Mikið var úr gert þegar Bandaríkjaforsetinn, í nýlegu ávarpi til þjóðar sinnar helguðu krónuvírus svokölluðum, sagði svo: „Fólk er að deyja sem aldrei fyrr“ – (eða: People are dying like never before).
Það þýðir víst ekkert lengur að leita að kvótinu á netinu, alt-sannleikadeild Bandaríkjanna hefur þegar grafið það í umsvifamiklum reykmekki – svo sem flestum föstum orðasamböndum og líkingum sé saman ruglað.
Mér fannst þetta nú langtífrá það alvarlegasta sem frá manninum hefur komið, og frekar til eftirbreytni og virðingar að færa ýkjustílinn inn á þenna ólíklega vettvang ræðu og upplýsingagjafar. Sjálfur var ég með nýja bók Jóns Þ. Þórs í höndunum: Víkinga og væringja sem rifjaði upp þessa sígildu lýsingu á kappanum Gunnari Hámundarsyni að „…sögðu það allir menn að hann brygði sér hvorki við sár né við bana.“
Kann það við einhvern kaun að koma að brigsla Bandaríkjaforseta um víkingaaldar tilsvaragáfu og kaldhæðni, en það verður samt að viðurkennast að maðurinn ýkir gjarna. Það er allt stórt og mest, og met og aldrei eins á byggðu bóli og sv frv – höfum við þá frekar valið að bera manninn samanvið barn sem hefur ekki enn haft ástæðu til að marka, eða sætta sig við að það verða að vera, skil milli fantasíu og veruleika.
Ekki vildi ég samt vera sá sem tekur upp hanskann fyrir höfðingja þenna – en svo fylgdist ég með sjónvarpspistli Nikitu Sergeevitsj Mikhalkov á Vesti.ru og fékk þar hina rússnesku sýn á þá sérstöku daga sem við lifum, öh, þessa dagana. Varð þá samhengið ennum skarpara.
Hann sagði margt en mest var lagt út af orðum heimspekingsins (sem einnig hafa verið editeruð og altsannleikuð til að helgast tilgangi hverju sinni) Ívans Aleksandróvitsjar Ilíns: „Gildi þess að lifa og trúa ræðst af því hversu viljug við erum að berjast og deyja fyrir það; þar eð dauðinn er hinn sanni og æðsti mælikvarði á allt lífsins inntak.“ (úr bókinni Vegur andlegrar endurnýjunar).
M.ö.o. lífið er eingöngu einhvers virði ef þú ert tilbúin að deyja fyrir það.
Þetta er að vísu ekki alveg samanburðarhæft við skrökið í fornmönnum um hreysti sína og getur, og Rússar hafa alveg góða og sérstaka ástæðu til að þykjast eiga tilkall til þeirrar iðju að deyja fyrir lífið. En þversögnin inniberandi kallast á vissan hátt við það að „deyja sem aldrei fyrr“.
Það er líka hægt að ýkja í hina áttina, hampa fálæti og ládeyðu og gera sem allra minnst úr öllu. Sbr lýsingu Snorra Sturlusonar í Heimskringlu á Halldóri Snorrasyni; „…at hann hafi verit þeirra manna með honum. er sízt brygði við váveifliga hluti, hvárt er þar var mannháski eða fagnaðartíðendi, eða hvat sem at hendi kom í háska, þá var hann eigi glaðari og eigi óglaðari. Eigi svaf hann meira né minna eða drakk eða neytti matar, en svá sem vanði hans var til.“ (hér tekið úr bók Jóns Þ. Þórs).
Góðar stundir og reynum öll bara að lifa sem lengst.
Gísli Magnússon
bókavörður