Mikill metnaður og auður býr í félaginu okkar, Ungmennafélaginu Sindra. Frá því að ég hóf störf í janúar hefur starfið verið ákaflega krefjandi en á sama tíma spennandi og ekki síst gefandi. Verkefnin eru fjölbreytt og enginn dagur er eins. En hvað er Ungmennafélagið Sindri? Jú við erum þjónustu fyrirtæki sem er rekið af sjálfboðaliðum og einum starfsmanni. Okkar hlutverk í samfélaginu er gríðarlega stórt og jafnvel stærra en margir gera sér grein fyrir. Félagið þjónustar íbúa sveitarfélagsins á vettvangi lýðheilsu og hreyfingar, uppeldis og fræðslu og ekki síst á vettvangi hamingju og velferð einstaklingsins. Margir velta kannski fyrir sér hvað ég meina með orðinu hamingju en starfið sem fer fram innan félagsins hefur áhrif hvort sem það er iðkandinn sem kemur á æfingu og stofnar til vináttu sem fylgir honum allt sitt líf, aðstandendur iðkandans sem taka þátt í starfinu og sjá börnin sín blómstra, þjálfararnir sem leggja metnað í fag sitt og uppskera eftir því, stuðningsmenn sem mæta á keppnisviðburði og byggja upp Sindrahjartað og ekki síst íbúar sveitarfélagsins sem njóta samfélags þar sem jákvæðni, hreysti og forvarnargildi félagsins skilar einstaklingum út í samfélagið með einstaka borgaralega vitund. Allt þetta stuðlar að hamingju og velferð einstaklingsins og er slíka upplifun ekki hægt að meta til fjár.
Hjá félaginu eru starfandi átta deildir sem sinna barna- og unglingastarfi og eru það badminton, blak, fimleikar, frjálsar, knattspyrna, körfubolti, sund og rafíþróttir. Á afreksstigi erum við með blak, frjálsar, rafíþróttir og stóru deildirnar okkar knattspyrnu og körfubolta. Almenni flokkurinn þar sem er hugað að almennri lýðheilsu fer ört stækkandi og eru það badminton, blak, sund, knattspyrna, körfubolti og frjálsar sem sinna þeim vettvangi í dag. Hjá félaginu starfa 33 þjálfarar og aðstoðar þjálfarar í hluta- eða fullu starfi og erum við ákaflega stolt af því að hafa vel menntaða og reynda þjálfara innan okkar raða. Sú fagmennska og metnaður sem býr í okkar fólki er ómetanlegur og skilar sér áberandi í frammistöðu og vellíðan iðkenda okkar. Heildar iðkenda fjöldi félagsins eru 337 iðkendur og af þeim eru 206 á grunnskólaaldri eða um 87% grunnskólabarna á Höfn. Þá eru 47 í afreksstarfi og 84 iðkendur í almenna flokknum. Gaman er að segja frá því að yngsti iðkandi er 3 ára og elsti 69 ára. Ábyrgðin er því gríðarlega mikil og krafa um faglegt og fyrirmyndarstarf eitthvað sem við hjá félaginu teljum okkur vera að koma til móts við og höldum áfram að efla og bæta.
Okkar helstu áskoranir og markmið
Þegar við metum starfið okkar og umhverfið og horfum á okkar helstu áskoranir er staðsetning okkar stærsta áskorunin. Fjarlægð okkar sveitarfélags til þess næsta leiðir til þess að erfitt hefur reynst að fá fagfólk til starfa. Fjarlægðir í keppnir eru miklar og kostnaðarsamar og setja sinn toll á foreldra og iðkendur. Af hverju erum við þá að þessu? Vegna þess að við viljum veita okkar iðkendum jöfn tækifæri til iðkunnar og keppni á við aðra iðkendur á landsvísu. Við viljum að þau njóti þeirrar þjálfunar, fái þann stuðning og tækifæri til þess að vaxa sem einstaklingar og íþróttafólk og gera það sem þau hafa ánægju af. Markmið okkar er því skýrt og í samræmi við gildi félagsins, Metnaður, Samvinna og Heiðarleiki. Markmiðið er að veita öllum iðkendum félagsins framúrskarandi þjónustu og jöfn tækifæri til iðkunnar á landsgrundvelli. Félagið vinnur hart að markmiði sínu en það er ljóst að fjármagn spilar stóran þátt í að ná markmiðinu og hefur það reynst okkar stærsta áskorun. Við erum ákaflega þakklát fyrir stuðning samfélagsins, sveitarfélagsins og fyrirtækja sem sjá þá verðleika og gildi sem felast í okkar starfi og vonumst til að sá stuðningur haldi áfram um ókomin ár. Metnaðarfulla og faglega starfið sem er innan okkar raða er að skila okkur körfuknattleiksliði í 1. deild sem bankar upp á hjá efstu deildinni, við erum með knattspyrnulið karla í 2.deild og kvenna lið sem er í mikilvægri uppbyggingu með afburðarstelpur og landsliðsefni innan raða. Við erum að sjá unga fólkið okkar fá tækifæri í landsliðshópum, liðum í efri deildum á Íslandi og erlendis sem og tækifæri til menntunnar á grundvelli íþróttaiðkunnar erlendis. Við erum að springa úr stolti yfir árangri Sindrafólksins okkar og sem lítið afskekkt samfélag úti á landi eigum við að vera það! Starfið og umgjörðin sem við höfum byggt upp er að vekja athygli meðal íþróttahreyfingarinnar og eru iðkendur Sindra til fyrirmyndar hvert sem þau fara. Kæra Sindrafólk verum stolt, við eigum hrós skilið fyrir okkar metnað og framlag og höldum áfram því gífurlega mikilvæga starfi sem við höfum sinnt fram að þessu og gerum gott betur!
Saga Sindra
Ungmennafélagið Sindri var stofnað árið 1934. Síðan árið 1992 hefur staðið til að skrifa bók um sögu félagsins og tókst sá áfangi á þessu ári með útgáfu á bókinni „Félag unga fólksins – Saga Ungmennafélagsins Sindra 1934-1966.“ Höfundur bókarinnar er Hornfirðingurinn Arnþór Gunnarsson og er bókin stórmerkileg heimild um starfsemi ungmennafélagsins í vaxandi byggðarlagi og sýnir hversu víðtæk starfsemin var en hún spannaði allt frá fræðslufundum og skólahaldi til íþróttakeppna. Höfundur las úr bókinni á rithöfundakvöldi Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar og haldið var svo formlegt útgáfu teiti á afmælisdegi félagsins 1. desember í félagsheimilinu Heklu. Formleg dagskrá átti sér stað með hóp af Sindrafólki sem var samankomið að fagna þessu merka áfanga félagsins.
Ritnefndin þakkar öllum þeim sem studdu við bakið á útgáfu bókarinnar og horfir björtum augum fram á við með bindi tvö í sjónmáli.
Að lokum langar mig til þess að hrósa og þakka öllu því frábæra fólki sem vinnur sjálfboðavinnu fyrir félagið á hverjum degi, þeim þjálfurum sem leggja metnað sinn í starfið og gefa sig alla í að auðga starfið svo um munar og iðkendum og fjölskyldum þeirra sem eru undirstaða þess að við getum mætt og unnið okkar vinnu. Þá tökum við fagnandi á móti öllum þeim sem vilja leggja starfinu lið á einn eða annan hátt og hvetjum íbúa til að vera með okkur í liði Sindra. Líkt og í stefnu sveitarfélagsins höldum við áfram að fjárfesta í innviðum og fólkinu okkar og eru tækifæri til áframhaldandi vaxtar gríðarlega mikil. Framtíðin er björt og ekki síst spennandi hjá Ungmennafélaginu Sindra!
Með von um gleði og frið um jólin og heillarík komandi ár.
Margrét Kristinsdóttir
framkvæmdastjóri Ungmennafélagsins Sindra