Í upphafi árs tóku gildi ný lög um meðhöndlun úrgangs á Íslandi sem eru gjarnan kölluð hringrásarlögin. Í þeim er meðal annars kveðið á um að flokka eigi í fjóra flokka við heimili og á vinnustöðum í þéttbýli og fleiri flokka á grenndarstöðvum. Auk þess verða merkingar samræmdar um allt land til að tryggja að við flokkum í takt. Hvað þýða þessar breytingar fyrir íbúa í Sveitarfélaginu Hornafirði? Þær þýða til dæmis að: • Nú munt þú geta flokkað úrganginn þinn á einfaldan og skilvirkan hátt. • Nú munt þú flokka eftir sömu flokkunarmerkingum hvort sem þú ert í Sveitarfélaginu Hornafirði eða í Hafnarfirði. • Nú munt þú fljótlega borga lægra gjald fyrir úrganginn þinn með því að draga úr magni hans og flokka betur. Það á að vera létt að gera betur í flokkun og endurvinnslu og með innleiðingu á hringrásarlögunum mun það verða einfaldara. Ekki seinna (umhverfis)vænna! Hringrásarlögin skapa ramma fyrir okkur svo hægt sé að halda auðlindum okkar í hringrás. Samhliða betrumbættu fyrirkomulagi við flokkun þurfum við þó einnig að huga að því hvernig við getum komið í veg fyrir myndun úrgangs og lágmarkað alla sóun. Rétt meðferð úrgangsauðlindarinnar er allt í senn loftslagsmál, sjálfbærnimál og umfram allt spurning um heilbrigða skynsemi. En hvaða breytingar er hér um að ræða? Flokkarnir sjö Hringrásarlögin kveða á um skyldu til að flokka heimilisúrgang í pappír og pappa, plast, matarleifar, málma, gler, textíl og spilliefni á heimilum og vinnustöðum. Við kveðjum ekki tunnuna fyrir blandaða úrganginn fyrir fullt og allt alveg strax þar sem ýmislegt þarf að rata þangað sem ekki á heima í flokkunartunnum s.s. bleyjur og ryksugupokar. Umfang hennar á þó að geta minnkað samhliða betri flokkun. Pappír, plasti, matarleifum og blönduðum úrgangi verður safnað við heimili og vinnustaði en textíl, málmum, gleri og spilliefnum verður safnað með öðrum hætti. Sveitarfélögunum er ætlað að útfæra leiðir við söfnun þessara úrgangsflokka. Bannað verður að urða eða brenna úrgang sem búið er að flokka enda er markmiðið að koma honum til endurnýtingar eða endurvinnslu. Urðun er úrelt þar sem hún er langversta aðferðin við meðhöndlun úrgangs. Borgað þegar hent er Við lagabreytinguna eiga sveitarfélögin að innheimta gjöld fyrir meðhöndlun úrgangs sem næst raunkostnaði. Með nýju fyrirkomulagi sem kallast „Borgað þegar hent er“ mun hvert heimili borga eftir magni og tegund úrgangs. Þau sem fleygja minna og flokka vel geta lækkað sinn kostnað fyrir meðhöndlun úrgangs. Breytingunni er ætlað að styðja við innleiðingu hringrásarhagkerfisins með hagrænum hvötum. Þannig má spara, umhverfið græðir en ávinningurinn er okkar allra! Sömu flokkunarmerkingar Sömu merkingar á ílátum og tunnum fyrir úrgang verða að veruleika á árinu 2023 og er kannski sú breyting sem flestir landsmenn hafa beðið eftir. Flokkun úrgangs á að vera einföld og skilvirk og því hefur notkun á samnorrænum merkingum fyrir flokkunartunnur- og ílát verið lögfest. Þessar merkingar er einnig að finna á mörgum vöruflokkum sem sýnir á einfaldan hátt í hvaða flokk varan eða umbúðirnar eiga að fara að notkun lokinni. Rétt skal vera létt og létt að flokka rétt! Allar tunnur innan sveitarfélagsins verða merktar með samræmdum merkingum frá FENÚR. Með samræmdum merkingum mun litur tunnunnar ekki skipta máli heldur aðeins merkingin á tunnunni. Almennt er reiknað með að tunnur undir pappír og pappa og plastumbúðir verði grænar að lit en tunnur undir blandaðan úrgang og matarleifar svartar eða dökk gráar. Innleiðing breytinganna Innleiðing lagabreytinganna og aðlögun að kröfum þeirra mun eiga sér stað yfir allt árið á landinu öllu. Reiknað er með að nýtt flokkunarkerfi í Sveitarfélaginu Hornafirði komi með haustinu og að fjögur ílát verði við hvert heimili undir pappír og pappa, plastumbúðir, matarleifar og blandaðan úrgang. Þó verður hægt að óska eftir innra hólfi undir matarleifar sem passar innan í hefðbundnar ruslatunnur. Með innra hólfinu þarf ekki að fjölga tunnum við heimili en vegna smæðar henta þau einna helst smærri heimilum. Innri hólf undir matarleifar verða því undantekning frá meginreglunni. Helsta breytingin er því sú að pappír verður aðskilinn frá plasti og að þessum flokkum verði safnað í sitthvora tunnuna. Á sama tíma verður óheimilt að setja málma í þessar tunnur. Áfram verður hægt að fara með málma og gler ásamt pappír, pappa og plastumbúðir á flokkunarbarinn við söfnunarstöðina á Höfn. Textíl og fatnaði verður áfram hægt að skila í gám Rauða krossins við N1 eða á söfnunarstöðina á opnunartíma og áfram verður tekið við spilliefnum á söfnunarstöðinni. Unnið er að því að finna hæfilegar lausnir til að koma til móts við þarfir íbúa í dreifbýli. Samhliða breytingum á flokkunarkerfinu verður einnig gerð breyting á hirðutíðni. Í dag er öllum úrgangsflokkum safnað á þriggja vikna fresti. Reikað er með því að matarleifum verði safnað á tveggja vikna fresti en pappír og pappa, plastumbúðum og blönduðum úrgangi á fjögurra vikna fresti. Þá munu heimili einnig fá bréfpoka undir matarleifar í stað grænu maíspokanna þar sem að þeir jarðgerast mun betur en aðrar tegundir poka. Á næsta ári er reiknað með að innleiða „Borgað þegar hent er“ við heimili með svokölluðum tunnugjöldum í stað fastra gjalda eins og nú er. Þá er greitt fyrir hverja tunnu í stað fastra sorphirðu- og sorpeyðingargjalda. Tunnur undir endurvinnanlegan úrgang verða ódýrastar en tunna undir blandaðan úrgang dýrust. Íbúum mun standa til boða að skipta núverandi tunnum undir blandaðan úrgang út fyrir smærri tunnu og þannig lækka eigin kostnað. Minna af blönduðum úrgangi þýðir lægri gjöld. Á söfnunarstöð sveitarfélagsins er þegar notast við „Borgað þegar hent er kerfi“ en þar greiða allir sem koma með gjaldskyldan úrgang. Þann 1. mars tók ný gjaldskrá fyrir söfnunarstöðina gildi sem er ætlað að styðja við innleiðingu hringrásarhagkerfisins með hagrænum hvötum. Dýrast er að henda úrgangi sem endar í urðun eða er kostnaðarsamt að meðhöndla. Ódýrast, og jafnvel gjaldfrjálst, er að koma með hreina endurvinnanlega úrgangsstrauma á söfnunarstöðina en þeim ber að halda aðskildum svo unnt sé að koma þeim í endurvinnslu. Allan hringinn Nú í apríl fer af stað vitundarvakning undir merkjum verkefnisins Allan hringinn. Verkefnið er samstarf stofnana, sveitarfélaga, rekstraraðila í úrgangsþjónustu og hagsmunasamtaka í atvinnulífinu en allir þessir aðilar eiga mikið undir því að innleiðing hringrásarlaganna gangi greiðlega fyrir sig. Markmið vitundarvakningarinnar er að kynna nýtt og betrumbætt fyrirkomulag við flokkun úrgangs undir slagorðinu „Betur gert, flokkað og merkt“. Íbúar eru hvattir til að kynna sér upplýsingar um breytingarnar á vefsíðunni úrgangur.is þar sem einnig má nálgast fjölbreytt og greinargott kynningarefni. Sömuleiðis má nálgast kynningarefni á síðunni flokkum.is en hún tekur mið af aðstæðum á höfuðborgarsvæðinu. Tökum komandi breytingum fagnandi og sameinumst um að halda dýrmætum auðlindum í hringrásinni – allan hringinn!
Stefán Aspar Stefánsson Verkefnastjóri umhverfismála
Þessi grein hefur verið aðlöguð að Sveitarfélaginu Hornafirði en hún er eftir Hugrúnu Geirsdóttur og birtist á Vísi þann 5. apríl 2023 undir sama titli. Hugrún er sérfræðingur í teymi hringrásarhagkerfis hjá Umhverfisstofnun.