Námsferð í lónsöræfi

0
183

Þann 11. september síðastliðinn fór 10. bekkur Grunnskóla Hornafjarðar í Lónsöræfi ásamt Jóni Bragasyni og kennurunum Huldu, Elsu og Berglindi. Þessi ferð er farin árlega og er alveg ómissandi að mati nemenda og kennara. Áður en við fórum í ferðina þá unnum við ýmis verkefni sem tengjast Lónsörfæfum, eins og jarðfræði, náttúrufræði og sögu. Við höldum svo áfram að vinna í verkefninu eftir að við komum heim úr ferðinni. Við búum til heimasíðu þar sem við söfnum öllum upplýsingum sem tengjast verkefninu eins og búnaðarlista sem við gerum og setjum þangað inn, upplýsingar um byggðina í Víðidal og margt fleira. Hver hópur bjó síðan til stutt myndband um ferðina og við buðum foreldrum síðan á kaffihúsakvöld.
Ferðin hófst á því að keyrt var upp á Illakamb. Þaðan var labbað niður í Múlaskála þar sem allir gátu lagt frá sér farangurinn og búið sig fyrir seinni göngu dagsins. Leiðin lá þá upp á Víðibrekkusker, Jón Bragason var leiðsögumaður ásamt fararstjórum sem voru starfsmenn við Grunnskóla Hornafjarðar. Þegar komið var upp á Víðibrekkusker voru útskýrð nokkur jarðfræðihugtök, þar sem eitt af markmiðum ferðarinnar var að fræða okkur krakkana um náttúru- og jarðfræði. Eftir að komið var til baka í skálann var eldaður kvöldmatur, það var frjáls tími eftir matinn en um ellefu leytið voru allir sendir upp í rúm.

Næsta dag var ferðinni heitið að Tröllakrókum, margar pásur voru teknar á leiðinni þar sem gangan var bæði erfið og löng. Þegar við komum að Tröllakrókum voru teknar margar myndir. Á leiðinni til baka fórum við í Víðidal og sagði Jón Bragason okkur mikið um byggðina og fólkið sem bjó þar. Þegar komið var aftur í skálann eftir erfiða göngu voru grilluð lambalæri enda allir orðnir svangir eftir 9 klukkustunda göngu. Þegar búið var að ganga frá eftir matinn var farið í feluleik og var síðan kveiktur eldur þar sem menn gátu grillað sykurpúða. Síðan var frjáls tími fyrir okkur krakkana og fengum við að vera aðeins lengur úti þar sem þetta var seinna kvöldið.

Morguninn eftir var byrjað á að pakka farangrinum aftur í poka og ganga frá öllu í skálanum. Eftir það gengum við frá skálanum og upp á Illakamb. Þessi leið var mjög krefjandi þar sem við þurftum að labba upp allan Illakamb með þunga poka á bakinu og þar að auki voru allir frekar þreyttir eftir ferðina. En það tókst og við komumst í bílana sem keyrðu okkur heim.

Það er margt sem maður lærir í svona ferð, til dæmis að pakka rétt, því við þurftum að bera allt sjálf í bakpokum. Við lærðum líka að lifa án rafmagns og netsambands. Við lærðum hvað á að gera ef frýs í öllum lögnum og þar með talið klósettlögnum. Og ef við þurftum heitt vatn þurftum við að hita það sjálf.

Óhætt er að segja að við krakkarnir vorum hæstánægð með ferðina og hún var líka gott hópefli. Við viljum þakka fararstjórunum fyrir góða ferð.

Fyrir hönd 10. bekkjar
Guðlaug, Ída Mekkín og Þorgerður María