Í síðustu viku var mikið um það rætt á samfélagsmiðlum að dýraníð væri við líði hjá okkur á Tjörn II. Fóru ásakendur þar mikinn og vorum við bræðurnir á bænum sakaðir um líkamsmeiðingar, ýmisskonar ofbeldi, dýraníð, hótanir og fleira í þeim dúr. Umræðan fór af stað þar sem myndband var birt af tveimur af hundunum okkar sem réðust á lamb og í kjölfarið fór af stað ótrúleg atburðarás þar sem öll atvik voru tekin úr samhengi meðal annars með því að birta myndir af öðru blóðugu lambi sem sagt var að fundist hafi hjá bænum og með alvarlegum ásökunum um líkamlegt ofbeldi og hótanir af okkar hálfu. Stærstum hluta þessara ásakana hefur nú verið eytt af internetinu en við eigum skjáskot af umræðunni sem er að miklu leyti bæði ósönn og særandi.
Við leituðum okkur ráðgjafar vegna málsins og vildum bregðast við með réttum hætti, sérstaklega dýranna vegna. Ákveðið var að hafa samband við MAST sem þá þegar var á leiðinni á staðinn enda hafði lögreglu borist kvörtun vegna málsins. Jafnframt var haft samband við dýralækni hér á staðnum og óskað eftir að fá mat á því hvort aflífa ætti hundana og hvernig skyldi bregðast við að öðru leyti. Rétt er að geta þess að við samþykkjum að sjálfsögðu ekki að hundarnir ráðist að lambi með þessum hætti og við höfum gert allar viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir að slíkt gerist aftur.
Héraðsdýralæknir frá MAST kom á staðinn þegar daginn eftir atburðina og lá niðurstaða þeirrar heimsóknar fyrir í skýrslu frá 6. júní 2019. Þar kemur fram að ástæða þess að MAST hafi verið kallað á staðinn sé sú að lögreglunni hafi borist ábending um tvo hunda sem hafi bitið fé á bænum og sagt hafi verið frá því að hundarnir gelti mikið og á öllum tímum sólarhrings auk þess sem myndband hafi verið sent með ábendingunni og á því sjáist hvar hundarnir bíti í ullarreifi á lambinu og togi en ekki sjáist á myndbandinu að hundarnir bíti í hold né sjáist skaði á dýrinu. Þá sjáist hvar eigandi komi hlaupandi og kalli hundana til sín og taki þá af vettvangi. Ekki voru gerðar athugasemdir við framgang eiganda við hundana.
Þá segir í skýrslunni að á samfélagsmiðlum hafi verið dreift myndbandi af blóðugu nýbornu lambi eftir hundabit eins og sagt væri á netinu. Við könnun á eyrnamarki lambsins sé umrætt lamb ekki frá viðkomandi bæ eða svæðinu í kring samkvæmt lögreglu og telur héraðsdýralæknir umrædda mynd vera frá öðru atviki en þessu.
Niðurstöður heimsóknarinnar voru þær að í hólfinu þar sem atvikið átti sér stað séu 8 ógeltir lambhrútar sem fæðst hafi árið 2018. Þeir hafi verið í ullinni og fullorðinsmerki vanti á þá. Að sögn eiganda ætli hann að rýja þá þegar fari að hlýna. Héraðsdýralæknir hafi skoðað hrútana og enginn af þeim hafi verið með áverka eða merki um hundabit heldur hafi verið að sjá að hundarnir hafi aðeins togað í ullina eins og virðist koma fram á myndbandi. Engin blóðug eða bitin lömb hafi verið á bænum.
Þá voru allir hundarnir skoðaðir. Holdarfar, feldhirða, tann- og klóhirða voru án athugasemda.
Jafnframt segir að þegar eftirlitsmaður hafi verið á staðnum hafi hundarnir verið rólegir miðað við að ókunnugur aðili sé í miðri stíu. Þeir hafi leikið sér og virst í góðu jafnvægi. Fullorðnu hundarnir hafi virkað vel hlýðnir en yngri hundarnir hafi enn verið undir þjálfun.
Þar sem hundarnir höfðu ekki skaðað lamb var það mat dýralæknis að ekki þyrfti að aflífa þá en við munum að sjálfsögðu hafa gott eftirlit með því að atvik eins og það sem sést á viðkomandi myndbandi endurtaki sig ekki.
Það er von mín og okkar að með því að upplýsa um málavöxtu með þessum hætti og með því að bregðast við með því að fá ráðgjöf og aðstoð í málinu sé því nú lokið og aðrir aðilar málsins láti gott heita í ásökunum og rógburði á netinu. Við munum ekki leggja fram kærur í málinu að svo stöddu enda erum við hvorki að sækjast eftir peningum né hefndum heldur einungis því að fá frið fyrir ásökunum sem dunið hafa á okkur undanfarið og varpa ljósi á okkar hlið málsins og hvernig hefur verið brugðist við af okkar hálfu. Það er von okkar að þessar upplýsingar um staðreyndir málsins verði til þess að lægja öldurnar og munu þetta verða okkar einu viðbrögð við málinu. Ef einhverjir hafa áhuga á að nálgast skýrslu MAST eða fá staðfestingu á því sem hér kemur fram er velkomið að fá afrit skýrslunni.
Með vinsemd og virðingu
Agnar Ólafsson Tjörn II