Styrktarvinir Eystrahorns

0
514

Í fyrsta lagi langar mig að þakka fyrir ótrúlega góð viðbrögð við Eystrahorni. Þetta er búið að reynast mjög skemmtilegt og lærdómsríkt. Að fá tækifæri til þess að hitta allskonar fólk kynnast samfélaginu á allskonar vegu eru forréttindi sem ég er mjög þakklát fyrir að fá að sinna. Það er frábært að fá ábendingar, greinar og efni frá ykkur og hvet ég alla til þess að halda því áfram.

Við getum líklegast öll verið sammála um það að Eystrahorn er mikilvægur vettvangur fyrir upplýsingar sem þurfa að komast til skila en einnig þjónar það mikilvægum menningarlegum tilgangi. Þetta er vettvangur fyrir allskonar mikilvægt og minna mikilvægt en alltaf merkilegt. Vettvangur til þess að fá innsýn í flóru samfélagsins, vettvangur þar sem allir geta viðrað sína skoðun og vettvangur þar sem við getum lesið um, samgleðst og verið stolt af því sem gott er gert. En héraðsfréttamiðlar eins og Eystrahorn eru oftar en ekki litlir og ekki fjárhagslega sterkir. Það er mikil vinna og metnaður sem er lagður í hvert blað sem margir koma að. Deildir innan ungmennafélags Sindra sjá um útburð blaðsins á Höfn. Ungur og upprennandi ljósmyndari sem er að stíga sín fyrstu skref sendir blaðinu forsíðumyndir. Prófarkalesari þaulles gaumgæfulega í hverri viku og svo er allt hitt.
Það er einlægur ásetningur að halda áfram að vinna Eystrahorn í þessari mynd en til þess að það gangi til lengri tíma litið og verði sjálfbært þá er hægt að leggja okkur lið með því að gerast vinir blaðsins með mánaðarlegum styrk. Upphæðin er valfrjáls, hver króna hjálpar. Hægt er að gerast “styrktarvinur Eystrahorns“ með því að fara á vefsíðuna okkar og skrá sig. Þar er hægt að velja upphæð sem óskað er eftir að styrkja með mánaðarlegu framlagi. Einnig er öllum frjálst að styrkja útgáfuna með einstaka framlagi.
Ég þakka enn og aftur fyrir móttökurnar og ég hlakka til að miðla upplýsingum og fróðleik um samfélagið okkar vonandi í langan tíma.

Virðingafyllst
Arndís Lára Kolbrúnardóttir
Ritstjóri Eystrahorns.