Eva Bjarnadóttir og Hanna Dís í safnaeign

0
288

Laugardaginn 10. júní verður móttaka haldin á Svavarssafni til að taka við verkum í safnið eftir Hönnu Dís Whitehead og Evu Bjarnadóttur. Eva og Hanna Dís eru búsettar og starfandi í sveitarfélaginu en þær eru báðar með ólíkan og einkennandi stíl. Á síðasta ári ákvað atvinnu- og menningarmálanefnd Hornafjarðar að kaupa verk eftir Hönnu og Evu í safneignina. „Hanna hefur hlotið mikla viðurkenningu fyrir sköpun sína sem er, allavega í mínum huga, einhvers staðar á mörkum hönnunar og myndlistar, og í öllu falli oft mjög ævintýraleg í áferð og efnivið. Eva er síðan gjörólík henni sem listamaður, þó svo hún eigi sameiginlegt með Hönnu Dís að vera mjög frumleg með efniviðinn. Mér finnst hún stundum á mörkum þess að vera þjóðfræðingur og listamaður, en það má ekki gleyma því að þó svo verkin sem við tökum hér inn í safneign eru prentverk, þá felst listsköpun hennar ekki síður í að skapa texta, gjörninga, tónlist og viðburði.“ Boðið verður upp á kaffi og kleinur í móttökunni sem hefst klukkan þrjú.

 Snæbjörn Brynjarsson