Bókakynning og ljóðalestur í Þórbergssetri á Hala

0
238

Bókaútgáfa Félags ljóðaunnenda á Austurlandi og önnur starfsemi félagsins verður kynnt í Þórbergssetri á Hala sunnudaginn 30. apríl 2023. Dagskráin hefst klukkan 13:30 og lýkur klukkan 15:30. Stjórn félagsins stendur að kynningunni í samstarfi við Þorbjörgu Arnórsdóttur, forstöðumann Þórbergsseturs. Eftirtalið stjórnarfólk kemur fram á samkomunni og segir frá bókum félagsins og flytur ljóð úr þeim: Arnar Sigbjörnsson úr Fellabæ, nú búsettur í Kópavogi, Magnús Stefánsson Fáskrúðsfirði og Sólveig Björnsdóttir Laufási í Hjaltastaðaþinghá. Síðast en ekki síst kemur fram skáldkonan Kristín Laufey Jónsdóttir, Hlíð í Lóni og flytur eigin ljóð og annarra. Félag ljóðaunnenda á Austurlandi var stofnað árið 1996 og fljótlega urðu félagarnir yfir eitt hundrað að tölu. Hefur sá fjöldi félagsmanna haldist að mestu óbreyttur öll þessi ár. Félagið hefur verið hugsað sem sameiginlegur vettvangur höfunda og annarra ljóðaunnenda og það hefur staðið fyrir fjölmörgum samkomum víða um fjórðunginn þar sem ljóð hafa verið lesin og sungin. Þá hefur félaginu verið ætlað að örva og styðja félagsmenn til útgáfu eigin ljóða. Strax við stofnun félagsins komu fram hugmyndir um útgáfu ljóðasafns eftir austfirska höfunda, slíkt safn hafði komið út árið 1949, bókin Aldrei gleymist Austurland. Fyrsta bók hins nýja ljóðafélags kom svo út árið 1999 og hlaut heitið Raddir að austan – Ljóð Austfirðinga. Bókin hefur að geyma ljóð og lausavísur eftir 122 austfirska höfunda sem allir voru á lifi við útkomu bókarinnar. Ekki stóð til í upphafi að félagið legði fyrir sig frekari bókaútgáfu en árið 2001 hóf það útgáfu á flokk ljóðabóka undir heitinu: Austfirsk ljóðskáld. Fyrsta bókin hlaut heitið Austan um land, höfundur hennar er Sigurður Óskar Pálsson frá Borgarfirði eystra. Svo hefur þetta æxlast þannig að síðan hefur ein bók komið út í flokknum á hverju ári. Þær eru því orðnar 22 að tölu. Sú nýjasta er úrval úr ljóðum fjögurra systkina frá Heiðarseli í Jökuldalsheiði, hún kom út á síðasta hausti. Bók númer 23 er í undirbúningi, ljóð Iðunnar Steinsdóttur frá Seyðisfirði. Fljótlega kom að því að framboð varð á fleiri ljóðahandritum en komust að í flokknum og félagið fór að gefa út það sem við nefnum „aukabækur“. Svo skemmtilega vill til að þær eru líka orðnar 22 talsins svo að félagið hefur gefið út 44 bækur. Erfitt er að láta sölu ljóðabóka standa undir kostnaði við útgáfu þeirra og félagið hefði ekki gefið út allar þessar bækur án þeirra styrkja sem það hefur notið. Uppbyggingarsjóður Austurlands hefur styrkt útgáfuna mörg síðustu ár og einnig sveitarfélög á Austurlandi. Félagar greiða ekki eiginlegt félagsgjald en kaupa eitt eintak af bókum í flokknum Austfirsk ljóðskáld. Með þessu móti er félaginu kleift að halda bókaútgáfunni áfram. Magnús Stefánsson