„Enn hefur líf mitt lengst um heilan dag“

0
282

Íslenskur málsháttur hermir okkur að allt sé fertugum fært og sannarlega hefur fertugt fólk safnað sér þroska og reynslu sem léttir þeim lífsglímuna allajafna.
Með betri lífskjörum og lækningum en áður þekktist, lifa menn við meiri andlegan og líkamlegan þrótt. Það er spurning fyrir kór eldriborgara að endurskoða textann í gömlu húsgangsvísunni, sem kórinn syngur um æfiskeið mannsins en þar segir „áttræður alls ónýtur“. Þetta mætti umorða fyrir fimmtugsafmæli Félags eldri Hornfirðinga sem komið er á fimmtugsaldur eftir vel heppnaða afmælishátíð sem haldin var fyrsta desember sl.
Við tökum heilshugar undir ljóð Vilborgar Dagbjartsdóttir „Viðhorf“ sem Guðbjörg Sigurðardóttir, núverandi formaður félagsins, vitnaði til í ávarpi sínu til lesenda afmælisrits eldri Hornfirðinga, en þar segir:

Á hverju kvöldi
hvísla ég glöð
út í myrkrið:
Enn hefur líf mitt
lengst um heilan dag.

Ritið er vandað, fróðlegt og fallegt, og sérstaklega dýrmætt fyrir þá, sem framvegis munu bætast í félagsmannahópinn, eða eru nýbyrjaðir og þekkja ekki fjörutíu ára sögu félagsins til hlítar.
Afmælishátíðin sjálf var vegleg og vel undirbúin með skemmtidagskrá og glæsilegu matarhlaðborði sem Hafdís Gunnarsdóttir átti veg og vanda að og síðast en ekki síst var endað með góðu balli með okkar frábæru hljómsveit, Ekrubandinu.
Við leyfum okkur að þakka vel fyrir þessa myndarlegu hátíðarsamkomu sem var öllum til sóma sem að henni stóðu.
Við erum nýir félagar í FeH og syngjum með Gleðigjöfum sem hafa starfað innan félagsins frá upphafi. Lengst af undir ötullinni sjórn Guðlaugar Hestnes, kórstjóra.
Megi félagið bera gæfu til að starfa um ókomin ár með sömu bjarsýni og dugnaði og hingað til.
Okkar bestu þakkir fyrir þessa fínu afmælishátíð.

Bjarney Pálína og Sævar Kristinn.