Ársþing SASS 2023

0
413

Ársþing Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) var haldið í Vík í Mýrdalshreppi 26. – 27. október sl. en þetta var 54. þingið. Það var fjölsótt en alls sóttu ríflega 120 fulltrúar þingið og af þeim eru 70 kjörgengir.
Á ársþinginu eru aðalfundir SASS, Sorpstöðvar Suðurlands og Heilbrigðiseftirlits Suðurlands haldnir. Auk almennra aðalfundarstarfa voru fjölmög áhugaverð erindi flutt og góðar umræður voru um ályktanir og hver skyldu vera áhersluverkefni samtakanna á komandi starfsári. Milliþinganefndir hafa verið að störfum á árinu sem fjallað hafa um ýmsa málaflokka sem skipta sunnlenskt samfélag máli og þær skiluðu vel útfærðum ályktunum og tillögum að verkefnum. Sem dæmi má nefna að samgönguáætlun SASS fyrir árabilið 2023 – 2033 hefur verið uppfærð.

Hér á eftir má sjá samantekt um vinnuna sem þar fór fram og hver eru helstu forgangsatriðin:

Forgangsraða vegaframkvæmdum á Suðurlandi í þágu öryggis vegfarenda s.s með því að breikka vegi, fjölga útskotum, laga vegaxlir, fækka einbreiðum brúm og bæta vetrarþjónustu. Mikill umferðarþungi er í umdæminu, ekki síst vegna mikillar fjölgunar íbúa og ferðamanna.
Efla þarf löggæslu og viðbragð sjúkraflutninga. Sýnileg löggæsla og öflugt umferðareftirlit heldur niðri umferðarhraða og eykur öryggi vegfarenda. Þá er mikilvægt að stytta viðbragðstíma lögreglu og sjúkraflutninga þar sem hann er mestur. Að því marki ber að fullkanna möguleikann á sérhæfðri sjúkraþyrlu á Suðurlandi. Brýnt er að slík þyrla verði staðsett á Suðurlandi og sé hluti af starfsemi HSu.

Auka fjárveitingu í heilbrigðisþjónustu og skorað á heilbrigðisráðherra að einfalda fyrirkomulag og flýta stafrænni innleiðingu á endurgreiðslu ferðakostnaðar innanlands vegna heilbrigðisþjónustu sem ekki er veitt í heimabyggð.

Skorað á umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra að jafna flutningsgjald raforku milli þéttbýlis og dreifbýlis. Fjarlægja þarf heimild til sérstakrar dreifbýlisgjaldskráar.

Gera þarf stórátak í að fjölga hleðslustöðvum fyrir rafbíla um allt Suðurland.

Mikilvægt er að landsbyggðin hafi greiðan aðgang að skilvirkum, öflugum og hagkvæmum almenningssamgöngum sem tryggja aðgengi að þjónustu í höfuðborginni. Þá er mikilvægt að flugsamgöngur verði tryggðar til framtíðar bæði til Hornafjarðar og Vestmannaeyja.

Tryggja þarf jafnrétti til háskólanáms óháð búsetu með auknu aðgengi að fjarnámi á Suðurlandi og þar með færa Háskóla Íslands inn á 21. öldina. Auk þess þarf að tryggja heimavist við Fjölbrautaskóla Suðurlands til að gæta jafnréttis ungmenna til náms óháð búsetu.

Ríkið þarf að móta stefnu í minka- og refaveiðum og stórauka fjármagn til að halda minkum og refum í skefjum í byggð.

Mikilvægt að stöðugleiki ríki á
vinnumarkaði.

Ársþing SASS skorar á sveitarfélög og ríki að hefja viðræður um það hvernig tryggja megi nærsamfélögum um allt land eðlilegar tekjur af auðlindanýtingu, tekjur sem muni styrkja byggð, og þannig skapa skilyrði til búsetufrelsis um land allt. Mikilvægt er að sveitarfélög hafi tækifæri til að byggja upp nauðsynlega innviði svo að nýting auðlinda geti orðið samfélagslega sjálfbær.