Fyrstu vikuna í október fóru 10 nemendur úr FAS til Brønnøysund í Noregi og var heimsóknin liður í þriggja ára samstarfsverkefni á vegum Nordplus Junior. Þetta er síðasta árið í verkefninu. Auk Íslands og Noregs taka Finnar líka þátt í verkefninu sem ber heitið Geoheritage, culture and sustainable communities in rural areas in Finland, Iceland and Norway. Skólarnir þrír sem taka þátt í verkefninu eiga það sameiginlegt að vera staðsettir í dreifbýli fremur langt frá stærri byggðarkjörnum. Í verkefninu er verið að skoða jarð- og landfræðilega sérstöðu svæðanna, menningu og sjálfbærni. Í hverri heimsókn er unnið með eitt valið heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og að þessu sinni var verið að vinna með markmið 14 – líf í vatni. Auk skólanna eru jarðvangar á nálægum svæðum og Vatnajökulsþjóðgarður samstarfsaðilar og á hvert land einn fulltrúa í hverri ferð. Þegar allir eru komnir saman telur hópurinn um 40 manns.
Ferðalag Íslendinganna byrjaði hálf brösuglega því þegar flugvél Icelandair ætlaði að fara af stað áleiðis til Oslóar kom í ljós að það hafði gleymst að tengja vélina við landrafmagn þegar gengið var frá henni deginum áður og því var rafhlaðan í flugvélinni tóm. Það tók nokkurn tíma að finna nýja rafhlöðu og skipta um hana. Flugvélin hóf sig því ekki til flugs fyrr en um tveimur og hálfum tímum eftir uppgefinn brottfarartíma og leiddi þessi seinkun til þess að hópurinn missti af tengiflugi til Þrándheims. Það hafði verið gert ráð fyrir að íslenski og finnski hópurinn myndu hittast í Osló og verða samferða. Það var líka seinkun hjá finnska hópnum og þeir misstu einnig af fluginu til Þrándheims. Þetta breytti öllum ferðaáætlunum. Hóparnir komu mun seinna til Þrándheims og nú var ekki annað í boði en að taka rútu frá Þrándheimi til Brønnøysund og þangað var ekki komið fyrr en um hálfþrjú aðfaranótt mánudagsins.
Dagskráin ytra var fjölbreytt og skemmtileg. Strax á mánudeginum fórum við til eyjarinnar Vega. Þar fengu nemendur fræðslu um vistkerfi sjávar og mikilvægi þess að virða og vernda sjóinn. Á Vega og nálægum eyjum er mikið af æðarfugli og er dúntekja mikilvæg fyrir marga íbúana. Við gistum á eyjunni og næsta dag voru hóparnir fluttir á bátum yfir í eyjuna Søla þar sem deginum var eytt í það að tína rusl. Það náðist að safna um 400 kílóum af rusli og var uppistaðan í því alls konar plast en þó mest tengt sjávarútvegi.
Næsta dag var svo farið í heimsókn í laxeldisstöð. Þar fræddist hópurinn um ferlið sem á sér stað allt frá því að hrogn eru frjóvguð og yfir í fullvaxinn fisk sem er tilbúinn til slátrunar. Þá fór hópurinn einn daginn í fjöru í nágrenni skólans og skoðaði lífríkið sem er að finna þar. Það kom sannarlega mörgum á óvart hversu mikið líf er að finna í fjörunni. Það kom líka á óvart að sjá hversu mikið þar er nýtilegt og gæddu nemendur sé á bæði þangi, kröbbum og skeljum. Þá var einn eftirmiðdaginn farið að skoða fjallið Torghatten sem er einkenni fyrir svæðið. Fjallið er með gat og úr fjarlægð lítur það út eins og hattur. Auk heimsóknanna unnu nemendur í hópum að veggspjöldum sem þeir kynntu svo síðasta daginn.
Heimferðin hófst seinni partinn föstudaginn 7. október. Nú var farið með ferju frá Brønnøysund til Þrándheims og tók sú ferð 14 tíma. Þegar ferjan lagðist að bryggju beið rúta sem flutti hópinn á flugvöllinn. Það gekk allt vel hjá íslenska hópnum. Nú stóðust flugtímar og í Keflavík beið rúta sem flutti hópinn heim. Finnski hópurinn var ekki eins heppinn. Þegar breytingar urðu á upphaflega fluginu þeirra virðist sem að það hafi orðið mistök og ekkert fannst nú um þeirra bókun í kerfinu á flugvellinum. Og það var ekki laust í nein flug fyrr en tveimur dögum seinna. Það var því ekki um annað að gera en að panta rútu fyrir hópinn sem varð að láta sig hafa það að keyra heim, um 1300 kílómetra leið. Finnarnir voru ekki komnir heim fyrr en á sunnudagsmorgun en íslenski hópurinn kom á Höfn um klukkan 23 á laugardagskvöldi.
Það er nokkur áskorun fyrir nemendur að taka þátt í svona verkefni. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að nemendur búi hverjir hjá öðrum. Í öðru lagi þarf að vera búið að kynna sér viðfangsefnið hverju sinni til að hægt sé að taka þátt í sameiginlegri vinnu. Í þriðja lagi er það mikil áskorun fyrir marga nemendur að vinna í hópi á samskiptamáli verkefna. Samskiptamálið að þessu sinni er enska og það gefst gott tækifæri til að æfa sig í að tala, bæði í minni hópum og fyrir framan alla. Þó að þátttaka í svona verkefni geti að vissu leyti verið áskorun að þá er það um leið einstakt tækifæri til að kynnast nýju landi og lífinu þar. Venjulegur ferðamaður hefur sjaldnast tækifæri til að verða hluti af fjölskyldu í öðru landi.
FAS hefur nánast frá upphafi lagt áherslu á að gefa nemendum sínum tækifæri til að taka þátt í fjölþjóðlegum samstarfsverkefnum og má segja að það sé eitt af einkennum skólans. Þeir eru orðnir nokkur hundruð sem hafa tekið þátt í erlendum samstarfsverkefnum í gegnum tíðina og hafa um leið fengið tækifæri til að kynnast framandi þjóð. Oft skapast tengsl á milli nemenda og vitum við dæmi þess að þátttakendur kynnist það vel að vinátta skapist til framtíðar.
Allir þátttakendur í verkefninu stóðu sig með stakri prýði og voru landi og þjóð til sóma. Um leið var hópurinn þó tilbúinn til að gefa af sér í bæði leik og starfi.
Nordplus verkefninu lýkur í vor og þá munu hóparnir hittast í Vaala í Finnlandi. Sú ferð er áætluð seinni partinn í apríl en þá er enn vetur í Finnlandi. Þeir sem hafa áhuga geta lesið meira um ferðina á https://geoheritage.fas.is/
Hjördís Skírnisdóttir
Agnes Heiða Þorsteinsdóttir