Ströndin á Horni 1873

0
1005

Gísli Sverrir Árnason

Sjóslysanna miklu fyrir 150 árum minnst
Aðfaranótt 7. mars 1873 fórst fjöldi franskra fiskiskipa við Horn í Nesjum og víðar við Suðausturströndina í miklu óveðri. Heimilisfólk á Horni hlúði að þeim skipsbrotsmönnum sem komust lifandi í land og voru bændurnir tveir síðar heiðraðir af frönskum stjórnvöldum fyrir björgunarafrekið. Fjöldi Nesjamanna vann vikum saman að björgunarstörfum, leit og greftrun sjómanna og björgun verðmæta úr skipunum. Þórbergur Þórðarson skrásetti frásögn af slysunum árið 1934 og birti í tímaritinu Dvöl. Hún kom síðar í bókinni Frásagnir í ritsafni Þórbergs. Í eftirfarandi samantekt sem rituð er til þess að minnast þessara atburða er aðallega stuðst við ritgerð Þórbergs en einnig dagbækur, bréf og aðrar heimildir.

Horn í Nesjum um miðja 20. öld, löngu eftir sjóslysin 1873. Ljósmyndir eru flestar frá Menningarmiðstöð Hornafjarðar

Framan af fimmtudeginum 6. mars 1873 var hæg austanátt og skýjað loft á Suðausturlandi. Frá Horni, austasta bæ í Nesjum, sást til margra franskra fiskiskipa sem voru að handfæraveiðum skammt frá landi og rak skúturnar hægt suður með landinu undan austanáttinni. Á Horni var tvíbýli. Á öðrum bænum bjuggu Eyjólfur Sigurðsson timburmaður 44 ára bóndi og smiður og Guðleif Stefánsdóttir kona hans ásamt sex börnum og öðru heimilisfólki, samtals 11 manns. Meðal barna þeirra var Sigurður sem var 12 ára gamall þegar atburðirnir gerðust og varð síðar aðalheimildamaður Þórbergs Þórðarsonar um slysin og eftirmál þeirra. Í hinum bænum bjó Sigurður Snjólfsson 59 ára bóndi sem nýlega hafði misst konu sína, Halldóru Nikulásdóttur. Í heimili hans voru tíu.
Síðdegis þennan dag snerist vindur til suðausturs og fylgdi því nokkur snjókoma og dimma. Hurfu þá skipin sjónum fólksins. Skömmu fyrir miðnætti brast á sunnan eða suðvestan stormur með mikilli rigningu og algjöru dimmviðri. Undir morgun lægði vind og gerði hið besta veður.

Frönsk skúta að veiðum út af Eystrahorni nær aldamótum 1900.


Strandmanna verður vart
Við fótaferð fólksins á Horni þann 7. mars varð vart við hóp sjómanna sem gekk áleiðis heim að bænum. Þeir voru átján talsins og virtust ekki óhressir að sjá, enda kom í ljós að þeir höfðu bjargað koníakskút og bragðað á honum á göngunni frá strandstað. Skip þeirra, Fleur de Marie (Maríublóm á íslensku) frá bænum Paimpol á Bretagneskaga í Frakklandi, hafði strandað við Stokksnes, lítið eitt vestan við bæina á Horni. Síðar um daginn bættust þrettán aðrir franskir sjómenn við hópinn sem fyrir var og var öllum þessum mönnum búinn staður í bæ Eyjólfs Sigurðssonar en heimilisfólkið þar flutti sig allt yfir í hinn bæinn, til Sigurðar Snjólfssonar. Var talið að þessir þrettán hefðu að mestu komið af öðru skipi, L´Oiseau de mer (Sjófugli) frá bænum Pontrieux skammt frá Paimpol, en það hafði rekið á Hornsfjörur, undan svokölluðu Miðskeri. En einn þeirra var þó jafnvel talinn hafa bjargast af þriðja skipinu, Notre Dame des Dunes (Heilög María frá Dunes) frá Paimpol sem brotnað hafði á Þinganesskerjum rétt austan við Hornafjarðarós og var sá eini sem komst af úr þeirri skipshöfn.

Hreppstjórarnir Jón Jónsson í Hólum og Stefán Eiríksson í Árnanesi héldu strax og fréttist af ströndunum út að Horni og tóku við stjórn björgunarstarfa. Voru þeir daglega á strandstöðum og gistu stundum á Horni þótt þröngt hafi verið á heimilunum tveimur eftir að skotið hafði verið skjólshúsi yfir skipsbrotsmennina. Jafnframt var sendur maður til þess að gera Árna Gíslasyni sýslumanni Skaftfellinga á Kirkjubæjarklaustri viðvart um ströndin.

Fljótlega kom í ljós að sjóslysin við Horn voru mun hörmulegri en fyrst var talið. Eitt skip, L´Express (Snarfari) hafði farist á svokölluðu Flataskeri skammt vestan Stokksness og annað, Marie Joséphine (hún var hefðarkona á Bretagne) rak upp í Hornsvík eða brotnaði á skerjum við Papós. Af þessum tveimur skipum komst enginn lífs af.

Hið mannskæða sjóslys hafði að vonum mikil áhrif á sjómennina sem komust lífs af. Þeir sáu á bak skipsfélögum sínum, jafnvel náskyldum. Frásögn af örlögum eina skipstjórans sem komst af var á þessa leið:

Allir skipstjórarnir af skútum þessum fórust, að undanteknum skipstjóranum af Fleur de Marie. Hann komst heilu og höldnu í land og fylgdi skipshöfninni upp á fjöruna, er hún yfirgaf skipið. Þar kvaddi hann félaga sína. Kvaðst hann hvorki eiga konu né börn, en þetta væri í þriðja skipti, sem hann biði skipbrot. Hvarf hann síðan aftur til skips, en þeir tóku að leita byggða. Síðar um daginn fundu þeir hann örendan á þilfari skipsins. Héldu menn, að hann hefði tekið inn eitur, því að á líkinu sáust engir áverkar. Þetta skip lá óskaddað uppi á klöppum til næsta flóðs, svo að ganga mátti þurrum fótum út í það. En með aðfallinu tók það að liðast í sundur og brotna.

Slösuðum sinnt og hinir látnu jarðaðir
Fáeinir skipverjanna sem komust af voru meiddir, mest þó tveir. Enginn læknir var í héraðinu en Guðmundur Eiríksson í Hoffelli, bróðir Stefáns hreppsstjóra, hjálpaði einhverjum svo og séra Bjarni Sveinsson á Stafafelli í Lóni en þeir fengust báðir nokkuð við lækningar þótt ólærðir væru. Sá sjómannanna sem lengst átti í sárum sínum og dvaldi á Horni var þar fram í ágúst um sumarið.
Strax daginn eftir skipsskaðana fór ýmsan varning að reka á fjörur auk braks úr skipunum sjálfum sem óðum brotnuðu á skerjum eða upp í fjöruborði. Ægði þar öllu saman „í þykkum röstum á fjörunum kringum Stokksnes skipsflökum, timburrusli, köðlum, handfærum, seglum, matvælum og líkum“ var haft eftir Sigurði á Horni löngu seinna. Mikið rak einnig austur á Lónsfjörur. Þegar hófst söfnun líka sjómannanna og smíði á kistum utan um þau. Meðal þeirra sem önnuðust smíðina var Jón Guðmundsson bóndi í Þinganesi. Vann hann í tvær vikur samfleytt með vinnumanni sínum við að slá saman líkkistur og luku þeir við tvær eða þrjár kistur á dag. Timbur var ófáanlegt í Papósverslun en nóg var af rekavið á fjörunum, sumt úr skipunum sjálfum. Þurfti að fletta trjánum í borð áður en hægt var að vinna úr þeim.

Fjörurnar voru nú eins og vígvöllur. Á fjörur Horns beggja vegna Stokksness rak 28 lík dagana eftir ströndin. Flestir mannanna munu hafa drukknað í særótinu við ströndina en ekki farist vegna meiðsla því lítið sem ekkert sá á flestum líkanna. Föt þeirra voru einnig óskemmd og hirtu sjómennirnir sem björguðust fötin af hinum látnu löndum sínum en hjálpuðu heimamönnum um leið að koma líkunum upp á sjávarkamb.

Hjónin á Horni. Guðleif Stefánsdóttir og Eyjólfur Sigurðsson timburmaður með gullmedalíuna

Allir sem vettlingi gátu valdið í Nesjum unnu við björgunarstörf. Í hlut sumra kom að annast flutning á líkum frönsku sjómannanna áleiðis til kirkju í Bjarnanesi. Líkum sem ráku á Hornsfjörur, allt frá Horni að Hornafjarðarósi var safnað saman á staði á innanverðum fjörunum þar sem bátar gátu lagst að. Þaðan var róið með líkin inn að Árnanesi en þegar ekki varð lengra komist á bátum voru líkin flutt á hestum og reidd á kviktrjám að Bjarnanesi þar sem þau voru grafin.

Líkin rak flest upp dagana eftir strandið en fram eftir árinu var að finnast eitt og eitt lík á fjörum. Séra Bergur Jónsson í Bjarnanesi jarðsöng „tíu strandmenn er fundust dauðir á ströndum þeim er ráku upp á Hornsfjöru“ þann 15. mars eins og segir í prestsþjónustubók, fjóra 16. mars, einn 27. mars, annan 29. mars, þriðja 4. apríl og loks rak eitt lík í desember og var jarðsett 12. þess mánaðar. Alls munu því 18 franskir sjómenn hafa fengið gröf í Bjarnanesi.

Fjöldagrafir á Stafafelli og í Holtum
Að minnsta kosti 38 lík rak á Lónsfjörur austan Horns báðum megin Bæjaróss og voru þau flutt jafnóðum á kviktrjám heim að Stafafelli þar sem líkin voru lögð niður á túnið austan við kirkjugarðinn og breitt yfir þau. Í flýti var slegið utan um líkin og voru kisturnar hafðar með hefðbundnu lagi sem þá var á líkkistum en munurinn var að þær voru allar úr óhefluðum borðum. Tekin var stór gröf í útsuðurhorni kirkjugarðsins og voru frönsku sjómennirnir greftraðir þar hlið við hlið. Löngu síðar var reistur minningarsteinn á gröfinni.

Minningarsteinn í Stafafellskirkjugarði með áletruninni: A la memoire des 38 marins francais morts a Nesfjörur le 6. mars 1873. Til minningar um 38 franska sjómenn er fórust við Nesfjörur 6. mars 1873. Ljósm. Gunnar Stígur Reynisson.

Sagnir eru um að tvö lík hafi rekið í Álftafirði og verið jarðsett að Hofi. Á Mýrafjörur, vestan Hornafjarðaróss rak einnig fjölda líka. Voru 18 sjómenn jarðsettir í fjöldagröf í kirkjugarðinum í Holtum og ekki er útilokað að fleiri hafi bæst við.

Hefill. Eitt af verkfærunum frá frönsku stjórninni

Nær allir skipbrotsmennirnir, 31 að tölu, dvöldu í baðstofu Eyjólfs Sigurðssonar á Horni í nokkrar vikur meðan þess var beðið að þeir hresstust til heimferðar og svo var ekki mikið um skipaferðir til útlanda frá þessu landshorni. Sjómennirnir lágu í öllum rúmum sem voru í litlu baðstofunni en einnig á baðstofugólfinu og hafði heimilisfólkið borið inn hey til þess að mýkra yrði í fletum mannanna. Til viðurværis höfðu þeir ýmis matvæli sem rekið hafði úr skipunum og vildu þau frekar en íslenska sveitamatinn. Brauð fengu þeir einnig frá Papós.
Tvisvar í viku höfðu skipsbrotsmennirnir stuttar helgiathafnir utandyra. Tóku þeir þá ofan höfuðfötin, sungu og einn las húslestur. Þeir voru þægilegir í viðmóti, ekki mjög glaðlegir en létu vel að börnunum á bænum. Voru í hópnum menn á ólíkum aldri, allt frá unglingum upp í sextuga menn.

Sýslumaður heldur uppboð
Árni Gíslason sýslumaður kom að Árnanesi þann 19. mars og hélt út að Horni daginn eftir. Þótt skipin hefðu nú flest brotnað í spón var ýmislegt nýtilegt af því sem bjargast hafði á land og var nú boðið upp. Bændur í Nesjum munaði mest um mikið magn af góðum við sem þeir fengu á góðu verði og gátu notað mörg næstu ár í útihús sín. En mikil vinna var við að rífa skipsflökin. Ýmislegt fleira en viður var svo boðið upp. Jón hreppstjóri í Hólum keypti meðal annars nokkrar tunnur með hvítöli en Nesjamönnum þótti það heldur bragðdauft.

Hefilbekkur frá frönsku stjórninni

Mannlaust skip rak upp á Einholtsfjörur á Mýrum, vestan Hornafjarðaróss 21. mars. Hét það Requin (Hákarl) og var frá hafnarborginni Dunkerque á norðvesturströnd Frakklands. Var talið að skipverjum þess hefði verið bjargað um borð í aðra franska skútu.

Ekki var von á vorskipi á Papós fyrr en um miðjan júní. Því varð að ráði að flytja strandmennina austur á Djúpavog í veg fyrir skip til útlanda, alla nema þrjá. Tveir voru of veikburða fyrir ferðalagið og sá þriðji varð eftir til þess að annast þá. Tóku Nesjamenn, undir forystu hreppstjóranna tveggja að sér að fylgja 28 mönnum fyrsta spölinn upp að Stafafelli. Þar gistu þeir í hlöðu séra Bjarna Sveinssonar og vildi hann það frekar en að lofa þeim að sofa í kirkjunni því síðast þegar strandmenn fengu að gista þar skildu þeir eftir mikinn óþef í guðshúsinu. Var vel búið að frönsku sjómönnunum í hlöðunni.

Á Stafafelli tók Jón Jónsson hreppstjóri í Byggðarholti við hópnum daginn eftir og hélt ásamt sveitungum sínum með mennina yfir Lónsheiði og alla leið að Hofi í Álftafirði þar sem séra Þórarinn Erlendsson var þá prestur. Hann hafði fyrrum verið prestur í Bjarnanesi. Sáu Álftfirðingar um að fylgja strandmönnunum síðasta spölinn á Djúpavog þar sem þeir munu hafa komist í skip fljótlega sem flutti þá utan.

Hornsbændur heiðraðir
Það er af þeim þremur sem eftir urðu á Horni að segja að sá þeirra slösuðu sem fyrr náði sér mun hafa farið ásamt hjálparmanni sínum seinna um vorið og ef til vill náð skipi á Papós. Hinn, sem meira var slasaður, stýrimaðurinn af L´Oiseau, var sóttur af frönsku herskipi í ágúst. Sama herskipið kom svo aftur inn á Hornsbót í júní sumarið eftir (1874) og færði Hornsbændunum Eyjólfi og Sigurði margskonar smíðaáhöld; hefilbekk, sagir og margt fleira. Bændurnir fengu einnig heiðursskjöl og gullmedalíur frá frönskum stjórnvöldum sem virðingar- og þakklætisvott fyrir björgun og umönnun sjómannanna sem komust af. Hélt Eyjólfur mjög upp á viðurkenningarnar og bar hann hið „frakkneska“ heiðursmerki við ýmis hátíðleg tækifæri.

Allt í allt munu að minnsta kosti 76 lík franskra sjómanna hafa verið jarðsett í Holtum á Mýrum, Bjarnanesi í Nesjum og að Stafafelli í Lóni en margir hlutu einnig vota gröf. Talið er að allt að eitt hundrað franskir sjómenn hafi farist í þessu sjóslysi í mars 1873 og er þetta eitt mannskæðasta sjóslys sem sögur fara af við strendur Íslands. Um þessar mundir eru 150 ár liðin frá þessum miklu mannsköðum og því var tilefni til þess að minnast þeirra. Samantekt þessi er hluti af viðameira verkefni sem unnið er að á vegum Þórbergsseturs.

Heiðursskjal frönsku stjórnarinnar til Eyjólfs Sigurðssonar á Horni