1228 pípur-hljóma í Hafnarkirkju

0
387

1228 pípur – hljóma í Hafnarkirkju

Undanfarnar þrjár vikur hefur farið fram allsherjar hreinsun og viðgerð á pípuorgelinu í Hafnarkirkju en slík yfirferð hefur ekki verið framkvæmd frá því að orgelið var sett upp í kirkjunni árið 1996. Til verksins voru fengin Björgvin Tómasson orgelsmiður og Margrét Erlingsdóttir kona hans. „Já, það kemur fólki yfirleitt á óvart fjöldi pípanna í svona orgeli“ segja þau í stuttu viðtali hér.

Hefur smíðað 41 orgel

 „Við erum bæði Mosfellingar, alin upp í Mosfellssveit eins og sveitarfélagið hét í okkar æsku. Ég lærði orgelsmíði í Þýskalandi og tók þar sveinspróf 1983 og Margrét er lærður rafvirki. Í dag erum við búsett á Stokkseyri og rekum þar okkar orgelverkstæði þar sem við önnumst smíði á pípuorgelum og viðgerðum á harmóníum hljóðfærum.  Harmóníum er það hljóðfæri sem á Íslandi gengur oftast undir nafninu orgel eða jafnvel  pumpuorgel þar sem það er stigið með fótunum. Alls hafa verið smíðuð 41 orgel á orgelverkstæðinu frá 1988.

Pípuorgel merkileg hljóðfæri

„Orgel Hafnarkirkju hefur 21 rödd sem skiptast á tvö hljómborð og pedal og hefur alls 1.228 pípur af ýmsum stærðu allt frá 9,5 mm  upp í þær stærstu 2,5 m sem eru sjáanlegar fremst. Þessi stærð af orgeli hentar kirkjunni mjög vel og eru nokkuð mörg orgel í kirkjum landsins af svipaðri stærð.
Helst má finna að staðsetningu orgelsins í kirkjuskipinu.  Það tekur ansi mikið pláss og skapar töluvert ójafnvægi í kirkjunni.  Ef til vill verður einhvern tíma hægt að bæta úr því. Við hreinsun á orgeli Hafnarkirkju voru allar pípur teknar úr hljóðfærinu og þrifnar.  Hljóðfærið var allt þrifið hátt og lágt og öll mekanik þess yfirfarin.  Þegar pípurnar höfðu verið settar í orgelið að nýju var inntónun hverrar raddar yfirfarin og hljóðfærið stillt.  Stilling hljóðfærisins er einna vandasamasta verkið og þar er það eyra orgelsmiðsins sem segir til um hvort tónninn sé réttur.  Engin tæki eða mælar eru notaðir við slíka stillingu.“

Markaðurinn að mettast

Innt eftir hvort mikið sé að gera um þessar mundir segja þau;„Það hefur verið frekar rólegt uppá síðkastið hvað varðar nýsmíði á orgelum.  Til skamms tíma vorum við fjögur við vinnu á orgelverkstæðinu en síðustu misseri höfum við bara verið tvö og sinnt hreinsunum, viðgerðum og stillingum.  Smátt og smátt mettast markaðurinn á Íslandi fyrir ný pípuorgel og svo er alltaf samkeppni erlendis frá og sem dæmi má nefna að nýjasta orgelið á Íslandi kom frá Ungverjalandi.“

Ánægð með dvölina á Höfn

„Okkur hefur líkað dvölin hér á Höfn alveg einstaklega vel. Við höfum haft afnot af Vallanesi (Höfðvegi 5) og þar er gott að dvelja.  Í hádeginu höfum við borðað á dagdvöl aldraðra og fengið þar alveg prýðis mat. Þar höfum við kynnst afar skemmtilegu fólki og átt við það mjög gott spjall.
Bestu kveðjur fá starfstúlkurnar þar, Anna, Ásta, Lovísa og Vigdís.
Eins viljum við koma á framfæri þakklæti til Ragnars Imsland en það var ómetanlegt að fá afnot af verkstæði hans.  Leiðsögn hans og Júlíu um bæinn var einstaklega fróðleg og skemmtileg svo maður tali nú ekki um heimili þeirra sem er eitt stórt listaverk. Afar ánægjulegt samstarf höfum við átt við Albert, Jörg og séra Stíg og Brói og Guðlaug eru algjörar perlur.“