Þorvaldur þusar 14.desember

0
742

Um þessar mundir virðist umræðan um niðurstöður úr nýrri Písakönnun vera þjóðinni hugleikin.
Nú hafa verið birtar niðurstöður úr síðustu Písakönnun. Ísland stendur sig illa. Áberandi er að drengir eru verri í
les- og málskilningi en stúlkur, sem eru lakari jafnöldrum sínum annars staðar. Hvað veldur? Það eru margir þættir sem valda þessum slaka árangri.
Líklegt er að færri foreldrar lesi fyrir börnin. Börn eru löngum stundum á leikskólum eða allt að níu klukkustundum á dag, sem er glórulaust. Samverustundum fjölskyldna hefur fækkað. Þetta hefur veruleg áhrif á máltöku barna. Síminn og tölvan hefur heltekið börn og unglinga. Tölvuheimur klámsins fræðir ungmenni og jafnvel börn um kynlíf og samskipti kynjanna. Tölvuleikir sem tröllríða samfélagi ungmenna og barna eru til bölvunar. Allt þetta umhverfi stuðlar ekki að lestri. Þetta stuðlar að félagslegri einangrun og þunglyndi. Námsgögn hafa verið og eru enn í sumum greinum afleit og ekki í takt við kröfur nútímans. Ég tel að slakur árangur íslenskra ungmenna sé ekki sök skólanna nema að litlu leyti. Stærri hluti vandans liggur hjá heimilunum þar sem óheftur aðgangur að tölvu- og símanotkun er látinn afskiptalaus. Einkenni tölvuleikja er léleg- og enskuskotin íslenska. Þetta held ég að séu helstu skýringar þessa lélega árangurs.

Fjölmiðlar fjalla líka um fjöldamorðin á Gasa, sem nú virðast vera komin á það stig að flestum þjóðum blöskrar, þó ekki Bandaríkjunum samanber afstöðu þeirra á vettvangi Sameinuðu þjóðanna! Ekki verði samið um vopnahlé fyrr en allir Hamas liðar hafa verið drepnir. Þannig hljómar boðskapur ríkisstjórnar Ísraels ríkis. Spurt er: Þarf þá nokkuð að semja er þá ekki sjálfhætt! Þessi styrjöld er svo svívirðileg, mannfallið er hrikalegt og eyðileggingin svakaleg. Auk alls þessa er þjóðarbrotið hrakið fram og aftur. Skortur er á öllu svo sem mat, drykkjarvatni, lyfjum o. fl.
Með sorgar kveðju
Þorvaldur þusari