Lesendabréf

0
385

Nú þegar Málfríður er hætt að benda á það sem betur má fara, langar mig aðeins að hrósa. Ég hef nú af og til sett inn á hópinn Íbúar í Sveitarfélaginu Hornafirði hluti sem eru frábærir.

Til dæmis er það minigolf völlurinn, ofboðslega skemmtilegt framtak og við fjölskyldan stoppum þar reglulega og tökum eina umferð. Nú síðast skrifaði ég um Almar í tjaldinu. Fólk er verulega spennt fyrir sýningunni sem verður opnuð í Svavarssafni 15. september næstkomandi.

Nú þegar haustið gengur í garð er uppskera víða, berjarunnarnir í mörgum görðum glæsilegir, þrátt fyrir vætulítið sumar og ég var svo heppin að fá boð í garð vinkonu að tína og tíndi þokkalegasta magn af rifsberjum fyrir ömmu mína til að hleypa. Þá bauð önnur vinkona mín fólki á áðurnefndum facebook hópi (íbúar í Sveitarfélaginu Hornafirði) að koma og tína af sínum runnum og ég sótti mér sjálfri einn poka af rifsberjum og prófaði að hleypa sjálf. Bæði einfalt og skemmtilegt, góð leið til þess að hugleiða líka. Gleður mig líka að geta keypt nýjar hornfirskar kartöflur í búðinni.

Ég verð líka að minnast á grænmetið frá Hólmi, ég veit ekki hvort ég hafi séð jafn fallegt grænmeti og sendingin upp að dyrum. Það sem skiptir meira máli er að það er líklega besta og ferskasta grænmeti sem við getum fengið (ef við sáðum ekki sjálf í vor). Ég hlakka til að kaupa meira af þeim með haustinu.

Ég læt þetta duga í bili. Af nógu er að taka.

Bestu, Róslín