Má bíllinn ekki vera oftar heima?

0
210

Þegar snjóa leysir og vorið virðist handan við hornið er viðeigandi að fá fólk til að huga að breyttum ferðavenjum. Í þéttbýlinu á Höfn búa íbúar við þann munað að vegalengdir innanbæjar eru oftast stuttar. Í raun eru þær svo stuttar að líklegt er að hægt sé að ganga þær á 10-15 mínútum og hjóla á enn skemmri tíma. Þó er það svo að við veljum ansi oft þægindin sem fylgja því að setjast upp í bíl frekar en að klæða okkur örlítið betur og halda af stað gangandi eða hjólandi. Staðreyndin er sú að breyttar ferðavenjur geta haft víðtæk áhrif, ekki aðeins fyrir umhverfið, heldur einnig fyrir andlega og líkamlega heilsu. Með færri bílum á götunum eykst jafnframt umferðaröryggi gangandi og hjólandi vegfarenda, svo ekki sé minnst á sparnaðinn sem hlýst af því að skilja bílinn eftir heima í ljósi hás eldsneytisverðs. Aðstæður á Höfn eru með besta móti til útivistar þar sem brattanum er ekki fyrir að fara auk þess sem vetrarfærð spillir sjaldnar fyrir en víða annars staðar. Að velja oftar að ganga eða hjóla, þau okkar sem það geta, eykur hreyfingu og útivist. Sterk tengsl eru á milli hreyfingar og útivistar og bættrar andlegrar og líkamlegrar heilsu, sem aftur getur dregið úr álagi á heilbrigðiskerfið. Að velja oftar að ganga eða hjóla, nú eða nota rafhlaupahjól eða aðra virka ferðamáta, dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda. Því fleiri sem nýta aðra ferðamáta en bílinn aðeins oftar, því meiri árangur næst í markmiðum um losun á þeim. Til að hvetja fólk til að skoða sínar ferðavenjur unnu Orkusetur og Vistorka að tæknilausn utan um alþjóðlega hugmyndafræði sem snýst um að allir íbúar geti fullnægt flestum þörfum sínum í stuttri göngu- eða hjólaferð frá heimili sínu. Verkefnið samanstendur af vefsíðu, appi og prentuðu korti og segir einn af hönnuðum verkefnisins fólk oft vanmeta hversu langt það kemst án þess að nota einkabílinn. Tæknilausnin nefnist kortER en þar er hægt að fletta upp heimilisföngum eða öðrum staðsetningum til að komast að því hversu langt þaðan viðkomandi kemst á 15 mínútum. Á meðfylgjandi mynd sýnir græni liturinn hve stórt svæði er í 15 mínútna göngufjarlægð frá Miðbæ. Sömu forsendur eiga við um bláa litinn ef viðkomandi væri hjólandi. Ég hvet lesendur til þess að kynna sér kortER og spyrja sig hvort ekki megi skilja bílinn oftar eftir heima. Stefán Aspar Stefánsson Verkefnastjóri umhverfismála