árum

0
488

Þingmannsferli mínum lýkur núna í haust þar eð ég sækist ekki eftir endurkjöri. Ég náði að vera eitt þing í stjórnarandstöðu og svo heilt kjörtímabil sem hluti stjórnarmeirihluta. Mjög ólíkar stöður og miklu meira gefandi að vera hluti af löggjafanum en ekki sífellt með gagnrýnisgleraugun á nefinu í aðhalds- og eftirlitsskyni. Sat í tveimur fastanefndum, einni alþjóðanefnd og svo Þingvallanefnd. Mörg þörf þingmál urðu að lögum eða þingsályktunum; nefni málaflokka samganga, heilbrigðisþjónustu, umhverfis- og loftslags, atvinnuvega, sveitastjórnarstigsins og utanríkissamskipta og sér í lagi það sem ég hef einna mestan áhuga á: Norðurslóðamálin þar sem ég var formaður íslensku norðurheimskautsþingnefndarinnar, og auðvitað loftslagsmálunum. Þróun náttúrufars á báðum heimskautasvæðunum vegur afar þungt í óvissri vegferð mannkyns. Merkileg stefnumótun fór fram, í fyrsta sinn á Alþingi, gjarnan í þverpólitískum vinnuhópum, t.d. í orkumálum, ferðamálum, landbúnaði, nýsköpun, heilbrigðismálum, náttúruvernd, norðurslóðamálum og loftslagsmálum.
Ég ver ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur sem framsækna á mörgum sviðum enda þótt sumt hafi veri látið kyrrt liggja eða ekki náðist nothæft samkomulag um. Í samsteypustjórnarlandi eru málamiðlanir lykillinn að sæmilega stöðugu, pólitísku ástandi og bættum innviðum og samfélagsþjónustu. En verandi sósíalisti tel ég margt eftir að gera til að ná nægum jöfnuði og jafnrétti til að Ísland teljist norrænt þingræðis- og velferðarríki með borgaralegt lýðræði og kapítalískt hagkerfi. Sem efnahagskerfi á kapítalisminn sér ekki bjarta framtíð frammi fyrir vaxandi ójöfnuði og loftslagsbreytingum enda byggir hann á stöðugum vexti sem ógnar þolmörkum jafnt náttúru sem samfélagana sjálfra. Breiðara lýðræði, aukið jafnrétti og hringrásasarhagkerfi með samfélagslegri deilingu gæða er að teiknast um leið og öfgahyggja og pópúlismi eflast. Næstu áratugir verða spennandi og afdrifaríkir í pólitískum skilningi.
Landsbyggðaþingmaður verður að reyna að sinna málefnum kjördæmisins en hann er líka þingmaður allra kjördæma. Það fer eftir þingmálum. Gæti nefnt mörg sérmál sem tókst að þoka í rétta átt kjördæminu, stundum með samstiga átaki allra 10 þingmannanna, en sleppi því hér. Veit hins vegar að matarkistan og ferðasvæðið, kjördæmið allt, á ágæta framtíð í vændum, takist vel til með nýsköpun, menntunar- og búsetuskilyrði, samgöngur og skilgreiningar á þolmörkum náttúru og samfélaga á svæðinu. Sjálfbærni sem rammi stefnumótunar setur skorður við ójafnvægi og stanslausum vexti. Hefði viljað hafa rýmri tíma, sem hluti stærri þingflokks, til að ferðast oftar en varð um þetta stóra og þrískipta kjördæmi mitt. Þegar nú er kosið á ný til Alþingis tel ég að VG verði að ná að mynda kjölfestu í burðugri samsteypustjórn sem fetar áfram einstigið að ábyrgu frelsi, jafnrétti og jöfnuði.
Ég held áfram mínum störfum sem frá var horfið við kosningarnar 2016; bæti við bókum, jafnt fræðsluefni sem skáldskap, fræði fólk í fjölmiðlum og fyrirlestrum, stunda leiðsögn úti við og mín jarðvísindi eftir því sem býðst og sinni fjölskyldunni oftar en ég náði að gera meðan á þingsetunni stóð. Síðast ekki síst kalla heimalandið og norðurslóðir á mig, svo ég tali nú ekki um borgir og ferðalönd, og þá einkum og sér í lagi fyrir okkur hjónin saman. Mitt líf hefur verið kaflaskipt alla tíð og þegar þessum merka og litríka kafla í samfélagsþjónustu er lokið taka þeir óskrifuðu við. Þakka mikið vel samskiptin við ykkur í Suðurkjördæmi í áranna rás.

Ari Trausti Guðmundsson
Höfundur er þingmaður VG