Þjóðvegur í þéttbýli, er þörf á honum?

0
344

Endurskoðun á aðalskipulagi Sveitarfélagsins Hornafjarðar stendur nú yfir og er áætlað að henni ljúki árið 2025. Á íbúafundi 12.10 síðast liðinn var áætlun um verkefnið kynnt og í framhaldinu óskað eftir hugmyndum frá fundargestum um æskilegar áherslur í endurskoðuðu skipulagi. Fundurinn var líflegur og margar athygliverðar hugmyndir komu fram sem munu eflaust gagnast því fagfólki sem vinnur að endurskoðun skipulagisins.
Á fundinum varpaði ég fram m.a. tillögu um að falla frá áformum um breytingu á innakstri í bæinn með lagningu svonefnds þjóðvegar í þéttbýli. Rök mín fyrir þessari tillögu eru í fyrsta lagi þau, að mjög lítill hluti þeirrar fraktar sem kemur af hafi á Höfn er í framhaldinu flutt á landi og það sama á við um frakt sem er skipað út á Höfn hún er í hverfandi mæli flutt landleiðna til Hafnar. Af þessari ástæðu er ekki þörf á sérstökum vegi. Í öðru lagi mundi þessi vegur kljúfa nýja íbúabyggð frá núverandi byggð ásamt því að rýra verulega gæði þeirrar náttúru sem áætlað er að hann liggi um. Og í þriðja lagi mun hann kosta verulega fjárhæð sem betur er komin í önnur þarfari verkefni. Gert er ráð fyrir að vegurinn tengist Hafnarbrautinni innan við Vesturbraut og liggi til austurs, austan Sílavíkur eða vestan og síðan yfir leirurnar og Lyngey og endi við höfnina í Álaugarey. Lengd þessa nýja vegar yrði 1,5 – 2 km. Í dag eru tvö félag sem stunda landflutninga til og frá Höfn og bækistöðvar þeirra hér eru ekki sérbyggðar til flutningstarfsemi. Tímabært er að nútímavæða bækistöðvarnar t.d. með því að reisa vöruhótel þar sem flutningafyrirtækin gætu keypt sér þjónustu ásamt öðrum fyrirtækjum sem hugsanlega vildu koma inn á flutningamarkaðinn hér í framtíðinni. Vöruhótel mundi bæta þjónustu og auka hagkvæmni þeirra fyrirtækja sem nýttu sér þjónustu þess t.d. verslanna, hótela og veitingahúsa. Megin markmið með lagningu umrædds vegar er að á veginn færist þungaflutningar af götum sem liggja í íbúðabyggð og af öðrum götum þar sem fólk fer um gangandi eða hjólandi. Í ljósi þess sem hefur verið rakið hér að framan sýnist mér augljóst að við endurskoðun á aðalskipulaginu eigi að gera ráð fyrir nýju athafnasvæði austan Hafnarbrautar sunnan vegarins að hesthúsabyggðinni út á Ægissíðu og færa þangað starfsemi flutningafyrirtækjanna o.fl. líka starfsemi. Þarna er gott rými fyrir atvinnustarfsemi sem þarfnast stórrar lóðar svo sem vöruhótels og byggingarvöruverslunar svo eitthvað sé nefnt. Verði þetta að veruleika verða þungaflutningar gegnum bæinn hverfandi og þar með er umræddur þjóðvegur í þéttbýli óþarfur.

Ég vonast til að skipulagsyfirvöld séu mér sammála og bregðist hratt við og úthluti ekki lóð fyrir flutningastarfsemi án þess að heildarmynd væntanlegs endurskoðaðs skipulags sé höfð að leiðarljósi.

Höfn í okt. 2023
Ari Jónsson