Aðventan og Kiwanis

0
242

Nú er aðventan gengin í garð og er hún annamesti tíminn í starfinu hjá Kiwanisklúbbnum Ós en þá er mikilvæg fjáröflun í gangi. Söfnunarfé er notað til að bæta samfélagið og gera það betra fyrir börnin okkar, en Kiwanishreyfingin hefur það markmið að hjálpa börnum í heimabyggð og reyndar í heiminum öllum.
Fyrir jólin seljum við jólatré, jólalakkrís, friðarkerti og jóladót í skóinn sem er nýtt verkefni en ágóði af því fer í verkefni í samráði við Grunnskóla Hornafjarðar. Við þökkum þeim fyrirtækjum sem komið hafa að verkefninu með auglýsingum á jólaskókassann. Önnur nýjung er Jólaþorp Kiwanis við Miðbæ með sölubásum ýmissa góðgerðarsamtaka og vonumst við að vel gangi svo það gæti orðið framhald á næsta ári. Við viljum sérstaklega að þakka fyrirtækjunum; Mikael, Þingvaði, Flytjanda, Ajtel, Martölvunni, Hans Christensen, Húsasmiðjunni sem og öllum klúbbfélögunum sem lögðu hönd á plóginn við uppsetningu Jólaþorpsins, pökkun á jólaskókössum, skreytingu jólatrjáa, skógarhöggi í Steinadal og Hoffelli. Skógræktarfélag Suðursveitar hefur haft veg og vanda að skógrækt í Steinadal og þökkum við þeim fyrir að leyfa okkur að höggva furu. Ekki má gleyma Þrúðmari í Miðfelli sem valdi öll fallegu jólatrén í skógræktinni þar.
Ós styrkir 550.000 kr nú fyrir jólin gegnum Samfélagssjóð Hornafjarðar með Nettó inneignarkortum. Það væri ekki væri hægt nema vegna góðvildar og hugulsemi ykkar Hornfirðinga í garð náungans.
Kiwanishreyfingin hefur starfað á Íslandi síðan 1962 og fer starfsemin vaxandi. Það er þó alltaf hægt að taka á móti nýju og áhugasömu fólki en Kiwanis er með fjölbreytt klúbbastarf meðal bæði karla og kvenna. Hér á Hornafirði er það karlaklúbbur sem er starfandi en við höfum mikinn áhuga á því að stofna kvennaklúbb á svæðinu og efla þar með starfið enn frekar. Ávallt eru nýir félagar velkomnir í Kiwanis.
Kiwanis er alþjóðleg hreyfing sem starfar í þágu barna og er Kiwanis Children Fund sjóður Kiwanis International fljótur að bregðast við þar sem er þörf t.d. vegna stríðshörmunga. Það má nefna að Ós gaf fyrr á þessu ári veglega í sérstaka söfnun sem gerð var hjá öllum Kiwanisklúbbum í Evrópu vegna átakanna í Úkraínu.
Kæru Hornfirðingar – um leið og við þökkum fyrir frábærar undirtektir við fyrri fjáraflanir þá biðjum við enn á ný um vinsemd og hlýjar móttökur fyrir þessi jól. Um leið erum við að styrkja bæði samfélagið okkar og eins þar sem þörf er á. Það veitir okkur öllum gleði að geta hjálpa. Við óskum öllum nær og fjær gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

Kiwanisklúbburinn Ós