Takk fyrir stuðninginn kæru Hornfirðingar

0
187

Félagar í Kiwanisklúbbnum Ós þakka fyrir þann stuðning og hlýhug sem Hornfirðingar sýndu í G-veislu klúbbsins núna í mars. Konur voru sérstaklega velkomnar að þessu sinni að njóta veitinga, veislu og dansleiks. Veislan tókst sérlega vel. Veislustjórinn Þorkell Guðmundsson sem er höfundur Pabbabrandara fór á kostum.

Matseðill var m.a. saltað hrossa- og sauðakjöt, hnísa í ostrusósu og grillað langreyðakjöt með kartöflum og rófum frá Seljavallabúinu, smáréttir í boði Pakkhússins lax og rækjuspjót, en þeir snillingar matreiddu og gerðu allar sósur. Að borðhaldi loknu var fjölmennt ball með hljómsveitinni 6-Pence. Það er alveg ástæða að fara hlakka til næsta árs þar sem verður boðið upp á viðlíka mat og skemmtun.

Að loknu borðhaldi var listaverkauppboð og er listafólkinu; Eyrúnu, Lísu, Herdísi, Svövu og Þorra, þakkað fyrir sitt framlag og einnig þeim sem buðu í og eignuðust listaverkin.

Sérstakar þakkir fá dyggir bakhjarlar sem standa þétt við bakið á okkar starfi og þar má nefna; Pakkhúsið, Flytjanda, Mikael, Ajtel, Martölvuna, Hafið, Eystrahorn, Seljavelli og Hval h/f svo einhverjir séu nefndir. Það má sjá af þessari upptalningu að margir láta sig góðgerðarmál varða og styrkja okkar starf. Styrktarsjóðurinn er þegar farinn að huga að næsta verkefni.

Til fróðleiks má geta að alþjóðahreyfing Kiwanis tekur virkan þátt í að hjálpa börnum heimsins, t.d. Kiwanis Children Fund sem vinnur að því að útrýma stífkrampa á heimsvísu í samstarfi við UNICEF ásamt aðstoð við úkraínsk börn. Þá njóta Píeta samtökin, BUGL og Samfélagssjóðurinn hér á Höfn stuðnings frá Ós auk fjölda annarra smærri verkefna.

Kiwanisklúbburinn Ós hvetur áhugasama að vera í sambandi við félaga um inngöngu í klúbbinn á netfanginu
os@kiwanis.is. Ekki má gleyma að stefnt er að stofnun kvennaklúbbs á Hornafirði og eru upplýsingar í Facebookhópnum Konur í Kiwanis Hornafirði.

Þá viljum við minna á páskaeggjabingóið hjá Ós sem verður haldið laugardaginn 8. apríl klukkan 14.00 í Sindrabæ. Allur ágóði af bingóinu fer í styrktarsjóðinn.

Bestu þakkir fyrir hönd
Kiwanisklúbbsins Óss.
Geir Þorsteinsson forseti, Kristjón Elvar Elvarsson formaður skemmtinefndar og Sigurður Einar Sigurðsson fréttaritari.